BIBLÍUSKÝRINGAR
Esterarbók
1. lestur: 1-10. kapítuli
[Björgun þjóðar]
Yfirlit -- sagan
Esterarbók er síðust hinna sögulegu bóka, sem saman mynda annan hluta hinna hebresku helgirita Gamla testamentisins. Í hinu hebreska helgiritasafni er Esterarbók þriðja og síðasta í röðinni ásamt lofsöngvum Salómons (Ljóðaljóðunum), Rutarbók, Harmljóðunum og Prédikaranum.
[Í hebresku biblíunni, sem skiptist í Lögmálið, Spámennina og Ritningarnar, tilheyrir Esterarbók Ritningunum og stendur á milli Prédikarans og Daníelsbókar.[Aths. 1]]
Esterarbók og Nehemíabók lýsa ástandinu meðal Gyðinganna sem heim fóru, en Esterarbók lýsir aftur á móti ástandinu hjá þeim Gyðingum sem eftir urðu dreifðir meðal heiðingjanna.
Atburðirnir sem bókin fjallar um, gerast á stjórnarárum Ahasverusar. Það er talið sennilegast, að hann sé sami maðurinn og Xerxes (eða Þerexes) . (486-465 f. Kr). Esterarbók gerist því um sama leyti og Nehemíabók. [Reyndar telur The New Bible Commentary (NBC, Inter Varsity Fellowship 1965) að á þessu leiki enginn vafi, enda sé nafnið Ahasverus stafréttar ritað en hið gríska Xerxes (eða Þerexes).]
Esterarbók hefst með lýsingu á gestaboði, sem Ahasverus lét halda í Súsa, (Shushan) gömlu höfuborg Elams í vetrarhöll persakonungsins. [Súsa var ein þriggja höfuðborga persneska konungdæmisins.] Gestaboðið var haldið á þriðja stjórnarári Ahasverusar, og gestir voru allir ríkustu framámenn hinna 127 landsvæða. Þetta kemur heim og saman við upplýsingar Heródótesar, að á þriðja stjórnarári Xerxsar I. var haldin mikil samkunda með persneskum furstum í Súsa til þess að skipuleggja leiðangur til Daríusar I.Hystaspis, fyrirrennara Xerxesar I.
Xerxes hafði sjálfur stuttu eftir að hann varð konungur lagt undir sig Eþíópíu og Egyptaland. Ætlun hans var að snúa sér til norð-vesturs og leggja Grikkland undir sig. En þetta mistókst, þar sem hann beið lægri hlut í orustunni við Salamis 481 f. Kr. Herodótes skrifar, að Xerxes hafi þá huggað sig við kvennabúr sitt. Það fellur saman við frásögn Esterarbókar.
Á þriðja stjórnarári Ahasverusar hafði hann hafnað Vastí, drottningu sinni, því að hún þrjóskaðist við óskir hans um að láta menn sem voru saman komnir, dást að fegurð sinni. Á sjöunda stjórnarári sínu ákvað hann að fá sér nýja drottningu.
Meðal hinna fögru, óspilltu kvenna, sem safnað var saman í kvennabúr hans, var Gyðingastúlkan Ester, sem þorði ekki að segja kónginum ætt sína og uppruna. Ester var þá foreldralaus og var alin upp hjá föurbróður sínum, Gyðingnum Mordekaí, afkomanda Sáls konungs.
Einn af forfeðrum hans, sennilega afi hans, hafði verið fluttur til Babýloníu (Babel) ásamt Jóakim konungi árið 597 f. Kr. Ætt hans hafði flutt til Súsa. Þegar Mordekaí neitaði að hneigja sig fyrir Haman, uppáhaldi Ahasverusar, lagði Haman hatur á hann. Á áhrifamikinn hátt frelsaðist Mordekaí frá illum áformum Hamans og varð sjálfur forsætisráðherra, eftir að kónginum varð ljóst að Mordekaí hafði bjargað lífi hans.
Áður en Haman var settur af og líflátinn, hafði hann fengið konunginn
Tiol til að ákveða ofsóknnir á hendur Gyðingum til að útrýma þeim.
Á þrettánda degi hins tólfta mánaðar (adar-mánaðarins), átti að útrýma
öllum Gyðingum og yfirtaka allar eignir þeirra. Það er sagt frá baráttu
Esterar til að bjarga þeim frá útrýmingu. Þar sem skipun konungs varð
ekki breytt -- því hún var óbreytanleg -- en Ester drottning gat með
djarfri framkomu, sinni afstýrt því, og konungurinn breytti ákvæðinu
svo að Gyðingarnir fengu leyfi til að safnast saman og verja sig með
vopnum og þúsundir óvina þeirra misstu lífið nálægt 13.
adar
.
Til minningar um þessa frelsun stofnaði Mordekaí til hátíðarhalda, sem nefnd voru Púrím [Orðskýring 1]. Hún var þannig tilkomin, að Haman hafði ákveðið dagsetninguna á útrýmingu Gyðinga með teningskasti. Púrímhátíð er síðan orðin þjóðhátíð Gyðinga, fram til okkar daga.
Tegund ritsins og boðskapur
Fljótt á litið virðist Esterarbók vera lélegt trúarrit. Sumir hafa lagt áherslu á, að nafn Guðs er aldrei nefnt á nafn í bókinni. Það sýnir bara hve vandamálið var mikið, sem Gyðingarnir bjuggu við sem útlendingar, þar sem margir héldu fast við trú sína á Guð og lögmál hans, en þorðu ekki að játa hann opinberlega af ótta við mótaðgerðir.
Trúin á Guð Ísraels er samt bakgrunnur Esterarbókar. Drottinn varðveitti líka þjóð sína á landflóttanum, þegar tilvist þjóðarinnar var ógnað. Einmitt við slík skilyrði og á slíkum tíma kom Ester í drottningarstöðuna, í ljósi þess, að það hafi verið ráðstöfun Guðs. Þótt hún brygðist, mundi Ísraelmönnum samt koma hjálp. Og aftur má treysta því, að Drottinn getur fundið sér viljug verkfæri (4:14).
Á þjóðhátíðardegi safnast allir Gyðingar saman í Súsa til þriggja daga föstu, eins og spámennirnir höfðu kennt í Ísrael að bregðast við svona tilfellum. (Sbr. Jóel 1:13-14; 2: 12-16)
Boðskapur bókarinnar er þessi, að þessari athugun lokinni, að Guð Ísraels stjórnar gangi sögunnar. Með dulinni, en máttuguri íhlutun frelsar hann sína dreifðu þjóð frá dauða og tortímingu. Bókin tjáir heilaga sögu og er þess vegna heilagt rit. Það eru frelsis-söguleg atvik sem hér koma í ljós. Árás Hamans gegn hinni útvöldu þjóð er í raun og veru árás Satans á þá frelsisákvörðun Drottins, sem hann villgera að raunveruleika hjá þessari þjóð.
