Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

1. Mósebók

3. lestur -- 7.-11. kapítuli: Flóðið og tímabilið til Abrahams.

Nói gengur í örkina

Hlýðni Nóa
7:1-7.

1M 7:1. Drottinn sagði við Nóa: "Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð.
1M 7:2. Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr.
1M 7:3. Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö karlkyns og kvenkyns til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni,
1M 7:4. því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört."

Enn reynir Guð á trú Nóa. Ekkert náttúrlegt bendir til þess að fari að rigna. Nói hefur ekkert að byggja á nema þetta fyrirheiti Drottins um rigninguna. Þetta hefur líka reynt á trú allrar fjölskyldunnar. Hvað skyldu nágrannarnir hafa sagt, þegar þessir kjánar eða brjálæðingar voru að hamast við að byggja þetta skips-ferlíki.

Síðan fóru þeir að hleypa inn dýrum og fuglum í heila viku og síðan allri fjölskyldunni. Og ekki sást ský á lofti! Ef til vill hefur koma dýranna og fuglanna inn í örkina vakið undrun og ótta hjá þeim mönnum, sem óspart hafa verið búnir að hæða fjölskylduna. Ýmsir trúaðir menn, sem treysta blint á Guð, hafa fengið skamt af slíku háði á ýmsum tímum. Guð hefur aldrei brugðist mönnum, sem í lifandi trú treysta Drottni og fyrirheitum hans.

Hlýðni Nóa er okkur fyrirmynd:

1M 7:5. Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum.

Um aldur Nóa er getið í 5. kap:

Og er Nói var fimm hundruð ára gat hann Sem Kam og Jafet. (1M 5:32.)

Eftir það fer hann að byggja örkina, samkvæmt boði Drottins. Í sjötta versi í texta okkar stendur:

1M 7:6. En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóð kom yfir jörðina.
1M 7:7. Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonarkonur hans með honum undan vatnsflóðinu.

Í lok þessarar frásagnar er lögð áhersla á að Nói hlýddi Guði nákvæmlega í öllu. Þetta er trúuðum fyrirmynd.

Vatnsflóð skellur á
7:10-24.

1M 7:10. Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina.

Síðan er er þetta nánar skilgreint:

1M 7:12. Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur.
1M 7:13. Einmitt á þeim degi gekk Nói og Sem, Kam og Jafet, synir Nóa og kona Nóa og þrjár sonarkonur hans með þeim í örkina.

Í lok 16. v. stendur:

1M 7:16b. Og Drottinn læsti eftir honum.

Hér reynir enn á trú Nóa og fjölskyldunnar. Þau voru læst inni. Hvernig og hvenær skyldu þau komast út með öll dýrin og hvenær skyldu matarbirgðirnar þrjóta, sem þau höfðu tekið með fyrir menn og dýr?

Í smáum stíl reynir Guð enn á trú hinna trúuðu um afkomu fyrir fjölskylduna og dýrin, sem þeir rækta. Skyldi ekki margur bóndinn á Íslandi í gamla daga hafa fengið eins og ofurlítið sýnishorn af vandamálum Nóa og fjölskyldnanna í Örkinni! Trúaðir fátæklingar þekkja líka þessa trúarbaráttu, að treysta Drottni, þegar allt virðist vera svart og vonlaust. Ef til vill átt þú minningar í þessa átt í þínu lífi eða foreldranna.

1M 7:22. Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó.
1M. 7:23. Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir og það sem með honum var í örkinni.
1M. 7:24. Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga.

Flóðinu linnir.
1. Mós. 8. kapítuli.

1M 8:1. Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði.
1M. 8:2. Og uppsprettur undirdjúpsins lukust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti.
1M. 8:3. Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga.
1M. 8:4. Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins á Araratsfjöllunum.

Ararat er á landamærum Tyrklands og fyrrverandi Sovétríkjanna. Hæð þess er talin vera 5185 m. yfir sjávarmáli. Fram að þessu hefur verið stranglega bannað að rannsaka þetta fjall, en þeir sem flogið hafa yfir það, hafa sagt, að þar sé efst uppi eitthvað sem líkist stóru skipsferlíki.

