Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

1. Mósebók

11. lestur: 27-30. kapítuli
Jakob beitir og verður fyrir vélabrögðum

Jakob nær blessun föður síns með vélráðum
1M. 27:1-45.

1M 27:1. Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: "Sonur minn!"
Og hann svaraði honum: "Hér er ég."
1M 27:2. Og hann sagði:
"Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja.
1M 27:3. Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr.
1M 27:4. Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey."

Blessun föðurins var yfirlýsing um vald, höfðingjadóm og eignarétt yfir öllu sem forfaðirinn átti og auk þess eins konar vígsla til að vera af Guði valinn höfðingi ættarinnar á sama hátt og Abraham og Ísak sjálfur höfðu verið það samkvæmt útnefningu Guðs.

1M 27:5. En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér,
1M 27:6. mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið:
"Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja:
1M 27:7. 'Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.'
1M 27:8. Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér.
1M 27:9. Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að,
1M 27:10. og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr."
1M 27:11. En Jakob sagði við Rebekku móður sína:
"Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur.
1M 27:12. Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun."
1M 27:13. En móðir hans sagði við hann:
"Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin."

Spurningar:

  1. Teljið þið, að Esaú hafi verið hæfur til að verða ættarhöfðingi hinnar útvöldu ættar?
  2. Var móðirin að framkvæma vilja Guðs?
  3. Hvað finnst þér fólgið í orðum Rebekku viðvíkjandi Jakob, þegar hún segir:
    Yfir mig komi sú bölvun?
  4. Var ályktun Rebekku skynsamleg miðað við hvers konar menn þeir voru?
  5. Var þetta aðeins tilhneiging móður til að hlynna að uppáhaldi sínu? Eða var þetta handleiðsla Guðs til að velja hinn rétta aðila, til að vera höfðingi ættarinnar?

Hugleiddu þessar spurningar. Hvað álítur þú umþessi atriði?

1M 27:14. Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að.
1M 27:15. Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann.
1M 27:16. En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus.
1M 27:17. Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört.
1M 27:18. Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: "Faðir minn!"
Og hann svaraði: "Hér er ég. Hver ert þú, son minn?"
1M 27:19. Og Jakob sagði við föður sinn:
"Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig."
1M 27:20. Og Ísak sagði við son sinn:
"Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?"
Og hann mælti:
"Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum."
1M 27:21. Þá sagði Ísak við Jakob:
"Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki."
1M 27:22. Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti:
"Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú."
1M 27:23. Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann.
1M 27:24. Og hann mælti:
"Ert þú þá Esaú sonur minn?"
Og hann svaraði:
"Ég er hann."
1M 27:25. Þá sagði hann:
"Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig."
Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk.
1M 27:26. Og Ísak faðir hans sagði við hann:
"Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!"
1M 27:27. Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti:
"Sjá, ilmurinn af syni mínum
er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað.
1M 27:28.
Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar
og gnægð korns og víns.
1M 27:29.
Þjóðir skulu þjóna þér
og lýðir lúta þér.
Þú skalt vera herra bræðra þinna,
og synir móður þinnar skulu lúta þér.
Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér,
en blessaður sé hver sá, sem blessar þig!"

Blessunaróskirnar voru vígsla til að verða ættarhöfðinginn næst á eftir Ísak föðurnum.

Var hlýðni Jakobs við móður sína synd? Blekkingin var synd. Hann tók þátt í blekkingunni. Gat hann gert það á ábyrgð móður sinnar?

Síðast í þessari sögu og næstu sögum sjáum við, að Jakob varð að gjalda fyrir afbrot sín, en hlýtur þó blessun Guðs að lokum. Hann hefur hlotið fyrirgefningu afbrota sinna, þegar hann glímdi við Guð og fékk sigur. (33:kap. v.24-30)

Nú víkur sögunni aftur að Esaú.