Bókin hefur líka verið Gyðingum til mikilllar huggunar og hjálpar í þúsund ára dreifingu þjóðarinnar. Trúarlegt gildi er líka undirstrikað við þær aðstæður, að áhrifamikil atvik gerast vegna trúarlegrar afstöðu Mordekaís. Sem sannur, réttrúaður Gyðingur gat hann ekki svikið trúarlega sannfæringu sína og sýnt ráðherra Persa tilbeiðslulotningu, sem Guði einum ber. Hér sýndi Mordekaí svipaða afstöðu og Daníel spámaður og vinir hans, þegar hann vildi ekki saurga sig með því að borða matinn við borð konungsins, eða tilbiðja konunginn eða mynd hans. Á sama hátt og Daníelsbók sýnir hvernig Guð kom til hjálpar þjónum sínum og auðmýkti vald heimsins, álíkan hátt sýnir Esterarbók inngrip Drottins til björgunar þjóð sinni og til dóms yfir óvinina.
Ritunartími
Esterarbók er sennilega rituð stuttu eftir að atburðirnir gerðust. Tilefni og tilgangur hennar er að gefa sögulega lýsingu á atvikum, sem mynda undirstöðuna að púrímhátíðinni.
Höfundur
Höfundur bókarinnar er óþekktur. Ágústínus áleit að Esrahafi ritað bókina, en Klemens frá Alexandríu og margir aðrir, hafa haldið því fram, að hún sé rituð af Mordekaí.
Það er vitnað til Kronikubókanna, þar sem veigamestu atburðanna er getið. Sjá 2:23; og sérstaklega 10:2. Einnig eru lögð til grundvallar rit, sem fjalla um Gyðingaofsóknirnar. Sjá 4:8 og 9:20-32.
Þýtt úr Bibelleksekon: Esterarbók, bls. 34-35.
Björgvin Jörgensson.
[Viðauki við inngang]
[Við þetta má bæta nokkrum tilvitnunum úr NBC:
Það hefur, einkum á síðari tímum, verið mjög skiptar skoðanir um [hvenær Esterarbók er rituð og hver ritaði hana]... Sumir skólar hafa ákvarðað tímasetningu svo seint sem um miðja fyrstu öld FK. Það hníga hins vegar að því sterk rök að ritunin eigi sér stað mun nær þeim tíma sem atburðirnir áttu sér stað.
- Lýsing Esterarbókar á híbýlaskipan konungshallarinnar kemur svo vel heim og saman við það sem Franskir fornleifafræðingar hafa komist að við uppgröft á staðnum að það hlýtur að vera hafið yfir skynsamlegan vafa að höfundurinn sé staðkunnugur, enda eyðilagðist höllin í eldi innan 30 ára frá dauða Xerxesar. Þetta þýðir að ritunin hlýtur að hafa átt sér stað innan hundrað ára frá því að atburðirnir eiga sér stað.
- Ritarinn er greinilega kunnugur siðum og venjum Persa og virðist hafa aðgang að persneskum skjölum (9:32).
- Hann notar hrein persnesk orð eins og
Pur
,baþsjegen
,'ahasjteraním
ogkarpas
, og ... er kunnugur tímasetningum á atburðum eins og hvenær fundur persnesku leiðtoganna var í Súsa. - Þá er stíllinn mjög í ætt við bækur Esra, Nehemía og Króníkurbækurnar.
Öll þessi rök benda til að ritunin hafi átt sér stað snemma, og er það í samræmi við skýringar fyrri tíðar ritskýrenda. Jósefus áætlar hana hafa átt sér stað á tímum Artaxerxesar Longimanusar (464-424 f. Kr.), sem hann reyndar telur vera Ahasverus. Ágústínus telur að Esra hafi ritað bókina og Talmúd, helgirit Gyðingar, tengir hana við Sýnagóguna miklu, sem Esra stýrði. Klemens frá Alexandríu (um og eftir 100 e. Kr.) og margir aðrir telja að Mordekai hafi verið höfundurinn.]
[Orðskýring 1]: Púr er persneska og þýðir
teningakast.
Til baka í texta.
ESTERARBÓK
Skýringar við texta.
Ahasverus Persakonungur rekur frá sér Vastí drottningu sína
1. kafli
Est 1:1. | Það bar til á dögum Ahasverusar -- það er Ahasverusar þess, er ríkti frá Indlandi til Blálands yfir hundrað tuttugu og sjö skattlöndum -- |
Est 1:2. | í þá daga er Ahasverus konungur sat á konungsstóli sínum í borginni Súsa, |
Est 1:3. | á þriðja ríkisári hans, að hann hélt veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum. Sátu þá hershöfðingjarnir í Persíu og Medíu, tignarmennirnir og skattlandstjórarnir í boði hans. |
[Ahasverus er sá sem við þekkjum undir gríska nafninu Xerxes. Hann var Persakonungur frá 486-465 f. Kr. Hann var sonur Daríusar og Atossu, dóttur Kýrusar. Ahasverus tók við krúnunni fimm árum eftir orustuna við Maraþon. Hann barði niður nokkuð öfluga uppreisn í Egyptalandi og réðst í herleiðangur til Grikklands árið 481 f. Kr. Árið eftir (480 f. ) gjöreyddu Grikkir flota hans í orustunni um Salamis og herir hans biðu afhroð við Platæu og Mýkale 479 f. Kr.
Hann sneri aftur til Persíu 478 f. Kr. og það sem eftir lifði af stjórnartíð hans markaðist ekki mikið af öðru en svalli og blóðsúthellingum.
Þessi Ahasverus er ekki sá sami og sagt er frá í Dan 9:1. Sá er að öllum líkindum Cyaxares.
Indland. Hér á það við þann hluta Indlands sem Alexander mikli lagði undir sig, þ.e.a.s. Púndjab og kannski Sind héruð.
Bláland er Eþíópía. Á Hebresku heitir það Kús eða Kúsland (sbr. 1M. 10:6, en þar eru Kús og Misraím, sem einnig er hebreska nafnið fyrir Egyptaland, bræður).
Að mestu byggt á NBC.]
