Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

1. Mósebók

5. lestur: 15-17. kapítuli
Sáttmáli Guðs við Abram

Guð gjörir sáttmála við Abram
15. kapítuli.

1M 15:1. Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: "Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða."
1M 15:2. Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað ætlar Þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns."
1M 15:3. Og Abram mælti: "Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig."

Biblíuleg merking í orðinu hús er húsbóndavald yfir ættinni og öllu starfsfólki og öllum eignum húsbóndans. Í orðum Abrams sjáum við, að þrá hans eftir erfingja er efst í huga hans. En hann nefnir vandamálið við Guð, þar sem Guð er að tala við hann í sýninni.

Guð svarar bæn Abrams:

1M 15:4. Og sjá orð Drottins kom til hans: "Ekki skal hann erfa þig, heldur sá sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig."

Þessu til staðfestingar og sem fyrirheit um ógrynni fjölda afkomenda, segir Guð honum að telja stjörnurnar á himninum, því afkomendur hans munu verða í líkingu við þann fjölda.

Ef við höfum í huga, að í þeim fjölda er fólginn allur sá skari, sem frelsast fyrir trú, eins og Abraham, þ.e. ásamt trúuðum, kristnum Gyðingum, -- þ.e. allir kristnir menn, sem frelsast fyrir trú á öllum tímum frá Abraham til enda þessa heims -- þá sjáum við hve stórkostlegur sannleikur þetta loforð eða fyrirheiti Guðs er, sem hann gaf Abraham.

1M 15:6. Og Abram trúði Drottni og hann reiknaði honum það til réttlætis.

Fyrir trú gefur Guð honum á ný fyrirheiti:

1M 15:7. Þá sagði hann við hann: "Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar.

Abram (Abraham) biður um tákn og Drottin lætur hann útbúa fórn, sem Abram á fullt í fangi með að verja fyrir hræfuglum. Sú barátta endar með því að svefnhöfgi hnígur á Abram og hann verður hræddur. Þá fær Abram að heyra spádóm um afkomendurna, sem er fremur ógnvekjandi fyrir Abram, en við vitum að rættist í þrælahaldinu í Egyptalandi, sem sagt er frá í 2. Mósebók í fyrstu 14 kapítulunum.

Kapítulanum lýkur með staðfestingu á sáttmála Guðs við Abram (Abraham):

1M 15:18. Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat:
1M 15:19. land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta,
1M 15:20. Hetíta, Peresíta, Refaíta,
1M 15:21. Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta."

Hagar elur Ísmael.
16. kapítuli.

1M 16:1. Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar.
1M 16:2. Og Saraí sagði við Abram: "Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis." Og Abram hlýddi orðum Saraí.
1M 16:3. Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu.
1M 16:4. Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína.

Það er margt hægt að læra af þessari stuttu frásögn.

Saraí hona Abrams er orðin það gömul, að kvenlegt eðli (tíðir) er horfið frá henni. Hún trúir ekki á kraftaverk í fyrirheiti Guðs, -- trúir jafnvel ekki framar fyrirheitum Guðs, sem Abram hafði sagt henni frá í hrifningu sinni. Hún kennir í brjósti um eiginmann sinn, þennan trúaða sakleysingja og vill bjarga honum frá því að verða að arfleiða óskyldan mann að eignum og völdum. Hún gefur honum ambátt sína til þess að fullnægja þeirri þörf hans að eignast barn.

Þetta staðfestir um leið hið algera réttleysi ambáttanna. Þær voru réttlausar eins og skepnur, ekki bara á þessum tímum, heldur á öllum tímum fram á okkar daga.

Þetta sýnir líka, að þarna var veikasti bletturinn í trú Abrams: Hann hafði ekki fengið afkomandann, sem Guð hafði lofað honum. Gat Guð bjargað því héðan af, þar sem konan hans var komin úr barneign?