1M 27:30. Er Ísak hafði lokið blessuninni yfir Jakob og Jakob var nýgenginn út frá Ísak föður sínum, þá kom Esaú bróðir hans heim úr veiðiför sinni.
1M 27:31. Og hann tilreiddi einnig ljúffengan rétt og bar föður sínum, og hann mælti við föður sinn:
"Rístu upp, faðir minn, og et af villibráð sonar þíns, svo að sál þín blessi mig."
1M 27:32. En Ísak faðir hans sagði við hann:
"Hver ert þú?"
Og hann mælti:
"Ég er sonur þinn, þinn frumgetinn son Esaú."
1M 27:33. Þá varð Ísak felmtsfullur harla mjög og mælti:
"Hver var það þá, sem veiddi villidýr og færði mér, svo að ég át af því öllu, áður en þú komst, og blessaði hann? Blessaður mun hann og verða."

Hin endanlega blessun varð ekki aftur tekin, en afleiðing blekkingarinnar kom fljótlega í ljós.

1M 27:34. En er Esaú heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann upp yfir sig hátt mjög og sáran og mælti við föður sinn:
"Blessa þú mig líka, faðir minn!"
1M 27:35. Og hann mælti:
"Bróðir þinn kom með vélráðum og tók blessun þína."
1M 27:36. Þá mælti hann:
"Vissulega er hann réttnefndur Jakob, því að tvisvar sinnum hefir hann nú leikið á mig. Frumburðarrétt minn hefir hann tekið, og nú hefir hann einnig tekið blessun mína."
Því næst mælti hann:
"Hefir þú þá enga blessun geymt mér?"
1M 27:37. Og Ísak svaraði og sagði við Esaú:
"Sjá, ég hefi skipað hann herra yfir þig, og ég hefi gefið honum alla bræður sína að þrælum, og ég hefi séð honum fyrir korni og víni. Hvað get ég þá gjört fyrir þig, sonur minn?"
1M 27:38. Og Esaú mælti við föður sinn:
"Hefir þú ekki nema þessa einu blessun til, faðir minn? Blessa mig líka, faðir minn!" Og Esaú tók að gráta hástöfum.
1M 27:39. Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann:
Fjarri jarðarinnar feiti skal bústaður þinn vera
og án daggar af himni ofan.
1M 27:40a.
En af sverði þínu muntu lifa,
og bróður þínum muntu þjóna.

Esaú verður bæði sár og reiður og biður grátandi um blessun föður síns, en sú blessun sem Ísak hafði veitt varð ekki aftur tekin og flutt til á annan einstakling.

Á þessu má sjá hve blessun ættföðurins var mikilvæg. Hún var yfirlýsing um völd og eignir ættarinnar. Þannig er það með blessun Guðs, hún er einstaklingsbundin. Hún var þér veitt í heilagri skírn.

Ísak veitir Esaú aðeins þá huggun í stað blessunarinnar, að hann muni losna undan yfirráðum bróður síns:

1M 27:40b.
En svo mun fara, er þú neytir allrar orku þinnar,
að þú munt brjóta sundur ok hans af hálsi þínum.

Upp frá þessu hatar Esaú bróður sinn. Það kemur nútímamanninum ekkert á óvart.

1M 27:41. Esaú lagði hatur á Jakob sakir þeirrar blessunar, sem faðir hans hafði gefið honum. Og Esaú hugsaði með sjálfum sér:
"Þess mun eigi langt að bíða, að menn munu syrgja föður minn látinn, og skal ég þá drepa Jakob bróður minn."
1M 27:42. Og Rebekku bárust orð Esaú, eldri sonar hennar. Þá sendi hún og lét kalla Jakob, yngri son sinn, og mælti við hann:
"Sjá, Esaú bróðir þinn hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig.
1M 27:43. Og far þú nú að ráðum mínum, sonur minn! Tak þig upp og flý til Labans, bróður míns í Harran,
1M 27:44. og dvel hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns sefast,
1M 27:45a. þangað til bróður þínum er runnin reiðin við þig og hann hefir gleymt því, sem þú hefir honum í móti gjört."

