BIBLÍUSKÝRINGAR
Rómverjabréfið
6. lestur: 6-8. kapítuli
Nýja lífið
Skírðir til nýs lífs
6:1-14
Rm. 6:1. | Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist? |
Rm. 6:2. | Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni? |
Rm. 6:3. | Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans? |
Rm. 6:4. | Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins. |
Hér notar Páll hina róttækustu samlíkingu á þeirri byltingu, sem fólgin er í því að frelsast fyrir trú á Jesú Krist. Hinn frelsaði maður er í raun og veru nýr maður. Fyrra líf hans, þ.e. það líf sem hann lifði fyrir frelsunina, var í raun dauði sem nú hefur verið greftraður, til þess að maðurinn lifi nýju lífi með og í Kristi Jesú.
Það kemur í ljós í 6. versinu, að þetta er ekki sársaukalaust fyrir einstaklinginn.
Rm. 6:5. | Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans. |
Rm. 6:6. | Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni. |
Rm. 6:7. | Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni. |
Páll útilokar ekki, að hinn frelsaði maður geti fallið fyrir freistingum og fallið þar með í synd, en hann á ekki að geta þjónað syndinni sem lifandi trúaður maður -- lifað til lengdar í synd. Trúaður, kristinn maður á vakandi samvisku, sem lætur hann ekki í friði í syndinni. Hlýði maðurinn ekki samvisku sinni, er hætt við að hann falli frá trúnni. Heilbrigð samviska er oft talin vera rödd Guðs í hjarta mannsins.
En samviskusemin getur líka orðið sjúkleg. Það er samviskusemi sem getur valdið öðrum skaða, sérstaklega andlegum skaða. Það á kristinn maður að forðast. Trúaður maður þráir að lifa sem nánast í samfélaginu við Jesú Krist.
Rm. 6:8. | Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa. |
Hér er átt við daglegt líf -- að lifa með Jesú hvern dag. Sá maður sem lifir þannig með honum, er alltaf meira og minna með hugann hjá Jesú. Jesús er mælikvarði hans í öllu daglegu lífi.
Rm. 6:9. | Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. |
Rm. 6:10. | Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði. |
Rm. 6:11. | Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú. |
Trúarlífið er líka barátta við syndugt mannseðli, sem býr í hinum
náttúrlega manni
í okkur. Á það bendir Páll í næstu þremur versum:
Rm. 6:12. | Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans. |
Rm. 6:13. | Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn. |
Þær girndir sem hér er átt við eru ríkjandi girndir til syndar. Það gæti verið fjárgirnd, þ.e. auðsöfnum, ágirnd, hefnigirnd. Um kynferðislegar girndir gildir hið sama. Þær mega ekki heldur vera okkur að ranglætisvopnum, þ. e. ekki að misnota þær okkur né öðrum til skaða og láta þær ekki drottna yfir okkur, heldur að keppa eftir að drottna yfir þeim.
Rm. 6:14. | Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð. |
Rm. 6:15. | Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því. |
Þessu er rækilega svarað í næsta versi:
Rm. 6:16. | Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis? |
Við sem erum kristin, viljum vera þjónar til réttlætis, þjónar Jesú Krists, eftir að við höfum gefist Jesú.
Rm. 6:17. | En þökk sé Guði! Þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri kenningu, sem þér voruð á vald gefnir. |
Rm. 6:18. | Og þér gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni. |
Rm. 6:19. | Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar. |
Rm. 6:20. | Þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið. |
Rm. 6:21. | Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir, því að þeir leiða að lokum til dauða. |
Í 22. versinu er sagt hvað það er að komast til trúar:
Rm. 6:22. | En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum. |
Niðurstaðar er svo birt í síðasta versinu í þessum þætti:
Rm. 6:23. | Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum. |
Dánir lögmálinu
7:1-6
Rm. 7:1. | Vitið þér ekki, bræður, - ég er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, -- að lögmálið drottnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir. |
Rm. 7:2. | Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn. |
Rm. 7:3. | Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns. |
Hér notar Páll hin viðurkenndu lög Gyðinganna um hjónabandið og skyldur konunnar gagnvart Guði og mönnum sem eign eiginmannsins, til þess að sýna skiljanlega hliðstæðu við andstæðuna milli þess að vera undir lögmáli til dauða annars vegar og að vera undir náð til lífs hins vegar. Þetta sjónarmið viðvíkjandi stöðu konunnar var viðurkennt hjá öllum Gyðingum. Þetta óumdeilanlega sjónarmið samtíðarmanna sinna notar Páll til að skýra hvað það felur í sér gagnvart lögmálinu að gefast Jesú.