Est 1:4. | Sýndi hann þá auðæfi síns veglega konungdóms og dýrðarskraut tignar sinnar í marga daga -- hundrað og áttatíu daga. |
Est 1:5. | Og er þessir dagar voru liðnir, hélt konungur veislu öllu fólki, sem var í borginni Súsa, bæði háum og lágum, í sjö daga, í forgarðinum að hallargarði konungs. |
Est 1:6. | Þar héngu hvítir baðmullardúkar og purpurabláir, festir með snúrum af býssus og rauðum purpura í silfurhringa og á marmarasúlum, legubekkirnir voru úr gulli og silfri, á gólfi lögðu alabastri, hvítum marmara, perlumóðursteini og svörtum marmara. |
Est 1:7. | En drykkir voru inn bornir í gullkerum, og voru hver kerin öðrum ólík, og þar var gnægð konunglegs víns, eins og konunglegu örlæti sómir. |
Est 1:8. | Og drykkjan fór fram eftir því fyrirmæli, að enginn skyldi halda drykk að mönnum, því að konungur hafði lagt svo fyrir alla frammistöðumenn í höll sinni, að þeir skyldusvo gjöra sem hverjum manni þóknaðist. |
Est 1:9. | Vastí drottning hélt og konum veislu í konunglegri höll, er Ahasverus konungur átti. |
Est 1:10. | En á sjöundadegi, þá er konungur var hreifur af víni, bauð hann Mehúman, Bista, Harbóna, Bigta og Abagta, Setar og Karkas, þeim sjö hirðmönnum, er þjónuðu Ahasverusi konungi, |
Est 1:11. | að sækja Vastí drottningu og leiða hana inn fyrir konung með konunglega kórónu á höfði, til þess að hann gæti sýnt þjóðunum og höfðingjunum fegurð hennar, því að hún var fríð sýnum. |
Est 1:12. | En Vastí drottning vildi ekki koma eftir boði konungs, er hirðmennirnir fluttu. Þá reiddist konungur ákaflega, og heiftin brann honum í brjósti. |
Hér erum við komin að kjarna málsins: Konungurinn er drukkinn með fjölda manns í veislu og boðar drottningu sína til sín til að halda sýningu á henni fyrir drykkjufélaga sína. Ég býst við að mörgum finnist drottningin hafa sýnt kvenlega reisn við það að neita að vera sýningargripur í drykkjuveislu.
Est 1:13. | Og konungur sagði við vitringana, sem þekktu tímana -- því að þannig voru orð konungs lögð fyrir alla þá, er þekktu lög og rétt, |
Est 1:14. | og þeir, sem stóðu honum næstir, voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar Persa og Meda, er litu auglit konungs og höfðu æðstu sætin í ríkinu --: |
Est 1:15. | "Hverjum dómi skal Vastí drottning sæta að lögum fyrir það, að hún hlýddi eigi orðsending Ahasverusar konungs, þeirri er hirðmennirnir fluttu?" |
Est 1:16. | Þá sagði Memúkan í áheyrn konungs og höfðingjanna: "Vastí drottning hefir ekki einungis brotið á móti konunginum, heldur einnig á móti öllum höfðingjunum og öllum þjóðunum, sem búa í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs. |
Est 1:17. | Því að athæfi drottningar mun berast út til allra kvenna
og gjöra eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra, er sagt verður: 'Ahasverus konungur bauð að leiða Vastí drottningu fyrir sig, en hún kom ekki.' |
Est 1:18. | Og þegar í dag munu hefðarfrúr Persa og Meda, þær er frétt hafa athæfi drottningar, segja þetta öllum höfðingjum konungs, og mun það valda fullnógri fyrirlitningu og reiði. |
Est 1:19. | Ef konungi þóknast svo, þá láti hann konunglegt boð út ganga og sé það ritað í lög Persa og Meda, svo að því verði ekki breytt, að Vastí skuli ekki framar koma fyrir auglit Ahasverusar konungs, og konunglega tign hennar gefi konungur annarri, sem er betri en hún. |
Est 1:20. | Þegar nú úrskurður konungs, er hann kveður upp, verður kunnur um allt ríki hans, sem er mjög stórt, þá munu allar konur sýna mönnum sínum virðingu, bæði háum og lágum." |
Est 1:21. | Þessi tillaga geðjaðist bæði konunginum og höfðingjunum, og konungur fór að ráðum Memúkans. |
Est 1:22. | Og hann sendi bréf til allra skattlanda konungs, í sérhvert land eftir skrift þess lands og til sérhverrar þjóðar á hennar tungu, að hver maður skyldi vera húsbóndi á sínu heimili og mæla allt það, er honum líkaði. |
Þessi stórmennska [Vastí] kostaði hana drottningartitilinn og hjónabandið, því ráðgjöfum konungsins fannst, að athæfi hennar mundi berast til annarra kvenna og gera eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra. Þeir ráðlögðu konungi að losa sig við Vastí -- reka hana af höndum sér. Það varð niðurstaðan, því þetta ráð geðjaðist konunginum.
Ester verður drottning
2:1-18
Est 2:1. | Eftir þessa atburði, þá er Ahasverusi konungi var runnin reiðin, minntist hann Vastí og þess, er hún hafði gjört, svo og þess, hver dómur hafði yfir hana gengið. |
Est 2:2. | Þá sögðu menn konungs, þeir er honum þjónuðu: "Leiti menn að ungum, fríðum meyjum handa konunginum, |
Est 2:3. | og konungur setji til menn um öll skattlönd ríkis síns, er safni saman öllum ungum, fríðum meyjum til borgarinnar Súsa, í kvennabúrið, undir umsjá Hegaí, geldings konungs, þess er geymir kvennanna, svo að hann annist um hreinsunarundirbúning þeirra. |
Est 2:4. | Og sú stúlka, sem þóknast konungi, verði drottning í
stað Vastí." Þetta líkaði konungi vel, og hann gjörði svo. |
Þegar rann af konungi, gerði hann sér ljóst hvað hann hafði sagt og gert, og að dómi hans varð ekki breytt. Ráðgjafar hans ráðlögðu honum að leita að fögrum konum, og hann lét safna saman öllum ungum, fríðum meyjum frá skattlöndunum í kvennabúrið undir umsjá Hegaí geldings konungs, "sem geymdi kvennanna" og láta hann annast undirbúning að því að leiða þær fram fyrir konung, svo að hann gæti valið þá sem honum geðjaðist best.
Þetta ráð líkaði konunginum og hann lét gera þetta.