Rebekka, móðir þeirra, grípur nú aftur til sinna ráða og sendir Jakob burt úr landinu til Labans bróður síns í Harran, og segir honum að koma aftur, þega bróður hans er runnin reiðin. Hún endar ráðleggingu sína með þessum orðum:

1M 27:45b. "Þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig þangað. Hví skyldi ég missa ykkur báða á einum degi?"

Jakob fer til Mesópótamíu
1M. 27:46-28:9

1M 27:46. Rebekka mælti við Ísak:
"Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?"

Hér á [Rebekka] við konu Esaú og systur hennar, sem henni hafa fylgt, þegar Esaú tók sér þá konu. (Sbr. kap.26:45)

Með þessum orðum ber hún upp samskiptavandamál þeirra hjóna við tengdadóttur þeirra, konu Esaú og fylgikonur hennar og undirbýr um leið ástæðu til þess að Jakob fari burt úr föðurhúsum og festi sér konu af þeirra ættstofni. Rebekka hefur bæði verið bráðgáfuð og snjöll.

1M 28:1a. Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann. Og hann bauð honum og sagði við hann:

Ísak fellur fyrir þessari hugmynd og kallar Jakob til sín til að veita honum föðurlega blessun í þessum tilgangi. Hann tekur upp hugmynd Rakelar og segir:

1M 28:1b. "Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum.
1M 28:2. Tak þig upp og far til Mesópótamíu, í hús Betúels móðurföður þíns, og tak þér þar konu af dætrum Labans móðurbróður þíns.
1M 28:3. Og Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig frjósaman og margfaldi þig, svo að þú verðir að mörgum kynkvíslum.
1M 28:4. Hann gefi þér blessun Abrahams, þér og niðjum þínum með þér, að þú megir eignast það land, er þú býr í sem útlendingur og Guð gaf Abraham."

Ísak sendir síðan Jakob burt og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameiska, bróður Rebekku móður þeirra Jakobs og Esaú. Esaú sér nú, að foreldrar hans þola ekki konu hans. Þá fær hann sér fyrir konu, dóttur Ísmaels frænda síns, auk þeirra kvenna sem hann átti áður.

1M 28:5. Síðan sendi Ísak Jakob burt, og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú.
1M 28:6. En Esaú varð þess vís, að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesópótamíu til að taka sér þar konu, að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt: "Þú skalt ekki taka þér konu af Kanaans dætrum,"
1M 28:7. og að Jakob hafði hlýðnast föður sínum og móður sinni og farið til Mesópótamíu.
1M 28:8. Þá sá Esaú, að Kanaans dætur geðjuðust eigi Ísak föður hans.
1M 28:9. Fór Esaú því til Ísmaels og tók Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, sér fyrir konu, auk þeirra kvenna, sem hann átti áður.

Draumur Jakobs
1M. 28:10-22

1M 28:10. Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran.
1M 28:11. Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað.

Þá dreymir hann stigann, sem nær frá jörðu upp til himins og að englar Guðs fóru upp og niður stigann.

1M 28:12. Þá dreymdi hann.
Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.

Þessi hluti draumsins hefur varanlega, andlega merkingu. Þetta hefur verð kallað "Bænastiginn", sem stígur frá jörðu upp til Guðs englar Guðs veita þjónustu upp og niður stigann. Þetta er vel túlkað í íslenskum sálmi í sálmabók kirkjunnar í þýðingu Matth. Joch.: Hærra minn Guð til þín. Þar segir m.a:

Villist ég vinum frá
vegmóður einn,
köld nóttin kringum mig
koddi minn steinn.
Heilög skal heimvon mín.
Hærra minn Guð, til þín
Hærra minn Guð, til þín,
hærra til þín.

