Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

1. Mósebók

10. lestur: 25-26. kapítuli
Andlát Abrahams. Synir hans. Ísak og Abímelek.

Abraham andast og er grafinn í Hebron.
25:1-18

Það virðist sem Björgvin hafi ekki þótt þurfa sérstakra skýringa við þennan lestur, a.m.k. er nánast ekkert annað að finna í lestrinum en beinar tilvitnanir í textann fyrir utan nokkrar setningar í lok 25. kafla. Ég (Böðvar Björgvinsson) mun því setja hér inn þær skýringar sem ég tel þurfa.

1M 25:1. Abraham tók sér enn konu. Hún hét Ketúra.
1M 25:2. Og hún ól honum Símran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa.
1M 25:3. Og Joksan gat Séba og Dedan,
og synir Dedans voru Assúrítar, Letúsítar og Leúmmítar.
1M 25:4. Og synir Midíans voru: Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa.
Allir þessir eru niðjar Ketúru.
1M 25:5. Abraham gaf Ísak allt, sem hann átti.
1M 25:6. En sonum þeim, sem Abraham hafði átt með hjákonunum, gaf hann gjafir og lét þá, meðan hann enn var á lífi, fara burt frá Ísak syni sínum í austurátt, til austurlanda.

Enn tekur Abraham sér konu. Ekkert lögmál hefur tekið gildi og fjölkvæni er það sem venjan í samfélaginu. Ríkir menn sjá fyrir mörgum konum og eignast fjölda afkomenda. Textinn gagnrýnir þetta ekki, enda er tilgangurinn að segja frá staðreyndum. V. 5-6 sýna að þrátt fyrir þetta voru konurnar mishátt settar. Sara er hin eina raunverulega eiginkona Abrahams og Ísak erfir því allt.

Nöfn sona Abrahams og Ketúru eru þekkt ættflokkanöfn frá Suðurhluta þess sem við þekkjum sem Palestínu og frá Norðvestur Arabíu. Þekktasta nafnið er Mídían, en sá ættflokkur átti eftir að verða Ísraelsmönnum skeinuhættur. Nafnið Séba er talinn vera sama og Saba, sem var ættflokkur sem bjó við Rauðahafið og var þekktur fyrir verslunarleiðangra sína (sbr. I. Kon. 10; Jer. 6:20; Esek 27:22nn). Dedanítar bjuggu norðar (sjá Jes. 21:13 og Esek. 27:20). Assúrítar þeir sem hér eru nefndir eiga ekkert skylt við borgina Assúr og veldið sem við hana var kennt, heldur er þetta arabískur ættflokkur sem bjó nærri Ísmaelítum.

1M 25:7. Þetta eru ævidagar Abrahams, sem hann lifði, hundrað sjötíu og fimm ár.
1M 25:8. Og Abraham andaðist og dó í góðri elli, gamall og saddur lífdaga, og safnaðist til síns fólks.
1M 25:9. Og Ísak og Ísmael synir hans jörðuðu hann í Makpelahelli í landi Efrons, sonar Hetítans Sóars, sem er gegnt Mamre,
1M 25:10. í landi því, sem Abraham hafði keypt af Hetítum, þar var Abraham jarðaður og Sara kona hans.
1M 25:11. Og eftir andlát Abrahams blessaði Guð Ísak son hans. En Ísak bjó hjá Beer-lahaj-róí.[1]

[1] sjá skýringu við 1M 16:14.

Abraham deyr 100 árum eftir að hann kemur til fyrirheitna landsins, Kanaans (sjá 12:4b). Þrátt fyrir mismunandi stöðu sjá bæði Ísak og Ísmael hálfbróðir hans um útförina.

