Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

Rómverjabréfið

1. lestur: 1:1-7
Inngangur og kveðja.

FORMÁLI BIBLÍUSKÝRANDA

Ég, Björgvin Jörgensson, sem skrifa þessar skýringar, er ekki prestur né guðfræðingur, heldur leikmaður, kennari. Ég ætla þó að reyna að skýra þetta fræðilegasta bréf Biblíunnar með hjálp fræðibóka eftir lifandi trúaða fræðimenn, sem ég hefi aðgang að til lestrar.

Það er bæn mín og von, að þessar skýringar verði til þess að varpa ljósi yfir þetta torskilda rit fyrir hinn almenna, kristna mann, svo að hann njóti þessa stórkostlega bréfs til andlegrar uppbyggingar og trúarstyrkingar.

Ég mun einnig leitast við að skýra þau fræðilegu orð, sem fyrir koma.

Fyrir heilagan anda veitir Drottinn öllum lifandi trúuðum einstaklingum innsæi í Guðs orð að vissu marki, sem auðveldlega má glæða með upplýsingum þeirra manna sem sérmenntaðir eru og eiga lifandi trú og hafa samið skýringar á ritum biblíunnar. Sjálfur hef ég mikla þörf fyrir að reyna að skilja betur og tileinka mér betur þann fróðleik og það innsæi, sem þetta bréf Páls postula veitir. En Páll postuli var með lærðustu mönnum meðal Ísraelsmanna. Hann var um tíma róttækasti andstæðingur kristinna manna og ofsækjandi.

Afturhvarfsaga hans er rituð í Postulasögunni 9. kap. og einnig í 22. kap., þar sem hann segir sjálfur afturhvarfssögu sína.

Ég byrja nú á því að kynna bréfið með þýðingu á kynningarorðum yfir Rómverjabréfið, sem skráð er í norskri biblíuorðabók: ILLUSTRERT NORSK BIBELLEKSEKON: BIBELEN.

Tilvitnun í sérritið Bibelen skrái ég með B. og blaðsíðutali í þeirri bók, en þegar ég vitna í sjálfa biblíuorðabókina, merki ég það með (Leks. A. og blaðsíðutali). Þessi biblíuorðabók var fyrst gefin út árið 1965 í Osló íNoregi.

Hér er þýðing mín á kynningunni á þessu bréfi:

Bréf Páls til Rómverja

Með bréfi Páls til Rómverja hefst þriðji hluti Nýjatestamentisins, -- bréfin, sem oft nefndust áður fyrr "pistlarnir". Ástæðan fyrir því að þetta bréf er sett fyrst allra bréfanna, stafar ekki af því að það hafi verið skrifað fyrst allra bréfanna, heldur af því að litið var á þaðsem mikilvægaasta bréfið.

Samkvæmt tímaröð er Rómverjabréfið sjötta bréfið í Nt. sem Páll skrifaði. Það er áhugavert, þegar þetta bréf er lesið, að kynnast því, hver er sendandinn, dvalarstaður hans, hvenær bréfið er ritað, hver er ástæðan fyrir bréfaskriftunum og innihald bréfsins. Sama gildir um öll hin bréfin.

Höfundur bréfsins kynnir sig: Það er postulinn Páll. Samkvæmt siðum þess tíma, kynnir hann sig í upphafi bréfsins, -- að hann hafi fengið guðlega köllun:
Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs. (Róm.1:1)

Eftir stutta skýringu á því hvað sé fólgið í fagnaðarerindinum, heldur hann áfram:

Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. (Róm. 1;7)

Hvergi er þess getið í Nt. hvenær söfnuðurinn í Róm var myndaður og ekki heldur í öðrum heimildum. Rómverski sagnaritarinn Suetonius (ca. 120 e.Kr.) segir í ævisögu sinni um Klaudius keisara, að hann hafi rekið Gyðinga úr Róm (sbr. Post. 18:5), af því að þeir hafi alltaf vakið óróa, með tilvísun til einhvers Chrestusar. Það er greinilegt að þar er átt við Jesú Krist.