Sofanda sýndu þá
sólstigans braut
upp í hið eilífa
alföðurskaut.
Hljómi svo harpan mín
hærra, minn Guð, til þín,
hærra, minn Guð, til þín,
hærra til þín.

Árla ég aftur rís
ungur af beð.
Guðs hús á grýttri braut
glaður ég hleð.
Hver og ein hörmung mín
hefur mig, Guð, til þín,
hærra minn Guð, til þín,
hærra til þín.

2.-4. erindi)

Í draumnum talaði Drottinn við Jakob:

1M 28:13. Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði:
"Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum.
1M 28:14. Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi.
1M 28:15. Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið."

Það er auðséð á þessu fyrirheiti, að það spannar ekki aðeins yfir holdlega afkomendur hans og þjóðar hans, heldur um alla þá sem Drottinn Guð nær til að frelsa á öllum tímum inn í himin sinn, ekki síst fyrir son sinn, Jesú Krist, sem hann stefnir að að senda inn í þennan heim.

1M 28:16. Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti:
"Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!"
1M 28:17. Og ótta sló yfir hann og hann sagði:
"Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!"

Sá ótti, sem hér um ræðir, er óttablandin virðing fyrir hinu heilaga og fullkomna, sem hefur hlotið nafnið guðsótti. Það sjáum við líka á því, að Jakob reisir steininn upp og helgar staðinn og nefnir hann Betel, þ.e. Guðs hús. Og hann gjörir Guði heit um tíund,-- þ. e. gjöf til málefnis Guðs.

Að þessu loknu heldur Jakob áfram ferð sinni til frænda síns, eins og sjá má í næsta þætti.

1M 28:18. Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann.
1M 28:19. Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz.
1M 28:20. Og Jakob gjörði heit og mælti:
"Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast,
1M 28:21. og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð,
1M 28:22. og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér."

Bethel þýðir orðrétt: hús Guðs.
Til baka í texta.

Jakob og Rakel hittast
1m. 29:1-14

1M 29:1. Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja.
1M 29:2. Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins.
1M 29:3. Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað.
1M 29:4. Þá sagði Jakob við þá:
"Kæru bræður, hvaðan eruð þér?"
1M 29:5. Þeir svöruðu:
"Vér erum frá Harran."
Og hann mælti til þeirra:
"Þekkið þér Laban Nahorsson?"
Þeir svöruðu:
"Já, vér þekkjum hann."
1M 29:6. Og hann mælti til þeirra:
"Líður honum vel?"
Þeir svöruðu:
"Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð."
1M 29:7. Og hann mælti:
"Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga."
1M 29:8. Þeir svöruðu:
"Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu."
1M 29:9. Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá.
1M 29:10. En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns.
1M 29:11. Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum.
1M 29:12. Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum.
1M 29:13. En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína.
1M 29:14. Þá sagði Laban við hann:
"Sannlega ert þú hold mitt og bein!"
Og hann var hjá honum heilan mánuð.

Þessi saga þarf ekki mikilla skýringa við. Hún sýnir hjálpsemi Jakobs við að brynna fé frænda síns og að hann fellur saman, þegar hann hefur fundið dóttur þess manns, sem hann átti að leita til, Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns. En var þetta ekki líka ást við fyrstu sýn?

Viðbrögð hennar eru þau, að hún hleypur heim til föður síns og segir honum fréttina, að systursonur hans sé kominn til að vera hjá þeim. Laban tekur ástúðlega á móti honum, og Jakob dvelur hjá honum, þ. e. í tjöldum hans í heilan mánuð.

Jakob kvænist Leu og Rakel
1M. 29:15-30

1M 29:15. Laban sagði við Jakob:
"Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera."
1M 29:16. En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri.
1M 29:17. Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum.
1M 29:18. Og Jakob elskaði Rakel og sagði:
"Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína."
1M 29:19. Laban svaraði:
"Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér."
1M 29:20. Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar.
1M 29:21. Og Jakob sagði við Laban:
"Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar."
1M 29:22. Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu.
1M 29:23. En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni.
1M 29:24. Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans.
1M 29:25. En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban:
"Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?"
1M 29:26. Og Laban sagði:
"Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri.
1M 29:27. Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár."
1M 29:28. Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína.
1M 29:29. Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu.
1M 29:30. Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár.