1M 8:6. Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört,
1M. 8:7. og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni.
1M. 8:8. Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita hvort vatnið væri þornað á jörðinni.
1M. 8:9. En dúfan fann ekki hvílarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina.
1M. 8:10. Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni.
1M. 8:11. Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói að vatnið var þorrið á jörðinni.
1M. 8:12. Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur.
1M. 8:13. Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þorrnað á jörðinni.
  Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt.
1M. 8:14. Í öðrum mánuðinum á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin orðin þurr.

Í kaflanum á undan stóð í 11. versinu: Á sex hundraðasta aldursári Nóa í öðrum mánuðinum á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps.
Í 8. kap., sem við erum að lesa, í 13. versinu, lásum við: Og á sexhundaðasta og fyrsta ári, í öðrum mánuðinum á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni.

Berið þetta saman og finnið út hve langur tími þetta er. Það hefur ekki veitt af miklum matarbirgðum bæði fyrir fólk og dýr. Takið eftir nákvæmninni í frásögninni. Hér er enginn slumpa-reikningur. Það styrkir sannleiksgildi sögunnar.

1M. 8:15. Þá talaði Guð við Nóa og mælti:
1M. 8:16. "Gakk út af örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonarkonur þínar með þér.
1M. 8:17. Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni."
1M. 8:18. Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonarkonur hans með honum.
1M. 8:19. Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni.

Það næsta sem sagt er frá, þarf ekki að hafa gerst strax eftir að örkin var tæmd, heldur eitthvað seinna:

1M. 8:20. Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu.
1M. 8:21. Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig:
  "Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugsanir mannsins eru illar frá bernsku hans, og ég mun ekki framar deyða allt sem lifir, eins og ég hefi gjört.
1M. 8:22. Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt."

Meginhluti þessarar sögu er sagður svo einfalt og blátt áfram, að nútíma skáld hafa notað söguna dálítið breytta í leikrit og myndasögur fyrir börn.

Mér hefur verið sagt, af trúverðugum mönnum, að jarðlög um allan heim sýni, að vatn hafi legið yfir jörðinni um langan tíma og á fyrstu tímum jarðarinnar hafi jörðin verið óskipt heild og sjórinn óskiptur. Síðan hafi jörðin klofnað og hlutarnir rekið hver frá öðrum og höfin myndast við það í líku formi og nú er. Þetta er nefnt Landrekskenningin og er kennd í skólum landsins. Hið svokallaða Nóa-flóð hefur verið áður en þetta landrek átti sér stað. Sagan sem við vorum að lesa er meiri sannleikur, en menn almennt vilja viðurkenna.

  [Aths. 3-1]

Sáttmáli Guðs við Nóa
1. Mós. 9:1-17.

1M. 9:1. Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá:
"Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina.
1M. 9:2. Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar og, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu sem hrærist á jörðinni og yfir öllum fiskum sjávarins. Á vald yðar er þetta gefið.
1M. 9:3. Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar.
1M. 9:4. Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.
1M. 9:5. En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég krefjast og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins.
1M. 9:6. Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.
1M. 9:7. En ávaxtist þér og margfaldist og vaxið stórum á jörðinni og margfaldist á henni.

Hér er [fyrst og fremst] varað við að drekka mannsblóð, en það mun hafa verið algengt meðal þeirra manna sem útrýmt var í Nóaflóðinu eða syndaflóðinu og hefur þekkst hjá einstaka villtum þjóðflokkum síðustu alda, en líklega ekki á okkar öld nema hjá Satansdýrkendum. Þar er það stundað að drekka mannsblóð, segja þeir sem til þekkja.

Síðan gerði Guð sáttmála við Nóa og mannkynið, sem regnboginn á alltaf að minna á: að Guð ætli aldrei að útrýma mannkyninu með vatnsflóði. Á því endar þessi þáttur 9. kapítulans.