Est 2:5. | En í borginni Súsa var Gyðingur nokkur, að nafni Mordekai Jaírsson, Símeísonar, Kíssonar, Benjamíníti, |
Est 2:6. | er fluttur hafði verið frá Jerúsalem með þeim hernumdu, er fluttir voru burt með Jekonja Júdakonungi, þeim er Nebúkadnesar Babel-konungur flutti burt. |
Est 2:7. | Og hann var fósturfaðir Hadassa, það er Esterar, dóttur föðurbróður hans, því að hún var föður- og móðurlaus. Og stúlkan var fagurvaxin og fríð sýnum, og er faðir hennar og móðir önduðust, þá hafði Mordekai tekið hana sér í dóttur stað. |
Est 2:8. | Er boð konungs og tilskipun hans varð kunn og safnað var saman mörgum stúlkum til borgarinnar Súsa undir umsjá Hegaí, þá var og Ester tekin til konungshallarinnar, undir umsjá Hegaí kvennavarðar. |
Est 2:9. | Og stúlkan geðjaðist honum og fann náð fyrir augum hans. Fyrir því flýtti hann sér að fá henni það, er hún þurfti til hreinsunarundirbúnings síns, og þann mat, er henni bar, svo og að fá henni þær sjö þernur úr konungshöllinni, er henni voru ætlaðar. Og hann fór með hana og þernur hennar á besta staðinn í kvennabúrinu. |
Est 2:10. | Ester hafði ekki sagt, hverrar þjóðar hún væri né frá ætt sinni, því að Mordekai hafði boðið henni að segja eigi frá því. |
Est 2:11. | En Mordekai gekk á degi hverjum fyrir framan forgarð kvennabúrsins til þess að vita, hvernig Ester liði og hvað um hana yrði. |
Est 2:12. | Og er röðin kom að hverri stúlku um sig, að hún skyldi ganga inn fyrir Ahasverus konung, eftir tólf mánaða undirbúningsfrest samkvæmt kvennalögunum -- því að svo langur tími gekk til hreinsunarundirbúnings þeirra: sex mánuðir með myrruolíu og sex mánuðir með ilmsmyrslum og öðru því, er til undirbúnings kvenna heyrir -- |
Est 2:13. | þegar stúlkan þá gekk inn fyrir konung, var henni fengið allt, er hún bað um, að það færi með henni úr kvennabúrinu til konungshallarinnar. |
Est 2:14. | Um kveldið gekk hún inn, en að morgni sneri hún aftur í hið annað kvennabúr, undir umsjá Saasgasar, geldings konungs, þess er geymdi hjákvennanna. Mátti hún þá eigi framar koma inn fyrir konung, nema ef konungi hefði geðjast vel að henni og hún væri sérstaklega kölluð. |
Est 2:15. | Þegar nú röðin kom að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekai, er hann hafði tekið sér í dóttur stað, að hún skyldi inn ganga fyrir konung, þá bað hún ekki um neitt, nema það sem Hegaí geldingur konungs, kvennavörðurinn, tiltók. Og Ester fann náð í augum allra þeirra, er hana sáu. |
Est 2:16. | Og Ester var tekin inn til Ahasverusar konungs, inn í hina konunglegu höll hans, í tíunda mánuðinum -- það er tebetmánuður -- á sjöunda ríkisstjórnarári hans.[Orðskýring 2] |
Est 2:17. | Og konungur fékk meiri ást á Ester en öllum öðrum konum, og hún ávann sér náð hans og þokka, meir en allar hinar meyjarnar. Og hann setti hina konunglegu kórónu á höfuð henni og gjörði hana að drottningu í stað Vastí. |
Est 2:18. | Og konungur hélt mikla veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum, Esterar-veislu, lét halda hvíldardag í skattlöndunum og gaf gjafir með konunglegu örlæti. |
Undirbúningurinn undir lokaval konungsins tók heilt ár (2:12).
[Orðskýring 2]: Janúar-febrúar 479 f. Kr. (The
New Bible Commentary, Inter-Varsity Fellowship)
Tilbaka í texta.
Mordekai kemst fyrir samsæri gegn konungi
2:19-23
Est 2:19. | Þá er meyjum var í annað sinn safnað og Mordekai sat í konungshliði -- |
Est 2:20. | en Ester hafði ekki sagt frá ætt sinni eða hverrar þjóðar hún væri, svo sem Mordekai hafði boðið henni, með því að Ester hlýddi fyrirmælum Mordekai, eins og þegar hún var í fóstri hjá honum -- |
Est 2:21. | í þann tíma, þá er Mordekai sat í konungshliði, reiddust Bigtan og Teres, tveir geldingar konungs, af þeim er geymdu dyranna, og leituðu eftir að leggja hendur á Ahasverus konung. |
Est 2:22. | Þessa varð Mordekai áskynja og sagði Ester drottningu frá því, en Ester sagði konungi frá í nafni Mordekai. |
Est 2:23. | Og er málið var rannsakað og þetta reyndist satt að vera, þá voru þeir báðir festir á gálga. Og þetta var ritað í árbókina í viðurvist konungs. |
Þessi þáttur þarf ekki skýringa við.
Haman ákveður að láta myrða alla Gyðinga í Persíu
3:1-15.
Est 3:1. | Eftir þessa atburði veitti Ahasverus konungur Haman Hamdatasyni Agagíta mikinn frama og hóf hann til vegs og setti stól hans ofar öllum stólum höfðingja þeirra, er með honum voru. |
Est 3:2. | Og allir þjónar konungs, þeir er voru í hliði konungs, féllu á kné og lutu Haman, því að svo hafði konungur um hann boðið. En Mordekai féll hvorki á kné né laut honum. |
Est 3:3. | Þá sögðu þjónar konungs, þeir er voru í konungshliði,
við Mordekai: "Hví brýtur þú boð konungs?" |
Est 3:4. | Höfðu þeir daglega orð á þessu við hann, en hann hlýddi þeim ekki. Sögðu þeir þá Haman frá því til þess að sjá, hvort orð Mordekai yrðu tekin gild, því að hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur. |
Est 3:5. | Og er Haman sá, að Mordekai féll eigi á kné né laut honum, þá fylltist Haman reiði. |
Est 3:6. | En honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai. |
Haman var kænn að koma málum sínum að hjá konungi:
Est 3:7. | Í fyrsta mánuðinum -- það er í mánuðinum nísan -- á tólfta ríkisári Ahasverusar konungs var varpað púr, það er hlutkesti, í viðurvist Hamans, frá einum degi til annars og frá einum mánuði til annars, og féll hlutkestið á þrettánda dag hins tólfta mánaðar -- það er mánaðarins adar. |
Est 3:8. | Og Haman sagði við Ahasverus konung: "Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa. |
Est 3:9. | Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. En tíu þúsund talentur silfurs skal ég vega í hendur fjárgæslumönnunum, svo að þeir flytji það í féhirslur konungs." |
Est 3:10. | Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Haman Hamdatasyni Agagíta, fjandmanni Gyðinga. |
Est 3:11. | Síðan sagði konungur við Haman: "Silfrið er þér gefið, og með þjóðina mátt þú fara svo sem þér vel líkar." |
Síðan lesum við um vandaðan undirbúning að þjóðarmorði
þeirra
Gyðinga, sem þarna voru og í næstu löndum með eftirriti af bréfi
konungsins. Þetta var mikið áfall fyrir Gyðingana.
Est 3:12. | Þá var skrifurum konungs stefnt saman, þrettánda dag hins fyrsta mánaðar, og var nú skrifað með öllu svo sem Haman mælti fyrir til jarla konungs og til landstjóranna í öllum skattlöndunum og til höfðingja allra þjóðanna, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu. Var þetta skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring konungs. |
Est 3:13. | Og bréfin voru send með hraðboðum í öll skattlönd konungs, þess efnis, að eyða skyldi, deyða og tortíma öllum Gyðingum, bæði ungum og gömlum, börnum og konum, á einum degi, þrettánda dag hins tólfta mánaðar -- það er mánaðarins adar -- og ræna fjármunum þeirra. |
Est 3:14. | Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi, til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum, svo að þær gætu verið viðbúnar þennan dag. |
Est 3:15. | Hraðboðarnir fóru af stað í skyndi að boði konungs, þegar er lögin voru útgefin í borginni Súsa. Og konungur og Haman settust að drykkju, en felmt sló á bæinn Súsa. |
Harmakvein Gyðinga.