1M 25:12. Þetta er ættartal Ísmaels Abrahamssonar, sem Hagar hin egypska, ambátt Söru, ól honum.
1M 25:13. Og þessi eru nöfn Ísmaels sona, samkvæmt nöfnum þeirra, eftir kynþáttum þeirra.
Nebajót var hans frumgetinn son, þá Kedar, Adbeel, Míbsam,
1M 25:14. Misma, Dúma, Massa,
1M 25:15. Hadar, Tema, Jetúr, Nafis og Kedma.
1M 25:16. Þessir eru synir Ísmaels, og þessi eru nöfn þeirra, eftir þorpum þeirra og tjaldbúðum, tólf höfðingjar, eftir ættkvíslum þeirra.
1M 25:17. Og þetta voru æviár Ísmaels: hundrað þrjátíu og sjö ár, -- þá andaðist hann og dó, og safnaðist til síns fólks.
1M 25:18. Og þeir bjuggu frá Havíla til Súr, sem er fyrir austan Egyptaland, í stefnu til Assýríu. Fyrir austan alla bræður sína tók hann sér bústað.

Hér eru nefndir tólf ættflokkahöfðingjar, synir Ísmaels, á sama hátt og -- löngu síðar -- tólf synir Jakobs. Það bendir til þess að þeir hafi haft með sér samkennd sem einkennir þjóðir. Þessir ættflokkar eru nefndir Ísmaelítar. Þetta hafði Drottinn sagt fyrir um í 1M 17:20.

Abraham var 86 ára þegar hann eignaðist Ísmael, 11 árum eftir að hann kom til Kana'anslands. 13 árum síðar, eða þegar Abraham er 99 ára, láta þeir feðgarnir umskerast til að staðfesta sáttmálann sem Drottin gerði við Abraham (sjá 1M 17), en þar lofar Drottinn því að vera honum Guð hans, en Abraham skuli [aðeins] ganga frammi fyrir augliti hans og vera grandvar, þá nái þessi sáttmáli einnig til niðja hans. Eina brotið sem valdið getur rofi sáttmálans er að umskurnarboðið sé ekki virt (1M 17:14).

Tökum eftir því að Ísmael á þannig hlut í þessum sáttmála. Í 1M 21:12 er forspá um að Ísmael muni ekki taka arf með Ísak. Þetta túlkar Páll postuli í Rm. 9:6-9 þannig að ekki [séu] allir börn Abrahams þótt þeir séu niðjar hans, heldur ... teljist fyrirheitisbörnin sannir niðjar, þ.e. börn Ísaks, enda er fyrirheitið um fæðingu hans bundið við þennan sáttmála (1M 17:19).

Esaú selur Jakob frumburðarréttinn
25:19-34.

1M 25:19. Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar.
Abraham gat Ísak.
1M 25:20. Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska.
1M 25:21. Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð.

Við sjáum hér staðfesta trúarsannfæringu Ísaks. Hann leitar til Drottins vegna konu sinnar. Drottinn bænheyrir hann.

1M 25:22. Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: Sé það svona, hví lifi ég þá? Gekk hún þá til frétta við Drottin.
1M 25:23. En Drottinn svaraði henni:
Þú gengur með tvær þjóðir,
og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast.
Annar verður sterkari en hinn,
og hinn eldri mun þjóna hinum yngri.
1M 25:24. Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar.
1M 25:25. Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú.
1M 25:26. Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá.
1M 25:27. Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum.

Hnitlast. Þetta orð finn ég ekki í orðabókum, en hebreska orðið sem hér er notað þýðir að slást, að berja hver annan.
Esaú þýðir loðinn.
Jakob þýðir líklega Drottinn verndi. Hér er þó um leið spilað á orð sem hljómar svipað og þýðir hælhaldari. Kannski byrjaði nafnið sem gamanyrði en var síðan breytt í hið endanlega form. Í það minnsta má skynja hér eins konar sjálfshæðni Jakobs og sona hans.
Til baka í texta.

Slagsmál urðu strax í móðurkviði. Það vísar til áframhaldandi væringa. Það óttast einnig hin verðandi móðir og finnst það ef til vill undarlegt miðað við fyrirbænir eiginmannsins. En Drottinn svarar henni með spádómsorðum. Henni er ætlað hlutverk í mannkynssögunni og í ætlunarverki Drottins með mennina, þar sem hlutirnir ganga oft öfugt fyrir sig miðað við það sem okkur mönnunum finnst eðlilegur gangur mála. Hinn eldri skal þjóna hinum yngri. Gídeon gegn Mídían. Davíð gegn Golíat. Jesús dó á krossi til þess að vinna sigur.