Samkvæmt verki Orosiusar Adversus Paganos, gerðist þetta árið 49 e. Kr. Samkvæmt bréfi frá Ágústínusi kirkjuföður hefur kristindómurinn komist til Rómar í stjórnartíð Kaligúla keisara (37-41). Annars eru miklir möguleikar fyrir því, að hann hafi borist þangað ennþá fyrr, þ.e. með rómverskum ferðamönnum sem voru Gyðingar og mönnum, sem voru hlynntir trú Gyðinga, sem voru í Jerúsalem hinn fyrsta hvítasunnudag. (Post. 2:10).

Það er mjög líklegt, að einhverjir þeirra hafi verið meðal þeirra þriggja þúsunda, sem þennan dag tóku við fagnaðarerindinu og voru skírðir, hafi flutt fagnaðarerindið með sér til heimabyggðar sinnar. Auk þess voru mikil tengsl á milli stærstu borganna, austurhluta Rómarveldis og höfuðborgarinnar. Margir kristnir menn frá hinum nýju söfnuðum í austri hafa sjálfsagt ferðast til Rómar og flutt eð sér trú sína og þörf fyrir samfélag við trú sína.

Fyrst um sinn hafa hinir kristnu sennilga safnast í smáhópa, og líklegt er, að jafnvel þegar Rómverjabréfið er skrifað, hafi ekki verið þar skipulegur söfnuður, heldur ýmiss konar hússöfnuðir (sbr. Róm.16:5; 14:15.). Ávarpið gæti líka bent til þess, þar sem það er ekki stílað til neins safnaðar, eins og gert er í mörgum öðrum bréfum. (Sjá 1. og 2. Kor; Gal. 1. og 2. Þess.).

Arfsögnin, að Pétur postuli einn eða með Páli hafi verið stofnendur rómverska safnaðarins, stenst ekki. Viðvíkjandi hinu síðarnefnda kemur þetta greinilega fram í þessu bréfi, enda mundi Páll ekki skrifa eins og hann gerði, ef Pétur hefði stofnað söfnuðinn. Auk þess stríðir þessi kenning gegn þeim tímamörkum, sem við höfum viðvíkjandi Pétri. Hér hlýtur því að vera rangfærsla á miklu sennilegri erfikenningu um, að báðir postularnir hafi liðið píslarvættisdauða í Rómarborg eftir stuttan starfstíma í "alheimshöfuðborginni".

Viðvíkjandi spurningunni um hvenær og hvar bréfið er skrifað, er það almennt viðurkennt, að Rómverjabréfið sé skrifað af Páli í þriggja mánaða dvöl hans í Korintu, í þriðju kristniboðsferð hans, nokkru áður en hann fór til Jerúsalem með samskotin til hinna nauðstöddu (sjá 15:25), sennilega árið 57 eða 58.

Bréfið hefur verið sent með Föbe, safnaðarsystur (díakonissu) í Kenkreu, hafnarborg í Austur-Korintu. Ástæður fyrir skrifum Páls skýrast að nokkru leyti af því sem Páll skrifar í 15. kapítula bréfsins, að hann á ekki neitt lengur ógert á þessum slóðum, þ.e, að hann telur sig ekki hafa lokið verkefni sínu í austurhluta Rómarveldis. (23.v.) Nú hyggst hann geta snúið sér að Vestrinu, nánar tiltekið -- farið til Spánar. Þar var líka ósnortinn kristniboðsakur til að starfa á í samræmi við starfsreglu postulans, að vera ekki að boða Krist, þar sem hann hafði áður verið nefndur, til þess að byggja ekki á grundvelli annarra. (Róm. 15:20b). En fyrst ætlar hann að ljúka hinni lengi þráðu heimsókn til Rómar, að eiga samfélag við hina trúuðu þar. (Sjá Róm. 1:11-12.)

Tilgangurinn er líka að ná sambandi við söfnuð heimsborgarinnar sem stjórnfræðilegan miðdepil fyrir kristniboð Vesturlandanna. Það var líka í stíl við starfshætti postlans, að starfa út frá stóru borgunum.