Rm. 7:4. | Eins er um yður, bræður mínir. Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að verða öðrum gefnir, honum sem var upp vakinn frá dauðum, svo að vér mættum bera Guði ávöxt. |
Á sama hátt og konan var laus undan hjónabandsskyldu lögmálsins, þegar maður hennar dó og mátti giftast öðrum -- eins var sá maður laus undan lögmálinu og bölvun lögmálsins eftir að hafa gefist honum og að hafa verið helgaður Jesú Kristi í heilagri skírn.
Þetta má segja með öðrum orðum: Sá sem er helgaður Jesú Kristi í skírninni og með vaxandi þroska helgar honum líf sitt og gefst honum t. d. sem andlega þroskaður unglingur, -- hann er laus undan lögmálinu á sama hátt og kona er laus undan hjónabandsskyldum gagnvart eiginmanni sem dáinn er og hefur fullan rétt til að verða kona annars manns.
Lögmálið var aldrei ætlað til að frelsa manninn, heldur til að sýna honum sekt sína gagnvart Guði, -- en ekki til frelsunar. Á það bendir Páll í næsta versi:
Rm. 7:5. | Þegar vér lifðum að holdsins hætti, störfuðu ástríður syndanna, sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt. |
Rm. 7:6. | En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs [Orðskýring 1]. |
Orðskýring 1: Bókstafur þýðir hér lögmálið,
þ. e. lögmál Móse. Það var almennt á tímum Páls að kalla lögmálið
bókstaf.
[BBJ]
Tilbaka í texta.
Lögmálsþrælkunin leiðir aldrei til lífs með Guði, heldur til andlegs dauða, en lífið með Guði leiðir til þess að hinn trúaði þráir að breyta eftir Guðs vilja og reynir það eftir megni.
[6. versið er lausnarorð fyrir þann sem hefur verið að þræla undir lögmálinu:
Þar sem við erum dáin lögmálinu, þurfum við ekki lengur að þjóna því. Það er
það sama og að þjóna í fyrnsku bókstafs
, þ. e. í þjónkun við
lögmálið. Þjónum
heldur í nýjungunni, sem felst í hinu nýja lífi, sem gefið er fyrir Heilagan
anda, sem Guð endurnýjar í okkur dag hvern. -- BBJ]
Lögmálið og syndin
7:7-24
Rm. 7:7. | Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: "Þú skalt ekki girnast." |
Rm. 7:8. | En syndin sætti lagi og vakti í mér alls kyns girnd með boðorðinu. Án lögmáls er syndin dauð. |
Rm. 7:9. | Ég lifði einu sinni án lögmáls, en er boðorðið kom lifnaði syndin við, |
Rm. 7:10. | en ég dó. Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér vera til dauða. |
Rm. 7:11. | Því að syndin sætti lagi, dró mig á tálar með boðorðinu og deyddi mig með því. |
Boðorðið leiddi ekki til eðlilegs kærleikssamfélags við Guð, heldur til andlegs niðurbrots, -- andlegs dauða. En það veitti vitneskju um hvað er synd og upplýsingar um heilagleika Guðs.
Boðorðin tíu eru hinn sígildi hluti lögmálsins ásamt kærleiksboðorðinu.
Þau segja: Elska skaltu
, eða þú skalt!
Tvö síðustu boðorðin
segja einmitt: Þú skalt ekki girnast.
Í þessum boðorðum kemur í ljós,
að þar er átt við eigingirnina og drottnunargirnina í tengslum við
kynferðislega [Aths 1]girnd:
Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þjón, þernu
(ambátt) o.s. frv.
Rm. 7:12. | Þannig er þá lögmálið heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott. |
Hér er Páll að skýra megintilgang og niðurstöðu lögmálsins og boðorðanna gagnvart hinum náttúrlega manni og að hinn frelsaði maður hefur ekki losnað við sitt náttúrlega manneðli.
Rm. 7:13. | Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Nei, það var syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Þannig skyldi syndin verða yfir sig syndug fyrir boðorðið. |
Hér hefur Páll gert grein fyrir neikvæðu boðorðunum sem segja: Þú skalt ekki. Nú fer Páll að lýsa baráttu og falli hins náttúrlega manns með syndugu eðli, sem maðurinn stríðir við, þrátt fyrir það að hann hafi hlotið einnig guðlegt eðli í skírn og helgun. og tekur sjálfan sig sem dæmi:
Rm. 7:14. | Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina. |
Rm. 7:15. | Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég. |
Rm. 7:16. | En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott. |
Rm. 7:17. | En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr. |
Hér játar Páll, að í honum búi syndugt mannseðli, sem dæmir hann sem trúaðan mann og honum líður illa yfir. Út frá því sér hann jákvæða hlið lögmálsins:
Rm. 7:18. | Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. |
Rm. 7:19. | Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. |
Rm. 7:20. | En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr. |
Með orðunum Í holdi mínu á Páll við hið mannlega, synduga eðli, sem allir menn hafa, líka hinir trúuðu.