Ester ræður af að reyna að frelsa þá
4. kafli.
Est 4:1. | En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega. |
Est 4:2. | Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk. |
Þriðja versið sýnir svipuð viðbrögð annarra Gyðinga:
Est 4:3. | Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku. |
Est 4:4. | Þá komu þjónustumeyjar Esterar og geldingar hennar og sögðu henni frá þessu. Varð drottning þá mjög óttaslegin. Og hún sendi klæði, er Mordekai skyldi færður í og hann fara úr sekknum, en hann vildi ekki taka við þeim. |
Hún sendi einn af þjóum sínum til Mordekaí og Mordekaí segir honum ástæðuna og fær honum afrit a fkonungsbréfinu og biður hann að sýna Ester það, segja henni frá og biðja hana um að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa. Þetta gerði hann.
Viðbrögð Esterar og svar hennar sýnir enn á ný, hve reglurnar um viðtal við konunginn voru grimmdarlegar. Ester biður Hatak, geldinginn, að segja Mordekaí þetta. Það gerði hann.
Est 4:5. | Þá kallaði Ester Hatak til sín, einn af geldingum konungs, er hann hafði sett til að þjóna henni, og bauð honum að fara til Mordekai og fá að vita, hvað þetta ætti að þýða og hverju það sætti. |
Est 4:6. | Þá gekk Hatak til Mordekai út á bæjartorgið, er var fyrir utan konungshliðið. |
Est 4:7. | En Mordekai sagði honum allt, sem fyrir hann hafði komið, og upphæð fjárins, er Haman hafði heitið að vega í féhirslur konungs fyrir Gyðinga, til þess að fá þeim eytt. |
Est 4:8. | Auk þess fékk hann honum eftirrit af konungsbréfi því, er út hafði verið gefið í Súsa, um að eyða þeim. Skyldi hann sýna Ester það og segja henni frá og bjóða henni að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa. |
Est 4:9. | Og Hatak kom og flutti Ester orð Mordekai. |
Est 4:10. | En Ester sagði við Hatak og bauð honum að flytja Mordekai það: |
Est 4:11. | 'Öllum þjónum konungs og fólkinu í skattlöndum konungs er kunnugt, að um hvern þann mann eða konu, sem gengur fyrir konung inn í hinn innri forgarð og er eigi kallaður, gilda ein lög, að hann skal af lífi taka, nema konungur rétti út í móti honum gullsprotann sem merki þess, að hann megi lífi halda. En ég hefi eigi verið kölluð inn fyrir konung nú í þrjátíu daga.' |
Est 4:12. | Og Mordekai voru flutt orð Esterar. |
Est 4:13. | Þá lét Mordekai skila aftur til Esterar: 'Ekki skalt þú ímynda þér, að þú ein af öllum Gyðingum komist undan, af því að þú ert í höll konungs. |
Est 4:14. | Því þótt svo færi, að þú þegðir nú, þá mun Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað, en þú og ættfólk þitt munuð farast. Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!' |
Est 4:15. | Þá lét Ester skila aftur til Mordekai: |
Est 4:16. | 'Far þú og kalla saman alla Gyðinga, sem nú eru í Súsa, og fastið mín vegna, etið hvorki né drekkið í þrjá daga, hvorki nótt né dag. Ég og þjónustumeyjar mínar munum og fasta á sama hátt. Síðan mun ég ganga inn fyrir konung, þótt það sé í móti lögunum, og ef ég þá á að farast, þá ferst ég.' |
Þetta sýnir, að Ester var sönn hetja.
Est 4:17. | Gekk Mordekai þá burt og fór með öllu svo sem Ester hafði boðið honum. |
Hér fer saman kærleikur Esterar til þjóðar sinnar, hugrekki hennar og djörfung.
Ester gengur fyrir konung og býður honum til veislu
5:1-8
Est 5:1. | En á þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í hinn innri forgarð konungshallarinnar, gegnt konungshöllinni, en konungur sat í konungshásæti sínu í konungshöllinni gegnt dyrum hallarinnar. |
Est 5:2. | En er konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans, og konungur rétti út í móti Ester gullsprotann, er hann hafði í hendi sér. Þá gekk Ester nær og snart oddinn á sprotanum. |
Est 5:3. | Og konungur sagði við hana: "Hvað er þér á höndum, Ester drottning, og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, [Orðskýring 3] þá skal þér það veita." |
Est 5:4. | Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá komi konungurinn, ásamt Haman, í dag til veislu þeirrar, er ég hefi búið honum." |
Est 5:5. | Þá sagði konungur: "Sækið Haman í skyndi, svo að vér megum gjöra það, sem Ester hefir um beðið." Þegar nú konungur, ásamt Haman, var kominn til veislunnar, er Ester hafði búið, |
Est 5:6. | sagði konungur við Ester, þá er þau voru sest að
víndrykkjunni: "Hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið." |
[Orðskýring 3: Hálft ríkið
Það mun hafa verið eðlilegt kurteisisboð hjá konungi að bjóða hálft
ríkið, þó svo að ekki liggi þar í neitt meira en orðin. --BBJ]
Est 5:7. | Þá svaraði Ester og sagði: "Bæn mín og beiðni er þessi: |
Est 5:8. | Hafi ég fundið náð í augum konungsins og þóknist konunginum að veita mér bæn mína og gjöra það, er ég beiðist, þá komi konungurinn og Haman til veislu þeirrar, er ég mun búa þeim. Mun ég þá á morgun gjöra það, sem konungurinn hefir óskað." |
[Ester hefur verið úr beinum tengslum við konunginn um sinn og ákveður því að bíða um sinn með erindið, eða þangað til hún er öruggari um að hún hafi erindi sem erfiði. Því býður hún koninginum til annarar veislu.--BBJ]
Haman hyggst láta hengja Mordekai
5:9-14
Est 5:9. | Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai. |
Est 5:10. | Þó stillti Haman sig. En er hann kom heim til sín, sendi hann og lét sækja vini sína og Seres konu sína. |
Est 5:11. | Sagði Haman þeim frá hinum miklu auðæfum sínum og fjölda sona sinna og frá öllum þeim frama, sem konungur hafði veitt honum, og hversu konungur hefði hafið hann til vegs framar öðrum höfðingjum sínum og þjónum. |
Est 5:12. | Og Haman mælti: "Já, Ester drottning lét engan koma með konungi til veislu þeirrar, er hún gjörði, nema mig. Hún hefir og boðið mér á morgun með konunginum. |
Est 5:13. | En allt þetta er mér ekki nóg, meðan ég sé Mordekai Gyðing sitja í konungshliði." |
Est 5:14. | Þá sagði Seres kona hans við hann og allir vinir hans: "Lát reisa fimmtíu álna háan gálga, og talaðu á morgun um það við konung, að Mordekai verði festur á hann. Far síðan glaður með konungi til veislunnar." Þetta ráð líkaði Haman vel og lét hann reisa gálgann. |
Þessi hluti þarfnast ekki sérstakra skýringa.