Hann vonar líka, að hann fái einhvern af bræðrunum í Róm til þess að vera með sér á nýjum kristniboðsakri. (Róm. 15:24)

Þar sem hann hafði ekki verið í Róm og er ókunnugur söfnuðinum þar, finnst honum nauðsynlegt að kynna sig nánar (sbr, inngangsorðin, v.1-7) -- ekki bara sjálfan sig, heldur líka fagnaðarerindið, sem hann var að boða. Það gerir hann líka mjög vandlega og yfirgripsmikið, þar sem hann gerir grein fyrir höfuðdráttum kenninga sinna með réttlætingu af trú sem grundvallaratriði. Lykilvers bréfsins finnum við í Róm. 1: 16-17.

Fyrst kemur hin dökka lýsing á á bakgrunninum, þar sem því er slegið föstu, að syndin sé alþjóðleg -- bæði Gyðingar og Grikkir og heiðingjar séu syndarar fyrir Guði og þar með undir reiði hans. Enginn sé fær um að koma sér undan þessu ásigkomulagi og gera sig verðugan velþóknunar Guðs og samfélags -- af eigin verkum. Enginn maður getur réttlætt sig fyrir Guði.

En nú hefur réttlæti Guðs verið opinberað utan við lögmálið -- utan við eigin lögmálsþjónkun mannsins. Réttlæting Guðs er gjöf, sem fæst fyrir trú á Jesú Krist. Jafnvel Abraham, forfaðir Gyðinganna réttlættist ekki af verkum, heldur fyrir trú. Þess vegna er hann líka orðinn faðir allra trúaðra. Réttlætt af trúnni höfum við hlotið algera og fullkomna frelsun með friði og von um dýrð Guðs. Eins og allir menn verða syndarar fyrir óhlýðni hins fyrsta Adams, eins verða nú allir réttlættir í hlýðni við Krist, sem er hinn annar Adam. Þótt syndin sé mikil, er náðin meiri.

Síðan víkur Páll frá því að tala um réttlætinguna, yfir í að lýsa helguninni.

Náð Guðs gefur okkur ekki frelsi til að syndga, því að í skírninni til dauða Krists erum við sjálf dauð frá syndinni og höfum hlotið kraft til að hefja nýtt líf -- nýja lifnaðarhætti. Við erum fyrst leyst frá lögmálinu sem -- þótt það sé í sjálfu sér gott -- vekur syndatilhneygingu. Lögmál anda lífsins hefur nú í Kristi Jesú frelsað okkur frá lögmáli syndarinnar til þess að kröfu lögmáslsins skyldi verða fullnægt í okkur. Við þurfum því að deyða verk holdsins með andanum og láta leiðast af þeim anda, sem vitnar um barnarétt okkar hjá Guði.

Þótt við þurfum enn að að þjást, eru það smámunir í samanburði við þá dýrð, sem á okkur mun opinberast. Samt byggjum við ekki sáluhjálparvon okkar á siðferðilegu starfi andans í lífi okkar, heldur á útvalningu Guðs, köllun og réttlætingu, svo að við getum sagt fagnandi: Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Ekkert getur skilið oss frá kærleika Guðs í Jesú Kristi, Drottni vorum.

Eftir að Páll er búinn að fullmóta kenningu sína um réttlætinguna og helgunina, fer hann að ræða um stöðu Ísraelsþjóðarinnar. Hann tjáir dýpstu sorg sína yfir, að Ísrael hefur hafnað leið trúarinnar til réttlætingarinnar Kristi, en það hefur leitt til þess að Guð hefur hafnað þeim. Menn gætu því haldið að Guðs orð hafi brugðist.

En Ísrael er ekki aðeins menn, sem eru af ætt Ísraels. Guð, sem er yfir allt og alla hafinn bæði í dómi sínum og náð, hefur útvalið sér nýtt, andlegt Ísrael af heiðing-kristnu fólki og trúuðum leifum af sínu upphaflega guðsfólki. Og að lokum skulu hinir -- fyrir frelsun heiðingjanna -- einnig frelsast, því að Guð iðrast ekki náðargjafa sinna.

Hinir heiðing-kristnu í Róm mega því ekki hreykja sér upp yfir hinum Gyðing-kristnu, heldur minnast þess, að þeir sem eru hinn villti olívuviður, hafa verið græddir inn á hið góða Olíutré.