Þrír synir Nóa
1. Mós. 9:18-26.

1M. 9:18. Synir Nóa, sem gengu út úr örkinni, voru þeir, Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans.
1M. 9:19. Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin.
1M. 9:20. Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð.
1M. 9:21. Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.
1M. 9:22. Og Kam, faðir Kanaans sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru.
1M. 9:23. Þá tóku þeir Sem og Jafet skykkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneri undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns.

Þetta er athyglisverður þáttur. Ef til vill hefur þessi saga, sem er miklu eldri en saga Abrahams og Ísraelsþjóðarinnar, haft áhrif á hina ríku blygðunartilfinningu meðal Ísraelsmanna og Gyðinga okkar tíma. Rómverjar munu hafa krossfest menn nakta og aukið þannig á andlega kvöl þeirra. Lendarklæðin sem höfð eru yfir lend Jesú á krosslíkönum, var siðferðiskrafa kaþólsku kirkjunnar, þegar farið var að framleiða slík líkön.

Theresa Neumann, stúlkan í Konnesruth, sem sá fyrir sér í sýn krossfestingu Jesú á föstudeginum langa í nokkur ár og fékk sjálf naglasárin á hendur og fætur, sagðist sjá, að Jesús hafi verðið krossfestur nakinn, og henni virtist það hafa aukið mikið á sálarkvalir hans.

Í versunum 24-27 sjáum við viðbrögð Nóa, þegar hann vaknaði af vímunni, að hann átaldi son sinn sem líklega hefur gert gaman að því að hafa séð nekt föður síns. Nói lýsti bölvun yfir son sinn fyrir vikið. Það gæti bent til þess, að þarna sé ekki nema hálfsögð saga um afskipti sonarins við föðurinn, þegar hann sá hann nakinn.

Ölglaðir Svíar gerðu grín að drykkju Nóa og ortu um hann drykkjusöng, sem Íslendingar þýddu og syngja í drykkjusvalli. Það er söngurinn: Gamli Nói, gamli Nói, guðhræddur og vís. Trúaðir menn líta á hann sem guðlast, sérstaklega Svíar.

Síðustu tvö versin segja frá lífaldri Nóa og andláti.


Ég hleyp yfir 10. kapítula, því hann er ættartala, sem hefur enga uppbyggilega þýðingu.

Ég hleyp líka að mestu yfir 11. kapítula um Babelsturninn, sem varð til þess að Drottinn ruglaði tungum manna, þ.e. menn hættu að skilja hver aðra og smátt og smátt mynduðust ný tungumál. Í kapítulanum má skilja, að slík dreifing eða sundurgreining og tvístrun manna út um heiminn, hafi átt sér stað, en þá gæti heimurinn hafa verið óskiptur, þ.e. áður en landrek átti sér stað.

Enn fremur hleyp ég yfir með þeim kapítula ættartölu Abrahams sem heild, en tek upp síðustu nöfnin í sambandi við næsta lestur, sem verður um forföður Ísraelsmanna, Abram, eða Abraham. [Aths. 3-2]

[Aths. 3-1] Benda má hér á ágæta bók um Nóaflóð: The Flood eftir Dr. Rehwinckel, útg. Concordia Publishing House, USA. Rehwinckel skoðar þar söguna um flóðið með hliðsjón af fornleifafræði og minnum meðal þjóða (þjóðsögur, helgisögur o. fl.) um allan heim. Því miður hefur bókin verið uppseld um langan tíma.

Til baka í texta.

[Aths. 3-2] Ekki er óeðlilegt að hlaupa yfir ættartölur í verki sem er fyrst og fremst ætlað að vera kynning fyrir fólk sem er lítt kunnugt Biblíunni. Þó er í þessum ættartölum mikil saga. Einnig er á það að líta að sumar svokallaðar ættartölur eru fyrst og fremst eins konar upprunasögur, sbr.

Til baka í yfirlit.