Í v. 27 er áherslan er enn lögð á mismunamdo manngerðir tvíburanna.

1M 25:28. Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob.

Það eru oft undarlegar ástæður sem liggja til þess að foreldrar leggja meiri ást á eitt barn sitt umfram annað. Ættum við ekki að elska börnin okkar jafnt?

Þessu er erfitt að svara. Við getum í þessu sambandi vísað til orða Jóhannesarguðspjalls, sem talar um Jóhannes postula sem lærisveininn sem Jesús elskaði. Jafnvel Jesús virðist þannig elska einn meira en annan. Líklega getum við dregið þá ályktun að það sé í lagi að elska eitt barn sitt umfram annað svo lengi sem við elskum hin börnin okkar líka þannig að þau finni óskoraða ást okkar á þeim. Skyldu ekki allir foreldrar þekkja þetta af eigin raun að meira eða minna leiti?

1M 25:29. Einu sinni hafði Jakob soðið rétt nokkurn. Kom þá Esaú af heiðum og var dauðþreyttur.
1M 25:30. Þá sagði Esaú við Jakob:
"Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur."
Fyrir því nefndu menn hann Edóm.
1M 25:31. En Jakob mælti:
"Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn."
1M 25:32. Og Esaú mælti:
"Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?"
1M 25:33. Og Jakob mælti:
"Vinn þú mér þá fyrst eið að því!"
Og hann vann honum eiðinn og seldi Jakob frumburðarrétt sinn.
1M 25:34. En Jakob gaf Esaú brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.

[Þessi þáttur í lok 25. kafla er eftir Björgvin:]

Hér höfum við undirstöðuna að viðskiptum þeirra bræðra.

Um viðskipti þeirra bræðra lásum við í lok sögunnar. Esaú, sem hafði frumburðarréttinn, þar sem hann fæddist ofurlítið á undan honum tvíburanum, -- er í uppáhaldi hjá föðurnum, af því að Esaú er veiðimaður og föðurnum þykir gott kjöt af villibráð. Ísak, faðir þeirra er þá orðinn blindur.

Rebekka móðir þeirra hélt upp á Jakob.

Jakob hefur búið til baunarétt, þegar Esaú bróðir hans kemur af veiðum, mjög þreyttur. Esaú heimtar mat, þegar hann kemur inn og segir við Jakob, bróður sinn:
Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, (baunaréttinn), því að ég er dauðþreyttur. (30.v.)

Þetta lýsir piltinum allvel.

Nú notar Jakob tækifærið og segir: Seldu mér fyrstfrumburðarrétt þinn.
Og Esaú mælti: Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?
Og Jakob mælti: Vinn þú mér fyrst eið að því!
Og hann vann honum eið og seldi Jakob frumburðarrétt sinn. En Jakob gaf honum brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.

Frumburðarrétturinn var rétturinn til að erfa bæði völd og eignir eftir föður sinn. Um þetta segir í Hebreabréfinu:
Gætið þess að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. Þér vitið, að það fór svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast. (Hebr. 12:16-17.)

Fyrir trúna á Jesú Krist og skírn, öðlumst við með honum arfsrétt í guðsríki, -- frumburðarrétt með Jesú sjálfum. Gættu þess að lítilsvirða ekki þann rétt eins og Esaú og selja hann fyrir það sem heimurinn hefur upp á að bjóða, sem er ekki meira virði en baunarétturinn í samanburði við arfsréttinn, þ.e. að vera erfingi eilífs lífs.

Ísak og Abímelek
26:1-14.

1M 26:1. Hallæri varð í landinu, annað hallæri en hið fyrra, sem var á dögum Abrahams. Fór þá Ísak til Abímeleks Filistakonungs í Gerar.
1M 26:2. Og Drottinn birtist honum og mælti:
"Far þú ekki til Egyptalands. Ver þú kyrr í því landi, sem ég segi þér.
1M 26:3. Dvel þú um hríð í þessu landi, og ég mun vera með þér og blessa þig, því að þér og niðjum þínum mun ég gefa öll þessi lönd, og ég mun halda þann eið, sem ég sór Abraham, föður þínum.
1M 26:4. Og ég mun margfalda niðja þína sem stjörnur himinsins og gefa niðjum þínum öll þessi lönd, og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta,
1M 26:5. af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög."