Mordekai þiggur sæmd af konungi
6:1-13.
Est 6:1. | En þessa nótt gat konungur ekki sofið. Bauð hann þá að koma með Annálabókina, og var hún lesin fyrir konungi. |
Est 6:2. | Þá fannst þar skrifað, hversu Mordekai hefði komið upp um þá Bigtan og Teres, tvo geldinga konungs, af þeim er geymdu dyranna, sem höfðu leitast við að leggja hönd á Ahasverus konung. |
Est 6:3. | Þá sagði konungur: "Hverja sæmd og upphefð [Orðskýring 4] hefir Mordekai hlotið fyrir þetta?" Þá sögðu sveinar konungs, þeir er þjónuðu honum: "Hann hefir ekkert hlotið fyrir." |
Est 6:4. | Og konungur sagði: "Hver er í forgarðinum?" Í sama bili hafði Haman komið inn í ytri forgarð konungshallarinnar til þess að tala um það við konung að láta festa Mordekai á gálga þann, er hann hafði reist handa honum. |
Est 6:5. | Og sveinar konungs sögðu við hann: "Sjá, Haman stendur í forgarðinum." Konungur mælti: "Látið hann koma inn." |
Est 6:6. | En er Haman var inn kominn, sagði konungur við hann: "Hvað á að gjöra við þann mann, er konungur vill heiður sýna?" Þá hugsaði Haman með sjálfum sér: ':Hverjum mun konungur vilja heiður sýna öðrum en mér?' |
Est 6:7. | Og Haman sagði við konung: "Ef konungur vill sýna einhverjum heiður, |
Est 6:8. | þá skal sækja konunglegan skrúða, sem konungur hefir klæðst, og hest, sem konungur hefir riðið, og konungleg kóróna er sett á höfuð hans. |
Est 6:9. | Og skrúðann og hestinn skal fá í hendur einum af höfðingjum konungs, tignarmönnunum, og færa þann mann, sem konungur vill sýna heiður, í skrúðann og láta hann ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gjört við þann mann, er konungur vill heiður sýna." |
Est 6:10. | Þá sagði konungur við Haman: "Sæk sem skjótast skrúðann og hestinn, svo sem þú hefir sagt, og gjör þannig við Mordekai Gyðing, sem situr hér í konungshliði. Lát ekkert niður falla af öllu því, er þú hefir sagt." |
Est 6:11. | Þá sótti Haman skrúðann og hestinn, færði Mordekai í og lét
hann ríða um borgartorgið og hrópaði fyrir honum: "Þannig er gjört við þann mann, er konungurinn vill heiður sýna." |
Est 6:12. | Síðan sneri Mordekai aftur í konungshliðið. En Haman skundaði heim til sín, hryggur og með huldu höfði. |
Est 6:13. | Og Haman sagði Seres konu sinni og öllum vinum sínum frá
öllu því, er fyrir hann hafði komið. Þá sögðu vitringar hans við hann
og Seres kona hans: "Ef Mordekai, sem þú ert tekinn að falla fyrir, er af ætt Gyðinga, þá megnar þú ekkert á móti honum, heldur munt þú gjörsamlega falla fyrir honum." |
[Orðskýring 4]: Persar höfðu reglu, sem kölluð var
Orosangae
eða "Velgjörðarmenn konungs", menn sem höfðu
innt af hendi einhver sérstök verk, sem komu konungi vel eða víðfrægðu hann.
Þeim var oft launað með meira en hóflegum hætti.
Til baka í texta.
Haman hengdur.
Mordekai kemst til upphefðar.
6:14-8:2
Est 6:14. | Meðan þeir voru enn við hann að tala, komu geldingar konungs, og fóru þeir í skyndi með Haman til veislunnar, er Ester hafði búið. |
Það er augljóst, að nú er ljóminn farinn í huga Hamans af tilhugsuninni um að mæta í veislunni hjá Ester drottningu. Nú er Haman drifinn í veisluna ásamt konunginum.
Est 7:1. | Þá er þeir konungur og Haman voru komnir til þess að drekka hjá Ester drottningu, |
Est 7:2. | þá sagði konungur við Ester einnig þennan hinn annan
dag, þá er þau voru sest að víndrykkjunni: "Hver er bón þín, Ester drottning? Hún mun veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið." |
Est 7:3. | Þá svaraði Ester drottning og sagði: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, konungur, og þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar. |
Est 7:4. | Því að vér erum seldir, ég og þjóð mín, til eyðingar, deyðingar og tortímingar. Og ef vér hefðum aðeins verið seldir að þrælum og ambáttum, þá mundi ég hafa þagað, þótt mótstöðumaðurinn hefði eigi verið fær um að bæta konungi skaðann." |
Est 7:5. | Þá mælti Ahasverus konungur og sagði við Ester drottningu: "Hver er sá og hvar er sá, er dirfðist að gjöra slíkt?" |
Est 7:6. | Ester mælti: "Mótstöðumaðurinn og óvinurinn er þessi vondi Haman!" En Haman varð hræddur við konung og drottningu. |
Est 7:7. | Og konungur stóð upp frá víndrykkjunni í reiði og gekk út í hallargarðinn, en Haman stóð eftir til þess að biðja Ester drottningu um líf sitt, því að hann sá sér ógæfu búna af konungi. |
Est 7:8. | En þegar konungur kom aftur utan úr hallargarðinum inn
í veislusalinn, þá hafði Haman látið fallast á hvílubekk þann, sem Ester
sat á. Þá sagði konungur: "Mun hann einnig ætla að nauðga drottningunni hjá mér hér í höllinni?" Óðara en þessi orð voru komin út af vörum konungs, huldu menn auglit Hamans. |
Est 7:9. | Og Harbóna, einn af geldingum þeim, er þjónuðu konungi,
mælti: "Sjá, gálginn, sem Haman lét gjöra handa Mordekai, sem þó hafði talað það, er konungi varð til heilla, stendur búinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álna hár." Þá mælti konungur: "Festið hann á hann!" |
Est 7:10. | Og þeir festu Haman á gálgann, sem hann hafði reisa látið handa Mordekai. Þá rann konungi reiðin. |
Est 8:1. | Þennan sama dag gaf Ahasverus konungur Ester drottningu hús Hamans, fjandmanns Gyðinga. En Mordekai gekk fyrir konung, því að Ester hafði sagt honum, hvað hann væri sér. |
Est 8:2. | Og konungur dró innsiglishringinn af hendi sér, þann er hann hafði látið taka af Haman, og fékk Mordekai hann. En Ester setti Mordekai yfir hús Hamans. |
[Þetta skýrir sig sjálft.]
