Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

1. Mósebók

4. lestur: 12-14. kapítuli
Fyrirheitna landið og blessun Melkísedeks.

Fyrirheitna landið
12:1-4.

Áður en við skoðum nánar textann sem við lásum, skulum við líta á síðustu sex versin í 11. kapítulanum.

1M 11:27. Þetta er saga Tara: Tara gat Abram, Nahor og Haran, en Haran gat Lot.
1M 11:28. Og Haran dó á undan Tara föður sínum í ættlandi sínu, í Úr í Kaldeu.
1M 11:29. Og Abram og Nahor tóku sér konu. Kona Abram hét Saraí, en kona Nahors Milka, dóttir Harans, föður Milku og föður Ísku.
1M 11:30. En Saraí var óbyrja, hún átti eigi börn.
1M 11:31. Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn og Saraí tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanslands, og þau komu til Harran og settust þar að.
1M 11:32. Og dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.

Nú skoðum við nánar textann sem við lásum um fyrirheitna landið:

1M 12:1. Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til lands, sem ég mun vísa þér á.
1M 12:2. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera."

Það kemur ekki fram í þessum orðum hvernig Drottinn vitrast Abram, hvort það er í vöku eða svefni eða hvort Drottinn birtist honum í líkamlegri mynd, en köllunin er svo skýr, að Abram er ekki í neinum vafa.

Það er einnig ljóst á þessari köllun, að í henni er fólgin prófun á trú Abrams: Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til lands, sem ég mun vísa þér á. Þetta er köllun til að fara í trú út í óvissuna.

Kristniboðsköllun er einna líkust þessari köllun, en þarna ríkir samt meiri óvissa en óvissa þeirra sem fá slíka köllun í dag, því í dag hafa menn meiri þekkingu á heiminum, og um hvar þörfin er fyrir slíkt, en þarna var alger óvissa.

Þetta er erfið prófraun fyrir Abram, sem á konu, sem ekki getur átt barn. En með þessari köllun fylgir loforð Guðs um að hann muni eignast barn. Karlmaður sem ekki gat eignast barn var á þessum tímum fyrirlitinn. Hér reynir mjög á trú Abrams og reyndar líka á trú Saraí konu hans.

Þessari köllun fylgdi loforð Guðs um blessun hans og varðveislu gagnvart andstæðingum:

1M 12:3. "Ég mun blessa þá sem blessa þig, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."

Fyrirheitið, sem hér er undirstrikað, er fyrirheitið um blessun Guðs, sem hann lofar hér að veita öllum ættkvíslun jarðarinnar. Þetta er fyrirheitið um alheims-blessun af afkvæmi hans í framtíðinni, Jesú Kristi, fyrir trú á hann.

Abraham trúir Guði, þótt fyrirheiti hans virðist vera alger fjarstæða. Þetta var fyrsta prófraun trúarinnar sem Guð lagði fyrir Abtitan.vortex.isram, sem síðar fékk nafnið Abraham.

Í næsta versi er sagt frá því að Abraham hlýddi þessari köllun í blindri trú og tók með sér, auk konu sinnar, Lot bróðurson sinn.

Abram í Kanaan og Egyptalandi
1. Mós. 12:5-20.

1M 12:4. Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.
1M 12:5. Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast og þær sálir, er Þeir höfðu fengið í Haran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanslands.
Þeir komu til Kanaanslands.
1M 12:6. Og Abram fór um landið, allt þangað sem Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kaananítar í landinu.
1M 12:7. Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann:
"Niðjum þínum vil ég gefa þetta land."
Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum.

Við sjáum hér, að þeir frændur taka með sér þær sálir, sem þeir höfðu fengið í Haran. Það munu vera undirmenn og konur og sennilega líka þrælar. En við sjáum líka algera hlýðni Abrams og mikinn dugnað við að ferðast og kanna þetta ókunna land, sem hann er kominn í, án þess að vita hvað muni gerast næst.

En það næsta sem gerist er það, að Drottinn birtist honum aftur og lýsir því yfir, að Hann gefi Abram þetta land. Ekkert er getið um andstöðu þeirra, sem fyrir voru í landinu. En nú veit Abram, að hann er kominn í það land sem Guð hafði heitið honum.

En þetta átti ekki að ganga þrautalaust fyrir Abram. Það næsta sem við sjáum er að hallæri verður í landinu, svo að Abram neyðist til að fara til Egyptalands með konu sína. Á leiðinni verður honum það ljóst, að kona hans verði tekin af honum, því hún muni hrífa karlmennina. Hann biður konu sína að segjast vera systir hans. Þessi lygi bjargar þeim báðum, en þó hefur Saraí verið í mikilli hættu. Þegar sannleikurinn kemur í ljós er þeim báðum sleppt úr landi, en Abram fær skammir fyrir lygina.

Næsti kapítuli hefst með lokaorðunum í þessari frásögn:

1M 13:1. Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti og Lot fór með honum til Suðurlandsins.

Abram og Lot skilja
1. Mós. 13:2-18.

1M 13:2. Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli.
1M 13:3. Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí,
1M 13:4. til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins.

Þetta er í annað sinn sem lögð er áhersla á að Abram ákallar nafn Drottins. Hér virðist vera gengið út frá því, að nafn Drottins hafi geymst í minnum manna allt frá tímum Adams og frá tímum Nóa, sem Guð talaði við á persónulegan hátt á sínum tíma.