Það var býsna mikil eign á þessum tímum og yfirleitt í fornöld fram yfir landnámsöld á okkar landi, -- að eiga myndarlegar, uppkomnar dætur, því væntanlegur eiginmaður þurfti að greiða allmiklar, misháar upphæðir fyrir að fá þær fyrir eiginkonur. Þetta var þó ekki álitin sala, þegar um eiginkonur var að ræða, heldur kaupskapur. Ambáttir voru aftur á móti seldar til þess að vera "vinnudýr" húsbóndans.

Laban gerir nú samning um kaup fyrir þjónustustörf Jakobs og býður honum, að hann fái aðra dóttur hans í laun. Jakob elskaði Rakel, sem var yngri systirin og setti það upp sem laun í sjö ár, að hann fengi hana fyrir konu. Laban tekur vinnuboðinu og neitar því ekki að hann fái Rakel fyrir konu, en fer undan á flæmingi um Rakel og svarar óljóst, en biður Jakob að vera. Og Jakob vinnur í sjö ár, til þess að eignast Rakel fyrir konu.

Að þeim tíma loknun er haldið brúðkaupið. Í brúðkaupi báru brúðirnar þykka andlitsblæju, því brúðguminn átti fyrst að sjá hana sem konu sína eftir brúðkaupið í hjónasænginni. Laban hafði látið Leu klæðast sem brúðina, en Rakel hefur sjálfsagt ekki mátt koma þar nærri.

Eftir brúðkaupið, þegar eiginkonan tekur af sér brúðarslæðuna, þá er það ekki Rakel, heldur Lea, sem er orðin kona hans.

Nú hafði Jakob verið blekktur af tengdaföður sínum á líkan hátt og hann hafði sjálfur blekkt föður sinn til að hljóta frumburðarréttinn yfir ættinni. Líklegt er að Jakob hafi þá minnst afbrots síns og reynir að gera gott úr öllu saman, með því að fallast á næstu skilyrði Labans, að vinna önnur sjö ár fyrir Rakel, svo að hann fengi hana fyrir konu. Jakob fellst á þá skilmála. Hann eignast börn með Leu á þessum sjö árum og að þeim sjö árum liðnum fær hann loksins Rakel fyrir konu. Jakob heldur samt áfram að vinna hjá tengdaföður sínum.

Börn Jakobs
1M. 29:31-30:24.

1M 29:31. Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja. Ættfeður
Ísraels:
1M 29:32. Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði:
"Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig."
1: Rúben
1M 29:33. Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún:
"Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son."
Og hún nefndi hann Símeon.
2: Símeon
1M 29:34. Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún:
"Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu."
Fyrir því nefndi hún hann Leví.
3: Leví
1M 29:35. Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði:
"Nú vil ég vegsama Drottin."
Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.
4: Júda
1M 30:1. En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob:
"Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja."
1M 30:2. Jakob reiddist þá við Rakel og sagði:
"Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis."
1M 30:3. Þá sagði hún:
"Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis."
1M 30:4. Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar.
1M 30:5. Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son.
1M 30:6. Þá sagði Rakel:
"Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son."
Fyrir því nefndi hún hann Dan.
5: Dan
1M 30:7. Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son.
1M 30:8. Þá sagði Rakel:
"Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur."
Og hún nefndi hann Naftalí.
6: Naftalí
1M 30:9. Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu.
1M 30:10. Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son.
1M 30:11. Þá sagði Lea:
"Til heilla!"
Og hún nefndi hann Gað.
7: Gað
1M 30:12. Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son.
1M 30:13. Þá sagði Lea:
"Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja."
Og hún nefndi hann Asser.
8: Asser
1M 30:14. Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu:
"Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns."
1M 30:15. En hún svaraði:
"Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?"
Og Rakel mælti:
"Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns."
1M 30:16. Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði:
"Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns."
Og hann svaf hjá henni þá nótt.
1M 30:17. En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði:
1M 30:18. "Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína."
Og hún nefndi hann Íssakar.
9: Íssakar
1M 30:19. Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son.
1M 30:20. Þá sagði Lea:
"Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu."
Og hún nefndi hann Sebúlon.
10: Sebúlon
1M 30:21. Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu.
1M 30:22. Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar.
1M 30:23. Og hún varð þunguð og ól son og sagði:
"Guð hefir numið burt smán mína."
1M 30:24. Og hún nefndi hann Jósef og sagði:
"Guð bæti við mig öðrum syni!"
11: Jósef