Gyðingum leyft að verja hendur sínar og hefna sín
8:3-17
Est 8:3. | Og Ester talaði enn við konung, féll honum til fóta og bað hann grátandi að ónýta illskuráð Hamans Agagíta, þau er hann hafði upp hugsað gegn Gyðingum. |
Est 8:4. | En konungur rétti gullsprotann út í móti Ester. Þá stóð Ester upp og gekk fyrir konung |
Est 8:5. | og mælti: "Ef konunginum þóknast svo og hafi ég fundið náð í augum hans og sé konunginum það ekki ógeðfellt og ef hann hefir mætur á mér, þá sé nú gefin út skrifleg skipun til þess að afturkalla bréfin, ráðagerð Hamans Hamdatasonar Agagíta, þau er hann ritaði til þess að láta eyða Gyðingum í öllum skattlöndum konungs. |
Est 8:6. | Því að hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á ógæfu þá, er koma á yfir þjóð mína, og hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á tortíming kynsmanna minna?" |
Est 8:7. | Þá sagði Ahasverus konungur við Ester drottningu og
Mordekai Gyðing: "Sjá, hús Hamans hefi ég gefið Ester, og sjálfur hefir hann verið festur á gálga, fyrir þá sök, að hann hafði lagt hendur á Gyðinga. |
Est 8:8. | En skrifið þið nú um Gyðinga það er ykkur líkar í nafni konungs og innsiglið það með innsiglishring konungs. Því að ekkert það bréf, sem skrifað er í nafni konungs og innsiglað með innsiglishring konungs, verður afturkallað." |
Est 8:9. | Og skrifurum konungs var þá stefnt saman, hinn tuttugasta og þriðja dag hins þriðja mánaðar -- það er mánaðarins sívan -- og var þá skrifað með öllu svo sem Mordekai bauð, til Gyðinga og til jarlanna og til landstjóranna og til höfðingja skattlandanna frá Indlandi til Blálands, til skattlandanna hundrað tuttugu og sjö, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu, og einnig til Gyðinga með þeirra skrift og á þeirra tungu. |
Est 8:10. | Og hann skrifaði í nafni Ahasverusar konungs og innsiglaði með innsiglishring konungs, og hann sendi bréf með ríðandi hraðboðum, sem riðu fyrirmannagæðingum úr stóði konungs, |
Est 8:11. | þar sem konungur leyfði Gyðingum í öllum borgum að safnast saman og verja líf sitt og að eyða, deyða og tortíma öllum liðsafla þeirrar þjóðar og lands, er sýndi þeim fjandskap, jafnvel börnum og konum, og ræna fjármunum þeirra, |
Est 8:12. | á einum degi í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, hinn þrettánda dag hins tólfta mánaðar -- það er mánaðarins adar. [Orðskýring 5] |
Est 8:13. | Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum og til þess að Gyðingar skyldu vera viðbúnir þennan dag að hefna sín á óvinum sínum. |
Est 8:14. | Hraðboðarnir, sem riðu fyrirmannagæðingunum, fóru af stað með skyndingu og flýti, að boði konungs, þegar er lagaboðið var gefið út í borginni Súsa. |
Est 8:15. | En Mordekai gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, purpurabláum og hvítum, með stóra gullkórónu og í möttli úr býssus og rauðum purpura, og í borginni Súsa varð gleði mikil og fögnuður. |
Est 8:16. | Og hjá Gyðingum var ljós og gleði, fögnuður og dýrð. |
Est 8:17. | Og í öllum skattlöndum og öllum borgum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, var gleði og fögnuður meðal Gyðinga, veisluhöld og hátíðisdagur. Og margir hinna heiðnu landsbúa gjörðust Gyðingar, því að ótti við Gyðinga var yfir þá kominn. |
[Þetta þarfnast ekki sérstakrar skýringar.]
Orðskýring 5: Adar.
Febrúar - mars. Þannig líður næstum ár frá því að ákvörðun er tekin um
að eyða skuli öllum Gyðingum, þangað til framkvæmdin átti að eiga sér
stað. [New Bible Commentary.]
Tilbaka í texta
Gyðingar hefna sín á óvinum sínum og halda hátíð
9:1-19
Est 9:1. | Og þrettánda dag hins tólfta mánaðar -- það er mánaðarins adar --, þá er skipun konungs og lagaboði hans skyldi fullnægt, þann dag er óvinir Gyðinga höfðu vonað að fá yfirbugað þá, en nú þvert á móti Gyðingar sjálfir skyldu yfirbuga fjendur sína, |
Est 9:2. | þá söfnuðust Gyðingar saman í borgum sínum um öll skattlönd Ahasverusar konungs til þess að leggja hendur á þá, er þeim leituðu tjóns. Og enginn fékk staðist fyrir þeim, því að ótti við þá var kominn yfir allar þjóðir. |
Est 9:3. | Og allir höfðingjar skattlandanna og jarlarnir og landstjórarnir og embættismenn konungs veittu Gyðingum lið, því að ótti við Mordekai var yfir þá kominn. |
Est 9:4. | Því að Mordekai var mikill orðinn við hirð konungs, og orðstír hans fór um öll skattlöndin, því að maðurinn Mordekai varð æ voldugri og voldugri. |
Est 9:5. | Og Gyðingar unnu á óvinum sínum með sverði, drápu þá og tortímdu þeim, og fóru þeir með hatursmenn sína eftir geðþekkni sinni. |
Est 9:6. | Og í borginni Súsa drápu Gyðingar og tortímdu fimm hundruðum manns. |
Est 9:7. | Og þeir drápu Parsandata, Dalfón, Aspata, |
Est 9:8. | Pórata, Adalja,Arídata, |
Est 9:9. | Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajesata, |
Est 9:10. | tíu sonu Hamans Hamdatasonar, fjandmanns Gyðinga. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni manna. |
Est 9:11. | Þennan sama dag var tala þeirra, sem vegnir höfðu verið í borginni Súsa, flutt konungi. |
Est 9:12. | Og konungur sagði við Ester drottningu: "Í borginni Súsa hafa Gyðingar drepið og tortímt fimm hundruð manns og tíu sonu Hamans. Hvað munu þeir hafa gjört í öðrum skattlöndum konungs? Og hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú frekar? Það skal í té látið." |
Est 9:13. | Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá sé Gyðingum, þeim sem eru í borginni Súsa, leyft að fara hinu sama fram á morgun sem í dag, og þá tíu sonu Hamans festi menn á gálga." |
Est 9:14. | Og konungur bauð að svo skyldi gjöra, og fyrirskipun var útgefin í Súsa, og synir Hamans tíu voru festir á gálga. |
Est 9:15. | Og Gyðingar í Súsa söfnuðust og saman hinn fjórtánda dag adarmánaðar og drápu þrjú hundruð manns í Súsa. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra. |
Est 9:16. | En aðrir Gyðingar, þeir er bjuggu í skattlöndum konungs, söfnuðust saman og vörðu líf sitt með því að hefna sín á óvinun sínum og drepa sjötíu og fimm þúsundir meðal fjandmanna sinna -- en eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra -- |
Est 9:17. | hinn þrettánda dag adarmánaðar, og þeir tóku sér hvíld hinn fjórtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi. |
Est 9:18. | En Gyðingar þeir, sem bjuggu í Súsa, höfðu safnast saman bæði hinn þrettánda og hinn fjórtánda mánaðarins, og tóku þeir sér hvíld hinn fimmtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi. |
Est 9:19. | Fyrir því halda Gyðingar í sveitunum, þeir er búa í sveitaþorpunum, hinn fjórtánda dag adarmánaðar sem gleði-, veislu- og hátíðisdag og senda þá hver öðrum matgjafir. |
Þessi kafli er allur í anda heiðingdómsins og gyðinglegs haturs og hefnigirni. Hefnigirndin kemur líka í ljós hjá Ester drottningu. Þetta er hugarfarið, sem Jesús barðist gegn, þegar hann starfaði og stofnaði til ríkis Guðs barna með fórnardauða sínum á krossinum á Golgata.
