Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

139. Davíðssálmur

Textinn lesinn úr Biblíunni.

1-6: Drottinn þú rannsakar og þekkir mig.

Sl. 139:1. Til söngstjórans. Davíðssálmur.
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
Sl. 139:2. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Sl. 139:3. Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Sl. 139:4. Því að eigi er það orð á tungu minni,
að þú Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Sl. 139:5. Þú umlykur mig á bak og brjóst,
og hönd þína hefir þú lagt á mig.
Sl. 139:6. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið,
of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Allt fyrsta erindið, v. 1-6, er skynjun og fullvissa hins synduga manns um að Guð viti allt um hann, allar hugrenningar hans og hvaða hvatir liggja bak við hvert orð sem hann segir. Hann finnur nærveru Guðs í hjarta sínu og handleiðslu hans í öllum hlutum.

7-18: Þakkargjörð fyrir handleiðslu Guðs.

Næsta erindi, v. 7-18, er þakkargjörð hins trúaða manns fyrir nærveru Guðs við allar aðstæður lífsins. En í því erindi er líka alvarlegur boðskapur til þeirra, sem vilja forðast Guð. "Hvert geta þeir flúið frá Guði?" Eins og hginn trúaði finur öryggi í því að vita umnærveru Drottins, eins finnur hinn vantrúaði öryggisleysi í vantrú sinni.

Sl. 139:7. Hvert get ég farið frá anda þínum
og hvert flúið frá augliti þínu?
Sl. 139:8. Þótt ég stigi upp í hinininn, þá ertu þar,
þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
Sl. 139:9. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
Sl. 139:10. einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.
Sl. 139:11. Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig
og ljóðsið í kringum mig verði nótt,"
Sl. 139:12. þá myndi myrkrið eigi verða þér of myrkt
og nóttin lýsa eins og dagur,
myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
Sl. 139:13. Því að þú hefir myndað nýru mín,
ofið mig í móðurlífi.
Sl. 139:14. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður,
undursamleg eru verk þín,
það veit ég næsta vel.
Sl. 139:15. Beinin í mér voru þér eigi hulin,
þegar ég var gjörður í leyni,
myndaður í djúpum jarðar.
Sl. 139:16. Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína,
áður en nkkur þeirra var til orðinn.
Sl. 139:17. En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð,
hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
Sl. 139:18. Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin,
eg mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

Ég las eitt sinn sana sögu um ungan mann af kristnu heimili, sem flúði af heimilinu, til þess að losna við Guð og áhrif hans og réð sig á millilandaskip. Hann var þar mjög einmana og leið mjög illa.

Á skipinu var vélstjóri, sem var hlédrægur en vinsamlegur. Pilturinn fór eitt sinn til hans, þegar honum leið mjög illa og spurði hann, hvernig hann gæti losnað undan áhrifum kristindómsins. Vélstjórinn hugsaði sig um og svaraði svo:

Það er aðeins ein leið til þess. Það er að lenda í helvíti.

Unga manninum brá við. Nú sá hann hvert stefndi. Hann spurði vélstjórann:

Hvað get ég gert?

Nú svaraði velstjórinn strax: Þú skalt gefast Jesú Kristi, sem elskar þig og dó fyrir þig.

Þeir áttu saman bænastund og ungi hásetinn frelsaðist.

Hann fór heim til sín nokkru seinna og komst þá að raun um, að þennan dag, sem hann tók á móti Jesú sem frelsara sínum, hafði verið bænastund á heimilinu sem hann flýði frá, þar sem beðið var í einlægni fyrir frelsun hans.

Þetta gæti verið svar við spurningu sálmsins: Hvert get ég farið frá anda þínum?

Lofgjörðin, sem hefst með 13. versi: Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig frá móðurlífi, lýsir fyrirhugun Guðs í myndun efnisins, sem myndar líkama mannsins strax í móðurlífi. Yfirskriftin yfir þeim hugleiðingum er í 14. v.: Églofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður. Undir þetta taka allir menntaðir, kristnir menn í dag.

Margar hugsanir Guðs eru okkur torskildar ekki síður en sálmaskáldinu, sjá versin 17-18.

19-22: Hefndin er Guðs.

Sl. 139:19. Ó að þú Guð vildir fella níðingana
Morðingjar! Víkið frá mér.
Sl. 139:20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum
og leggja nafn þitt við hégóma.
Sl. 139:21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá er hata þig,
og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
Sl. 139:22 Ég hata þá fullu hatri,
þeir eru orðnir óvinir mínir.

Næstsíðasta erindið er bæn um útrýmingu níðinga og morðingja, -- að Guð sjái um það. Það er í samræmi við 3. Mós. 19:18, og Róm. 12:19.

Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda."
  [Aths. 1]

23-24: "Prófa mig, Guð".

Sl. 139:23. Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,
rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
Sl. 139:24. og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi,
leið mig hinn eilífa veg.

Síðasta erindið, v. 23-24 er bæn trúaðs manns, sem við ættum að biðja oft fyrir okkur sjálfum: Prófa mig, Guð ogþekktu hjarta mitt, rannsaka mig og sjá þú, hvort ég geng áglötunarvegi og leið mig hinn eilífa veg.

[Aths. 1]
Hér má sjá að dýpra er skoðað en til þeirra sem eru óvinir Davíðs og hann veit að eru níðingar og morðingjar. Við eigum ekki að hata menn heldur syndina. Syndin er hér, eins og svo oft, persónugerð. Það er hún sem rís gegn Guði. (Böðvar Björgvinsson).

Til baka í texta.