Eftir þennan fræðandi aðalhluta byrjar postulinn á hvetjandi aðalhluta, þar sem hann útfærir kenningu sína yfir í hversdagslíf hinna trúuðu.

Kristindómurinn er Páli hvorki skynsemis- né skilningsatriði kennisetninga, heldur raunhæft, nýtt líf í framkvæmd.

Þetta mun birtast -- og birtist líka -- í því, að einstaklingurinn með líkama og sál hefur gefið líf sitt Guði sem þakkarfórn, að hann elskar náunga sinn (og óvin sinn) og lifir í hlýðni við yfirvöldin.

Til þess þurfa þeir að finna sig sterka, þegar um er að ræða viss vafaatriði (fyrir hina heiðing-kristnu) út af mat og drykk, taki þeir að sér hina trúarveiku (hina gyðing-kristnu), og auk þess þurfa allir í söfnuðinum, bæði Gyðingar og ekki Gyðingar að annast um hvert annað og leggja kapp á samstöðu.

Því næst biður postulinn næstum afsökunar á því, að hann hafi skrifað full djarflega, skýrir frá ferðaáætlun sinni og felur sig söfnuðinum í fyrirbæn.

Margir útskýrendur halda því fram, að friðarkveðjan sem 15. kap. endar á, sé einnig endalok bréfsins og að 16.kap. eigi ekki heima í bréfinu. Því til stuðnings benda þeir á kveðjurnar til Prisku og Akvílasar (3.v.) til Epenætusar, sem kallaður er frumgróði Kristi til handa (5.v.) og auk þess margar aðrar kveðjur, alls til 24 manna. Og að lokum er aðvörun um falskennendurna. (V.17-20).

Þeir hafa hugsað sér að Föbe, bréfberinn, hafi farið til Rómar um Efesus og hafi þar afhent bréf til safnaðarins, sem hafi verið 16. kapítulinn. Í afskrift af 15. kapítula Rómverjabréfsins, hafi stutta Efesusbréfinu verið bætt við.

Í fornkirkjunni var þó enginn, sem mælti gegn því að 16. kapítulinn væri hluti Rómverjabréfsins, að undanteknum villukennandanum Markíon, sem af trúarlegum ástæðum strikaði líka út 15. kapítulann. Það er ekkert skrýtið að Páll skuli senda kveðju til samstarfsmanna Prisku og Akvílasar. Þau störfuðu með honum í Efesus, þegar hann var þar síðast, en gátu nú verið aftur komin til Rómar, en þaðan höfðu þau verið rekin í stjórnartíð Kládíusar keisara (Post. 18:2).

Epænetus hefur sennilega tilheyrt hússöfnuðum þeirra í Róm og fylgt þeim þaðan til Efesus. Það að Páll sendir svona margar kveðjur sínar, bendir einmitt til þess, að þeir hafi verið úr Rómar-söfnuðinum. Í bréfum til þeirra safnaða, sem hann hafði sjálfur stofnað, sendi hann ekki kveðjur til einstakra safnaðarmeðlima, til þess að gera ekki upp á milli manna. Mörg af nöfnunum í 16. kap. hafa síðan fundist á persónum við hirð keisarans. (Sbr, Filipp. 4:22.)

Þar sem samböndin voru svo greið milli austurs og vesturs, er ekki ósennilegt, að Páll hafi eftir margra ára kristniboðsstarf komist í samband við 24 menn -- einn hér og annan þar. (Kaupmaður í Híerapólis í Frígíu hafði samkvæmt grafskrift farið 72 sinnum til Ítalíu.)

Það er óþarfi að líta á versin 16:17-20 sem aðskotahlut í Rómverjabréfinu. Það gætu hafa verið vissar uppákomur og persónur í söfnuðinum, sem postulinn hafði heyrt um, sem hann var að vara við. Það gæti verið að júdaistarnir hafi verið að láta þarna á sér bera, þessir, sem allsstaðar reyndu að berjast gegn lögmálslausu fagnaðarerindi (sbr. kynningu í Galatabréfinu).

Rómverjabréfið hefur verið veigamest í hinni kristnu kirkju á öllum tímum. Það var einmitt uppgötvunin eða endurfundurinn á kenningunni um réttlætinguna af trúnni einni saman, sem knúði fram siðbót Lúthers og andagift siðbótar allra mótmælenda.