 
1M 13:5. Lot, sem fór með Abram átti og sauði, naut og tjöld.
1M 13:6. Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið.
1M 13:7. Og sundurþykkja reis á milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. -- En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.
1M 13:8. Þá mælti Abram við Lot: "Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því við erum frændur.
1M 13:9. Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar þá fer ég til hægri, viljir þú fara til hægri, þá fer ég til vinstri."
1M 13:10. Þá hóf Lot upp augu sín og sá að allt Jórdan-sléttlendið allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.)
1M 13:11. Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir.
1M 13:12. Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu.
1M 13:13. En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.

Orðskýring í 13:5: og = líka.
Til baka í v. 5.

Þessi frásögn lýsir Abram mjög vel sem stórbrotnum höfðingja, hjartahlýjum og velviljuðum.

1M 13:14. Og Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: "Hef upp augu þín og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.
1M 13:15. Því að allt landið sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega.
1M 13:16. Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir.
1M 13:17. Tak þig nú upp og far um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það."
1M 13:18. Og Abram færði sig með tjöld sín og settist að í Marmelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.

Á þessu fyrirheiti byggja Gyðingar í dag hugsjónir sínar og kröfur um landareign fyrir ættmenn sína. En borgin Jerúsalem er þar aðallega í brennidepli, en það á sér aðra forsögu.

Abram fer í stríð. Melkísedek
14. kapítuli.

Við lesum [v. 1-13] um herkonunga, þar á meðal þá, sem réðu yfir Sódómu og Gómorru, um flótta þeirra og sennilaga dauða annars þeirra, og um að Lot, hafi verið tekinn í gíslingu af sigurvegurunum. Við lesum líka um flóttamann, sem sagði Abram tíðindin.

Lesum nú nánar frá 14. versinu:

1M 14:14. En er Abram frétti að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan.
1M 14:15. Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá að náttarþeli, hann og menn hans og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus.
1M 14:16. Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og alla fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið.
1M 14:17. En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal (þar heitir nú Kóngsdalur.)
1M 14:18. Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs.
1M 14:19. Og hann blessaði Abram og sagði: "Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar.
1M 14:20. Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!"
Og Abram gaf honum tíund af öllu.

Hér kemur til sögunnar Melkísedek konungur í Salem. Viðbrögð Abrams gagnvart þessum konungi eru svo sérstæð, að þau hljóta að vekja sérstaka athygli. Ekki eru síður athyglisverð blessunarorð þessa dularfulla manns.

Fyrst ætla ég að þýða úr stóru Biblíuorðabókinni nokkrar skýringar um orðið Salem.

Salem, hebr., friður, borg Melkísedeks.
Kirkjufeðurnir álitu að hér væri átt við Salim við Ænon (Skytopolis við Jórdan), en sennilegra er, að álíta eins og Jósefus og rabbínarnir, að Salem sé sama og Jerúsalem.
Urusalem heitir borgin í Tell-el-Amarna- bréfunum, c.a. 1300 f. Kr.
Ur merkir borg. Salem merkir shalom, friður. Jerúsalem merkir borg friðarins.
Leks 1, bls. 3649 og 2193.

Þessa konungs er getið bæði í Davíðssálmi 110:4, og á nokkrum stöðum í Hebreabréfinu í tengslum við Jesú Krist:

Drottinn hefir svarið og hann iðrar þess eigi: Þú ert konungur að hætti Melkísedeks.
(Sálm. 110:4)

Um Jesú er sagt í Hebr.5:5-10:

Svo var það og um Krist. Ekki tók hann sér sjálfur vegsemd að gjörast æðsti prestur. Hann fékk hana af Guði, er hann sagði við hann:

Þú ert sonur minn
í dag hefi ég fætt þig.

Og á öðrum stað:
Þú ert prestur að eilífu
að hætti Melkísedeks.

Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.
Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því sem hann leið.
Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis,
af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Í Hebr. 6:13 o. n. v. er sagt:

Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá sór hann við sjálfan sig, þar sem hann hafði við engan æðri að sverja og sagði:
Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt.
Og Abraham öðlaðist það sem Guð hafði heitið honum, er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.
Menn sverja við þann sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli.
Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitisins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði.
Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum.
Hún er eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið,
þangað sem Jesús gekk inn, fyrirrennari vor vegna, þegar hann varð æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Í Hebr. 7. kap. er svo rifjuð upp sagan um Melkísedek, sem við höfum verið að lesa í biblíulestri okkar.

Abram virðist skynja, að þarna er fulltrúi Guðs, því hann deilir með honum herfangi sínu:

Og Abram gaf honum tíund af öllu. (1M. 14:20b; Hebr. 7:6 nn.)

Hér er fyrsta vísbendingin um að gefa tíund, sem fulltrúi Guðs tekur við sem gjöf helguð Guði. Þetta er fórn, sem er ólík örðum fórnum á þessum tímum, því það er ekki blóðfórn.

Konungurinn í Sódómu vildi fá alla herfangana í sinn hlut og láta Abram hafa fjárhlutina. Abram vill ekkert taka handa sjálfum sér, en leyfa mönnunum sem fylgdu honum í bardagann að njóta fjármunanna sem þeir höfðu hertekið. Abram hafði frelsað Lot, bróðurson sinn, það var honum nóg. Auk þess hafði hann hlotið blessun Melkísedeks og með henni hugarfar miskunnseminnar.

Til baka í yfirlit.