[Rúben (Re'uben) vísar til frekar en að þýða "hann hefur séð raunir mínar".
Símeon er sama orðið og Símon. Það er dregið af hebresku sögninni shama', sem þýðir að heyra.
Leví vísar til sagnarinnar lawa sem þýðir að sameina. Í 4M. 18:2,4 er leikið með þessa tengingu á frummálinu, þar sem talað er um að Leví skuli þjóna Aroni og sonum hans í sáttmálstjaldinu, en í því samhengi hljóma orðin líkt.
Júda (Jehúðah). Hér er einnig leikur að orðum þar sem meginhluti orðsins Júda vísar til en þýðir ekki sama og orðið jadah, sem þýðir að lofa (e-n). Leikið er með þessa tilvísun í 1M. 49:8.
Dan er venjulega túlkað sem lýsingarháttur af sögninni din að hlýðnast, dæma, stjórna.
Naftalí þýðir glímukappi, eða glíma mín.
Gað þýðir gæfa, heill.
Asser Asher þýðir hinn hamingjusami, hinn sæli.
Íssakar (Ishasakhar) virðist samsett úr orðunum ish, sem þýðir maður og shakar, sem þýðir laun -- þ. e. launamaður eða verkamaður.
Sebúlon Zebulúhn gæti verið komið af akkadíska orðinu zabalu, að bera. Einnig virðist það þýða að lyfta, tigna. Það er hefð fyrir að þýða það að dvelja, en sú þýðing byggir á því að orðið sé fengið frá Filistum (sbr. Ras Shamra textana). Þessi skilningur liggur í texta okkar hér.
Dína (Dinah) þýðir dómur eða dæmd(ur).
Jósef. Tvær skýringar -- og andstæðar -- eru á nafninu. Önnur að það þýði hann bætti við jasaf, hin asaf hann tók frá (burt). Báðar skýringarnar eiga vel við.
BBJ]

Til baka í texta.

Árin liðu og Rakel varð ekki barnshafandi. Þá er það hennar uppástunga að hann geti henni barn, með því að eiga það með ambátt hennar. Þannig var eignarétturinn alger yfir ambáttum á þessum tímum. Þessu hlýðir Jakob.

Nú fór svo líka fyrir Leu, að hún komst úr barneign. Þá mælist hún til þess að Jakob eigi börn með ambátt hennar, enda voru slík börn þá talin hennar börn, en ekki ambáttarinnar. Þetta lætur Jakob eftir konu sinni. Rúben, sonur þeirra Leu og Jakobs, finnur ástarepli (mandragora officinalis) á akrinum og fær það móður sinni.

Síðan lásum við um viðskipti þeirra systra við Jakob, en eftir þetta verður Rakel loksins þunguð af völdum Jakobs. Barnið fæddist og hlaut nafnið Jósef. Þá bað hún þess, að hún fengi að eiga annað barn með honum. Það veittist henni löngu seinna, en af þeirri fæðingu dó hún og drengurinn var látinn heita Benjamín (1.Mós. 35:16-18 -- [sjá skýringu á nafninu þar --BBJ]). Jósef er því bænabarn þeirra hjóna, ávöxtur sannrar ástar.