Berið þetta saman við frásögnina í Lúk. 1. kap. um Sakaría prest og konu hans. Þar hafði myndast sama vonleysið, svo að Sakaría trúði ekki engli Guðs sem sagði honum að hann mundi eignast son og hann skyldi láta hann heita Jóhannes.

Guði er ekkert ómáttugt. Það fengu bæði Abram og Sakaría að reyna.

En þetta sem Saraí gerði, var ekki í áætlun Guðs. Það leiddi því til erfiðleika seinna. Á þessum tímum, og ennþá hjá mörgum þjóðflokkum, eru konur, sem ekki geta átt börn, fyrirleitnar og álitið að Guð eða guðirnir séu að hegna þeim fyrir eitthvað. Fyrirlitningu ambáttar sinnar mátti Saraí nú þola, og líka fyrirlitningu allra nágrannanna.

Saraí kennir manni sínum um þetta:

1M 16:5b. "Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!"
1M 16:6. En Abram sagði við Saraí: "Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir." Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni.

Hér sjáum við enn nánar réttleysi ambáttarinnar. Nú er ambáttin aftur eign síns fyrri eiganda, Saraí, sem í hatri sínu og hefnigirni hrjáir hana og þjáir, svo að hún flýr að heiman.

1M 16:7. Þá fann engill Drottins hana hjá vatnslind í Eyðimörkinni, hjá lindinni á veginum til Súr.
1M 16:8. Og hann mælti: "Hagar, ambátt Saraí, hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara?" Hún svaraði: "Ég er á flótta frá Saraí, húsmóður minni."
1M 16:9. Og engill Drottins sagði við hana: "Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald."
1M 16:10. En engill Drottins sagði við hana: "Ég mun margfalda afkvæmi þitt, svo að það verði eigi talið fyrir fjölda sakir."
1M 16:11. Engill Drottins sagði við hana: "Sjá, þú ert þunguð og munt son fæða. Hans nafn skalt þú kalla Ísmael, því að Drottinn hefir heyrt kveinstafi þína.
1M 16:12. Hann mun verða maður ólmur sem villiasni, hönd hans mun vera uppi á móti hverjum manni, og hvers manns hönd uppi á móti honum, og hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum."
1M 16:13. Og hún nefndi Drottin sem við hana talaði: "Þú ert Guð sem sér." Því að hún sagði: "Ætli ég hafi einnig hér horft á eftir honum, sem hefir séð mig?"
1M 16:14. Þess vegna heitir brunnurinn Beer-lahaj-rói...
1M 16:15. Hagar ól Abram son, og Abram nefndi son sinn, sem Hagar ól honum, Ísmael.
1M 16:16. En er Abram var áttatíu og sex ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.

Ismael merkir "Guð heyrir"
Til baka í texta.

Beer-lahaj-roi. Talið er að orðið merki: "Brunnur hins lifandi er sér mig."
Til baka í texta.

Abram nefndur Abraham.
17:1-14.

1M 17:1. Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: "Ég er almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar,
1M 17:2. þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega."
1M 17:3. Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði:
1M 17:4. "Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða.
1M 17:5. Því skalt þú eigi framar nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig.
1M 17:6. Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma.
1M 17:7. Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála:
að vera þinn Guð og [Guð] þinna niðja eftir þig.
1M 17:8. Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kana'anland til ævinlegrar eignar, og skal ég vera Guð þeirra."

Með orðunum: "Ég er almáttugur Guð," gefur Guð til kynna, að hann geti látið konu hans fæða barn, þótt hún sé komin úr barneign af elli. Þetta eru orðin, sem Abram þarf að gera sér grein fyrir og treysta blint. Þannig þarf okkar trú líka að vera. Abraham er að vísu búinn að sannfæra sig og fólk sitt um, að hann hafi getu til að geta barn, en vissi nú, að með því hafði hann vantreyst Guði.

Nú hefur Guð sjálfur breytt nafni hans sem verðandi föður margra þjóða. Hvað felur það í sér?