Rómverjabréfið hefur verið álitið veigamesta kennslurit Nýja testamentisins. Eins og í öllum öðrum bréfum leitaði Páll einnig í Rómverjabréfinu stuðnings fyrir kenningu sína í rit Gamla testamentisins. Það eru minnst 70 tilvitnanir í Gt. í þessu bréfi, -- fleiri en í öllum hans bréfunum til samans.

Sanngildi Rómverjabréfsins er staðfest af Klemens frá Róm, Ignatíusi, Markíon og helgiritum Maratoríusar og gömlum latneskum og sýrlenskum þýðingum.

(2.Leks. B. bls. 63-64. Þýð. B.J.)

Kveðja.
1:1-7.

Rm 1:1. Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula,[Orðskýring 1] kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs,

Páll merkir hinn litli, en hebreska nafn hans var Sál.

Eftir að Sál komst til lifandi trúar og fór að prédika, notaði hann þetta rómverska nafn, sem hann hefur líklega hlotið sem rómverskur borgari, en þann rétt hafði Sál eða Páll allt frá fæðingu, þar sem faðir hans, sem var verslunarmaður, mun hafa keypt eða fengið þennan rómverska borgararétt fyrir fæðingu Páls.

Hann leit nú ekki stórt á sig, eins og sjá má á þessu fyrsta versi: Þjónn Jesú Krists. Í frumtextanum stendur reyndar þræll Jesú Krists. og sýnir það vel lítillæti Páls. Nú á Jesús hann með öllum rétti og má gera við hann hvað sem honum þóknast.

Þetta er sama hugarfar og hjá Maríu, móður Jesú, þegar hún svaraði englinum, sem boðaði fæðingu Jesú:

Sjá, ég er ambátt Drottins. (Lúk. 1:38).
Orðið Jesús er sömu merkingar og Jósúa og merkir Guð frelsar eða frelsari.

Orðið Kristur er grísk þýðing á á orðinu Messías og merkir Hinn smurði. En Ísraelsmenn smurðu með viðhafnarolíum konunga sína til konungstignarinnar; einnig æðsta prestinn og spámenn sína til embætta.

Páll leggur því hér áherslu á, að Jesús hafi verið smurður af Guði til þessara embætta í guðsríki, þegar María í Betaníu smurði hann með nardussmyrslum nokkru fyrir pínu hans og dauða.

Kallaður til postula. Hvað merkir það? Það sjáum við í upphafi Galatabréfsins:

Páll postuli -- ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Krists og Guðs föður.
Í Postulasögunni sjáum við að Jesús sjálfur kallaði hann til trúar og starfs, (sjá Post. 9. kap.).

Postuli merkir sendiboði Guðs, sem starfar sjálfstætt að boði Jesú sjálfs að boðun fagnaðarerindisins, án þess að vera kostaður af neinum söfnuði. Kristniboði er líka kallaður af Guði, en er styrktur eða kostaður til starfs af söfnuði eða kirkju.

[Kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs. Það er ekki bara eitthvert fagnaðarerindi, einhver gleðitíðindi, sem Páll er kallaður til að boða, heldur fagnaðarerindi Guðs sjálfs. Sem sagt: allur boðskapur Páls er frá Guði.
BB]

[...kallaður til postula... Í raun stendur hér á frummálinu: ...kallaður postuli... með áhersluna á orðið kallaður, þ.e. Páll er postuli, ekki að eigin vali eða ósk, heldur af köllun. Þetta undirstrikar enn meir en kemur fram í íslensku þýðingunni áhersluna sem Páll leggur á köllun sína.
BB.]
Til baka í texta.