Stundum virðast okkur fyrirheit Guðs bregðast. Oft er erfitt að átta sig á hvert Guð er að fara með okkur. Guð gaf Abraham land í Kanaanslandi. Nú segir hann Ísak, syni Abrahams, að hann eigi að vera um kyrrt í landi Filista. Við þurfum að hlýðnast því sem Guð segir okkur. Hann opnar dyr og hann lokar dyrum. Hvers vegna Guð segir Ísak að vera um kyrrt er ekki gott að segja, burtséð frá hallærinu í landinu. En við sjáum hins vegar að saga Abrahams virðist endurtaka sig hjá Ísak. Hann verður fyrir sömu freistingum.

En þessari -- að því er okkur kann að virðast -- breytingu á áætlun hjá Guði fylgir endurnýjað fyrirheit. Vegna hlýðni Abrahams blessar Guð Ísak einnig með sama fyrirheiti. Vegna hlýðni Abrahams blessar Guð einnig okkur með þessu sama fyrirheiti í óeiginlegri merkingu, þ. e. við eignumst ekki eingöngu blessunina að vera fyrir trú afkvæmi Abrahams (sbr. Rm. 4:16nn), heldur hefur hann einnig gefið okkur hin himnesku lönd með sér (Lk. 12:32), sjálft Himnaríki.

1M 26:6. Og Ísak staðnæmdist í Gerar.
1M 26:7. Og er menn þar spurðu um konu hans, sagði hann: "Hún er systir mín," því að hann þorði ekki að segja: "Hún er kona mín." "Ella kynnu," hugsaði hann, "menn þar að myrða mig vegna Rebekku, af því að hún er fríð sýnum."

[Björgvin:]
Hér endurtekur sagan sig. Þannig fór faðir hans að við líkar aðstæður, (20. kap.), en það stóð ekki lengi:

1M 26:8. Og svo bar við, er hann hafði verið þar um hríð, að Abímelek Filistakonungur leit út um gluggann og sá, að Ísak lét vel að Rebekku konu sinni.
1M 26:9. Þá kallaði Abímelek á Ísak og mælti:
"Sjá, vissulega er hún kona þín. Og hvernig gast þú sagt: 'Hún er systir mín?'"
Og Ísak sagði við hann:
"Ég hugsaði, að ella mundi ég láta lífið fyrir hennar sakir."
1M 26:10. Og Abímelek mælti:
"Hví hefir þú gjört oss þetta? Hæglega gat það viljað til, að einhver af lýðnum hefði lagst með konu þinni, og hefðir þú þá leitt yfir oss syndasekt."
1M 26:11. Síðan bauð Abímelek öllum landslýðnum og mælti:
"Hver sem snertir þennan mann og konu hans, skal vissulega deyja."

Abímelek óttast greinilega afleiðingar hjúskaparbrots. Ekki veit ég hvort hjónaband hefur verið svo heilagt meðal Filista eða hvort Abímelek óttast hefnd Guðs Ísaks. Ólíklegt verður að teljast að hann hafi ekki heyrt sögur af Abraham og samskiptum hans við Guð. 11. versið bendir að minnsta kosti sterkt til þess.

1M 26:12. Og Ísak sáði í þessu landi og uppskar hundraðfalt á því ári, því að Drottinn blessaði hann.
1M 26:13. Og maðurinn efldist og auðgaðist meir og meir, uns hann var orðinn stórauðugur.
1M 26:14. Og hann átti sauðahjarðir og nautahjarðir og margt þjónustufólk, svo að Filistar öfunduðu hann.

Þegar Guð blessar okkur veldur það gjarnan öfund heimsins.

Sáttmáli Ísaks við Abímelek
26:15-35.

1M 26:15. Alla þá brunna, sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, byrgðu Filistar og fylltu með mold.
1M 26:16. Og Abímelek sagði við Ísak:
"Far þú burt frá oss, því að þú ert orðinn miklu voldugri en vér."
1M 26:17. Þá fór Ísak þaðan og tók sér bólfestu í Gerardal og bjó þar.