[Þessi skýring Björgvins byggir á fullmikilli einföldun að mínu mati. Þarna er miklu fremur um sambland þess að verjast þeim sem notuðu tækifærið til þess að ráðast gegn Gyðingum -- samkvæmt skipun konungs og samkvæmt þeirri guðlegu handleiðslu, sem lýsti sér í því að Ester hlaut náð hjá konunginum, og þar með heimild til þess fyrir hönd Gyðinga að þeir mættu verjast, -- og þess að láta gremju og beiskju þess, sem hefur verið kúgaður um margra áratuga skeið, ná tökum á sér.
Það verður að teljast mjög mannlegt og eðlilegt út frá mannlegu sjónarmiði að Gyðingarnir, með Ester og Mordekai í fararbroddi, bregðist svo við sem hér er lýst.
Það er hins vegar rétt, að þessi viðbrögð eru ekki samkvæmt því, sem rétt hefði verið samkvæmt þeim kærleiksboðskap sem Guð hafði einmitt sýnt Gyðingum svo vel í handleiðslu sinni með þá, boðskapnum, sem Jesús síðan lagði svo mikla áherslu á um 500 árum síðar með boðskap sínum, lífi og að lokum dauða á krossi.-BBJ]
Tilvísaður Staður
sem nánar er talað um hér
Vísun tilbaka í texta á
stað sem er attribute af name.
Gyðingum skylt að halda púrímhátíð
9:20-32
Est 9:20. | Mordekai skrásetti þessa viðburði og sendi bréf til allra Gyðinga í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, bæði nær og fjær, |
Est 9:21. | til þess að gjöra þeim að skyldu að halda árlega helgan fjórtánda og fimmtánda dag adarmánaðar |
Est 9:22. | eins og dagana, sem Gyðingar fengu hvíld frá óvinum sínum, og mánuðinn, er hörmung þeirra snerist í fögnuð og hryggð þeirra í hátíðisdag -- með því að gjöra þá að veisludögum og fagnaðar og senda þá hver öðrum matgjafir og fátækum ölmusu. |
Est 9:23. | Og Gyðingar lögleiddu að gjöra það, er þeir höfðu upp byrjað og Mordekai hafði skrifað þeim. |
Mordekai skrásetur viðburðina og sendir bréf [þar sem þessir viðburðir eru væntanlega upp taldir] til allra Gyðinga um að halda hátíð, sem felst í að halda veislu og gefa ölmusu.
Síðan lesum við frásögn um tilkomu púrím-daganna
, eftir orðinu
púr
sem var hlutkesti með tveimur teningum, þar sem annar teningurinn
gaf jákvætt svar, en hinn neikvætt svar.
Est 9:24. | Með því að Haman Hamdatason Agagíti, fjandmaður allra Gyðinga, hafði hugsað það ráð upp gegn Gyðingum að eyða þeim og varpað púr, það er hlutkesti, til að afmá þá og eyða þeim, |
Est 9:25. | en konungur hafði fyrirskipað með bréfi, þá er Ester gekk fyrir hann, að hið vonda ráð, er hann hafði upphugsað gegn Gyðingum, skyldi honum sjálfum í koll koma og hann og synir hans skyldu festir á gálga, |
Est 9:26. | fyrir því voru þessir dagar kallaðir púrím, eftir orðinu púr. Þess vegna -- vegna allra orða þessa bréfs, bæði vegna þess, er þeir sjálfir höfðu séð, og hins, er þeir höfðu orðið fyrir -- |
Est 9:27. | gjörðu Gyðingar það að skyldu og lögleiddu það sem venju, er eigi mætti út af bregða, bæði fyrir sig og niðja sína og alla þá, er sameinuðust þeim, að halda þessa tvo daga helga árlega, samkvæmt fyrirskipuninni um þá og á hinum ákveðna tíma, |
Est 9:28. | og að þessara daga skyldi verða minnst og þeir helgir haldnir af hverri kynslóð og hverri ætt, í hverju skattlandi og í hverri borg, svo að þessir púrímdagar skyldu eigi líða undir lok meðal Gyðinga og minning þeirra aldrei í gleymsku falla hjá niðjum þeirra. |
Est 9:29. | Og Ester drottning, dóttir Abíhaíls, og Mordekai Gyðingur rituðu bréf og beittu þar öllu valdi sínu til þess að gjöra að lögum þetta annað bréf um púrím. |
Est 9:30. | Og hann sendi bréf til allra Gyðinga í skattlöndin hundrað tuttugu og sjö, um allt ríki Ahasverusar, friðar- og sannleiksorð, |
Est 9:31. | til þess að lögleiða þessa púrímdaga á hinum ákveðna tíma, eins og Mordekai Gyðingur og Ester drottning höfðu lögleitt þá fyrir þá, eins og þeir höfðu lögleitt ákvæðin um föstur og harmakvein, er þeim skyldi fylgja, fyrir sig og niðja sína. |
Est 9:32. | Og skipun Esterar gjörði púrímákvæði þessi að lögum, og var hún rituð í bók. |
Vegur Mordekai
10. kafli
Est 10:1. | Og Ahasverus konungur lagði skatt á landið og eyjar hafsins. |
Est 10:2. | En öll verk máttar hans og hreysti oglýsing á vegsemd Mordekai, þeirri er konungur hóf hann til, það er ritað í Árbókum Medíu- og Persíukonunga. |
Est 10:3. | Því að Mordekai Gyðingur gekk Ahasverusi konungi næstur að völdum og var mikils virtur meðal Gyðinga og vinsæll hjá hinum mörgu ættbræðrum sínum, með því að hann leitaði heillar þjóðar sinnar og lagði liðsyrði öllu kyni sínu. |
[Aths. 1]: Allur texti innan hornklofa er viðbót Böðvars.