Ísraelsmenn eða Gyðingarnir eru bara ein þjóð, en ekki margar þjóðir. Í þessu fyrirheiti felst loforð Guðs og fyrirheiti um að Abraham verði faðir allra þeirra sem frelsast fyrir trú á þann Guð, sem gaf honum fyrirheitið og margprófaði trú hans. Það er sá Guð, sem kynnti sig mörgum öldum seinna með því að senda eingetinn son sinn til að fæðast inn í þennan heim fyrir getnað heilags anda í stað mannlegs getnaðar og fyrir fórn hans að friðþægja fyrir allar syndir þeirra sem við honum taka í trú, svo að þeir komist í "Paradís Guðs" á himnum. Það er trðuin á Jesú Krist.

Eigir þú lifandi trú í Jesú Kristi, átt þú Abraham að "föður" í trúarlegum skilningi.

En Guð gerði við Abraham sérstakan trúarsáttála fyrir alla karlkyns afkomendur hans af hans ættstofni. Það er umskurnarsáttmálinn, sem varð varanlegt merki á líkama þeirra.

1M 17:9. Guð sagði við Abraham:
"Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars.
1M 17:10. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera.
1M 17:11. Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og sé það merki sáttmálans milli mín og yðar.
1M 17:12. Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg.
1M 17:13. Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann er þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli.
1M 17:14. En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."

Fyrir þá sem ekki vita, hvað hér er átt við, er rétt að útskýra nánar hvernig þeir drengir voru merktir Guði með umskurninni, sem fæddust eftir að Abraham fékk þessa skipun:

Þegar drengirnir voru 8 daga gamlir var yfirhúðin, sem hylur hettuna á typpi drengsins, numin burtu með beittum hníf. Þegar þetta var gert á áttunda degi eftir fæðingu, mun blæðing hafa stöðvast næstum undir eins, en olli mun meiri blæðingu væri það gert síðar. Þegar þetta var gert á fullorðnum mönnum voru þeir alllengi að ná sér. Þannig var umskurnin framkvæmd á Abraham og hinum fyrstu karlmönnum, sem létu umskerast.

Umskurn er stundum framkvæmd í dag á líkan hátt af læknum, þegar um er að ræða of þrönga yfirhúð, og eins er þessi aðgerð algeng á drengjum um alla Ameríku. Ég veit ekki hve gamlir þeir eru, þegar þeir eru umskornir. Auk þess eru drengir múslima, þ.e. Múhameðstrúarmanna, umskornir, þegar þeir eru 12 ára gamlir að ég held. Mér er sagt, að enginn umskorinn Gyðingur fái krabbamein í kynfærin. Sé það rangt, vildi ég vita það.

Jesús var umskorinn á áttunda degi, sbr. Lúk. 2:21.

Saraí nefnd Sara. -- Ísak og Ísmael.
17:15-27.

1M 17:15. Guð sagði við Abraham: "Saraí kona þín skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara.
1M 17:16. Ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga."
1M 17:17. Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: "Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?"
1M 17:18. Og Abraham sagði við Guð: "Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!"

Takið eftir, að Abraham biður fyrir þessum syni sínum. Auk þess er trú hans veik fyrir slíku undri, að hann og hans kona, -- komin yfir frjósemistíma kvenna, eigi eftir að eiga saman barn. En Guð er almáttugur.

Í næsta kapítula er nánar sagt frá viðbrögðum Abrahams og Söru við þessari frétt, um að þau muni eignist barn í elli sinni.

1M 17:19. Og Guð mælti: "Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég gjöri sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann.
1M 17:20. Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.
1M 17:21. En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári."
1M 17:22. Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum.

Það sem eftir er af þessum kapítula, er frásögn um hlýðni Abrahams gagnvart umskurnarbeiðni eða kröfu Drottins, en það hefur verið mikið hlýðnisátak fyrir karlmennina unga og gamla.

Til baka í yfirlit.