[Kjörinn til að boða fagnaðarendið. Í frumtextanum standa ekki orðin að boða. Páll er ekki bara kallaður til að boða fagnaðarerindið, heldur er hann útvalinn eða skilinn út til fagnaðarerindisin, rétt eins og hann var áður útskilinn til að vera farísei -- sem þýðir útskilinn -- þ.e.a.s. hann er kjörinn til þess að vera í því og lifa í því og fyrir það. Allt sem hann aflar með iðn sinni, tjald- eða seglasaumnum (Sjá Post. 18:3), [Aths. 1.] fer til þessa málefnis.
BB]

Rm 1:2. sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum,

[Fagnaðererindið hefur áður verið undirbúið og tilkynnt um það öldum saman af spámönnum Guðs í helgum ritningum, þ.e. í því sem við þekkjum nú á tímum sem Gamla testamentið. Þetta sjáum við allt frá syndafallssögunni (1. Mós. 1:3:15), þar sem fyrirheitið er enn mjög óljóst um að sæði konunnar muni merja höfuð höggormsins. Uppfylling þessa sjáum við á páskadag. Mjög mikið af þeim lexíum, þ.e. lestrum úr Gamla testamentinu, sem lesnar eru í kirkjum landsins í Guðsþjónustum og messum, eru einmitt þessi fyrirheit.

Með spámönnunum er ekki bara átt við það sem við flokkum venjulega sem spámenn, þ.e.a.s. Jesaja, Jeremía, Esekíel og minni spámennina svokölluðu. Nýja testamentið kallar t.d. Móse spámann og Gyðingar flokkuðu rit eins og Samúels- og Konungabækurnar undir spámannleg rit. BB.]

Rm 1:3. fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs,
Rm 1:4. en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.

Hér leggur Páll áherslu á, að Jesús sé bæði sannur maður, þ.e. fæddur af konu að holdinu til af kyni Davíðs konungs -- eins og spáð hafði verið, -- og samtímis sonur Guðs. Sönnun fyrir því er upprisa Jesú, sem sannar líka sigur hans yfir Satan, syndinni og dauðanum. Hann er því bæði Guð og maður -- samtímis.

[Orðalagið í frumtextanum er mjög sérstakt og leggur enn á ný sérstakar áherslur. Áherslan í 4.v. er á að upprisan beini kastljósinu að því að Jesús hafi -- vegna upprisunnar -- tekið við fullu veldi sínu. Hann er:

...að anda heilagleikans (þ.e. fyrir Heilagan Anda) auglýstur að vera -- fyrir upprisu[na] frá dauðum -- Sonur Guðs í [fullu] veldi.
Þetta þýðir í raun að fyrir upprisuna hefur Jesús verið settur á hinn æðsta valdastól.
BB.]
Rm 1:5. Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans.
Rm 1:6. Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar.

Náð -- og að öðlast náð, það er, að sá sem er sekur, hlýtur fyrirgefningu eða sýknun, sem hann á alls ekki skiliðað fá. Sá sem er sýknaður í okkar þjóðfélagi, hefur hlotið uppgjöf saka. Hann er þá ekki lengur sekur fyrir lands lögum, og sá sem hefur hlotið náð Guðs, er ekki lengur sekur frammi fyrir Guði. Hann hefur hlotið fyrirgefningu, hann er náðaður. Slíka náð hlýtur hver sá sem gefst Jesú Kristi og tekur við honum sem persónulegum frelsara sínum.

Páll segist einnig hafa fengið postuladóm frá Jesú. Hann kemur því til þeirra í umboði Drottins Jesú, sem umboðsmaður hans, en ekki í mannlegum mætti. Það er því ekki kenning postulans um Jesú, sem hann flytur, heldur kenning Jesú sjálfs um sjálfan sig og frelsisverk sitt fyrir munn postulans.

Rm 1:7. Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fyrst í 7. versinu heilsar Páll söfnuðinum, eftir að hafa kynnt sig og verkefni sitt. Kveðja hans er: "Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Sá sem hefur hlotið náð Drottins í Jesú Kristi og fyrirgefningu, hlýtur líka frið hans, þegar hann fulltreystir því, að Guð hafi tekið við honum í Jesú Kristi, fyllir friðurinn hjarta hans. Það er friður sem er æðri öllum skilningi, (sbr. Filipp. 4:7).

Aths. 1.
Líkur benda til þess að faðir páls hafi verið kaupmaður og verslað m.a. með segldúka, sem kallaðir voru cilicium, eða Kilikíudúkar. Það er því ekki ósennilegt að Páll hafi lært iðn sína í tengslum við verlsun föður síns.
[BB.]
Til baka í texta.


Til baka í yfirlit.