[Björgvin:] Sagan hefst með frásögn um skemmdarverk Fílistea, að þeir fylltu alla brunna með mold. En nú finnst Abímelek ráðlegt að Ísak komi sér í burtu. Ríkidæmi Ísaks virðist vera ástæðan. Og Ísak flytur í burtu.

1M 26:18. Og Ísak lét aftur grafa upp brunnana, sem þeir höfðu grafið á dögum Abrahams föður hans og Filistar höfðu aftur byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf þeim hin sömu heiti sem faðir hans hafði gefið þeim.
1M 26:19. Þrælar Ísaks grófu í dalnum og fundu þar brunn lifandi vatns.

Hér er sennilega átt við, að þeir hafi komið niður á uppsprettulind í botni brunnsins.

Um slíkan brunn urðu deilur milli fjárhirða í Gerar og fjárhirða Ísaks. Hinir fyrrnefndu sögðu: "Vér eigum vatnið."

1M 26:20. En fjárhirðar í Gerar deildu við fjárhirða Ísaks og sögðu:
"Vér eigum vatnið."
Og hann nefndi brunninn Esek, af því að þeir höfðu þráttað við hann.
1M 26:21. Þá grófu þeir annan brunn, en deildu einnig um hann, og hann nefndi hann Sitna.
1M 26:22a. Eftir það fór hann þaðan og gróf enn brunn. En um hann deildu þeir ekki, og hann nefndi hann Rehóbót og sagði:

[Þetta] varð til þess að nýr brunur var grafinn og einnig sá þriðji. Það hefur orðið til mikillla hagsbóta á þessum vatnslitlu svæðum, því nú var sagt:

1M 26:22. "Nú hefir Drottinn rýmkað um oss, svo að vér megum vaxa í landinu."
1M 26:23. Og þaðan fór hann upp til Beerseba.
1M 26:24. Þá hina sömu nótt birtist Drottinn honum og mælti:
"Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Og ég mun blessa þig og margfalda afkvæmi þitt fyrir sakir Abrahams, þjóns míns."
1M 26:25. Og hann reisti þar altari og ákallaði nafn Drottins og setti þar tjald sitt, og þrælar Ísaks grófu þar brunn.
1M 26:26. Þá kom Abímelek til hans frá Gerar og Akúsat, vinur hans, og Píkól, hershöfðingi hans.
1M 26:27. Þá sagði Ísak við þá:
"Hví komið þér til mín, þar sem þér þó hatið mig og hafið rekið mig burt frá yður?"
1M 26:28. En þeir svöruðu: "Vér höfum berlega séð, að Drottinn er með þér. Fyrir því sögðum vér: 'Eiður sé milli vor, milli vor og þín,' og vér viljum gjöra við þig sáttmála:
1M 26:29. Þú skalt oss ekki mein gjöra, svo sem vér höfum eigi snortið þig og svo sem vér höfum eigi gjört þér nema gott og látið þig fara í friði, því að þú ert nú blessaður af Drottni."
1M 26:30. Eftir það gjörði hann þeim veislu, og þeir átu og drukku.
1M 26:31. Og árla morguninn eftir unnu þeir hver öðrum eiða. Og Ísak lét þá í burt fara, og þeir fóru frá honum í friði.
1M 26:32. Þann sama dag bar svo við, að þrælar Ísaks komu og sögðu honum frá brunninum, sem þeir höfðu grafið, og mæltu við hann:
"Vér höfum fundið vatn."
1M 26:33. Og hann nefndi hann Síba. Fyrir því heitir borgin Beerseba allt til þessa dags.
1M 26:34. Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons.
1M 26:35. Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.

Beersheba þýðir eiginlegar brunnur hinna sjö (lamba), sbr. 1M. 21:31. Í ákveðnu samhengi getur orðið einnig átt við eiða, þ. e.: "Eiðabrunnur". Fyrir Abraham er það fórn hinna sjö gimbra vegna sáttmálans, sem hann gerði við Abímelek, sem hann tengir við brunninn. Fyrir Ísak er það sáttmálinn, -- eiðurinn sjálfur.