Jakob eignast mikinn fénað
1M. 30:25-43.

1M 30:25. Er Rakel hafði alið Jósef, sagði Jakob við Laban:
"Leyf þú mér nú að fara, að ég megi halda heim til átthaga minna og ættlands míns.
1M 30:26. Fá mér konur mínar og börn mín, sem ég hefi þjónað þér fyrir, að ég megi fara, því að þú veist, hvernig ég hefi þjónað þér."
1M 30:27. Þá sagði Laban við hann:
"Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá vertu kyrr. Ég hefi tekið eftir því, að Drottinn hefir blessað mig fyrir þínar sakir."
1M 30:28. Og hann mælti:
"Set sjálfur upp kaup þitt við mig, og skal ég gjalda það."
1M 30:29. Jakob sagði við hann:
"Þú veist sjálfur, hvernig ég hefi þjónað þér og hvað fénaður þinn er orðinn hjá mér.
1M 30:30. Því að lítið var það, sem þú áttir, áður en ég kom, en það hefir aukist margfaldlega, og Drottinn hefir blessað þig við hvert mitt fótmál. Og auk þess, hvenær á ég þá að veita forsjá húsi sjálfs mín?"
1M 30:31. Og Laban mælti:
"Hvað skal ég gefa þér?"
En Jakob sagði:
"Þú skalt ekkert gefa mér, en viljir þú gjöra þetta, sem ég nú segi, þá vil ég enn þá halda fé þínu til haga og gæta þess.
1M 30:32. Ég ætla í dag að ganga innan um allt fé þitt og skilja úr því hverja flekkótta og spreklótta kind. Og hver svört kind meðal sauðanna og hið spreklótta og flekkótta meðal geitanna, það skal vera kaup mitt.
1M 30:33. Og ráðvendni mín skal eftirleiðis bera mér vitni, er þú kemur að skoða kaup mitt: Allt sem ekki er flekkótt og spreklótt meðal minna geita og svart meðal minna sauða, skal teljast stolið."
1M 30:34. Og Laban sagði:
"Svo skal þá vera sem þú hefir sagt."
1M 30:35. Á þeim degi skildi Laban frá alla rílóttu og spreklóttu hafrana, og allar flekkóttu og spreklóttu geiturnar -- allt það, sem hafði á sér einhvern hvítan díla, -- og allt hið svarta meðal sauðanna og fékk sonum sínum.
1M 30:36. Og hann lét vera þriggja daga leið milli sín og Jakobs. En Jakob gætti þeirrar hjarðar Labans, sem eftir varð.
1M 30:37. Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum.
1M 30:38. Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka.
1M 30:39. Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb.
1M 30:40. Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans.
1M 30:41. Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum.
1M 30:42. En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna.
1M 30:43. Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.

Jakob auðgaðist. Hann gerði samning við Laban um að fá öll mislit lömb, sem fæddust í hjörðinni. Fjárstofninn var hvítur. Jakob fann ráð til þess að lömbin urðu mislit og hann auðgaðist svo mjög að tengdafaðirinn vildi fara að losna við hann úr landinu.

Neðanmáls í Biblíunni eru þessar upplýsingar gefnar um þessa frásögn:

Merking frásögunnar er þessi: Jakob sér við Laban og beitir bragði, er menn töldu máttugt, að flekkótt yrði undan einlitum fénaði, ef einlitar ær horfðu á flekkótta vendi, er þær fengju lamba. Einlitar ær Labans fæddu því flekkótt lömb.
[Augljóslega eru það ekki neinir galdrar sem hér eru að verki heldur kraftur Guðs -- þrátt fyrir að Jakob notfæri sér töfrabrögð sem hann kann að hafa þekkt til -- sé það þá skýringin. Við sjáum ráðsályktun Guðs í þessu ferli, sem staðfestist í næsta kafla (31:12). -- BBJ]