En trúaðir og vandaðir menn berjast gegn því að framkvæma það illa, sem
býr í holdinu -- í syndugum hugarfylgsnum. Það kallast hér baráttan
milli holdsins og andans
, sem Páll er hér að lýsa. Hér lýsir hann
einmitt baráttunni sem býr í hjarta hans gagnvart ýmsum freistingum í
hugsunum og jafnvel í tali, en segir ekkert hér um niðurstöðuna um
baráttuna við syndaeðlið. Þessa baráttu þekkjum við sálfsagt öll sömul.
Rm. 7:21. | Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. |
Rm. 7:22. | Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, |
Rm. 7:23. | en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum. |
Á þessu sjáum við hve sjálfsgagnrýninn Páll var. Hann hafði djörfung til að játa, að auk hins guðlega eðlis byggi í honum syndugt, mannlegt eðli.
Gætum þess að falla ekki í þá gryfju að halda -- og halda því fram, að frelsaður maður sé hættur að syndga í huga og hjarta og geti þannig orðið al-heilagur, sem er auðvitað það sem við í hjarta okkar keppum að.
Ýmsir hafa hneykslast á þessari játningu Páls, því að til eru menn innan safnaðar, sem halda því fram, að frelsaður maður geti algerlega hætt að syndga og þeir séu hættir að syndga. Fyrir mörgum árum heyrði ég forstöðumann hvítasunnusafnaðar halda því fram, að helgaður maður sé alveg hættur að syndga og leit hann því niður á Pál postula fyrir játningu sína í þessum kapítula. Samkvæmt þeirri fullyrðingu var Páll ekki nógu kristinn.
En hér sáum við hvað Páll er sannur, kristinn maður og hreinskilinn. Þannig á kristinn maður að vera.
Rm. 7:24. | Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama? |
Jesús er frelsari syndara. Með þeirri trúarfullvissu lýkur Páll þessari játninu sinni með lofgjörð:
Rm. 7:25. | Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu. |
Þetta er hlutskipti allra kristinna manna, því enginn maður lifir algerlega syndlausu lífi eða vanræki ekki eitt hvaðsem hann hefði átt að gera sem kristinn maður, -- hversu helgaður sem hann er.
Lífið í andanum
8:1-17
Rm. 8:1. | Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú. |
Rm. 8:2. | Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans. |
Rm. 8:3. | Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum. |
Undirstrikuðu orðin [Aths. 6-2]eru sannkölluð lausnarorð, bæði fyrir mig og þig. Þegar þú hefur gefið Jesú hjarta þitt og hefur tekið þá ákvörðun að fylgja honum í einlægni, ert þú frelsað Guðs barn. Þá er ekki nein fyrirdæming í vændum fyrir þig, heldur nýtt, dásamlegt líf í Jesú Kristi sem persónulegs frelsara, sem býr í hjarta þínu og leiðir þig það sem þú leyfir honum að leiða þig. Hamingja þín verður því meiri sem hann fær meira og meira að lifa í þér og stjórna þér.
Rm. 8:4. | Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda. |
Rm. 8:5. | Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er. |
Rm. 8:6. | Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður. |
Rm. 8:7. | Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. |
Rm. 8:8. | Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði. |
Hyggja holdsins er m.a. auðsöfnun, nautnafíkn og guðlaus skemmtanafíkn.
Rm. 8:9. | En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans. |
Rm. 8:10. | Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins. |
Rm. 8:11. | Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr. |
Slík trú er gjöf frá Guði og hún veldur þeirri hugarfarsbreytingu, sem
hefur verið nefnd hyggja andans
. Þeirri hugarfarsbreytingu fylgir
líf og innri friður, þ. e. líf í Jesú Kristi, fullvissa um að mega
tileinka sér það sem hann gerði fyrir syndarann, -- fyrir mig og þig --
og í hjartanu friður, sem er æðri öllum skilningi.
Sá sem er í Kristi Jesú á þennan frið,-- því að Jesús er hans dásamlegi friður, sem hann finnur í hjarta sínu frammi fyrir Guði, og er líka friður hans, þótt hann finni það ekki alltaf jafn sterkt,-- hafi hann gefist Jesú.
Þetta er ekki eingöngu skynjunaratriði eðatilfinningarmál, heldur trúarfullvissa byggð á Gðs orði. Í Efes. 2:13-14 stendur:
Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, nálægir orðnir í Kristi fyrir blóð hans, því að hann er vor friður.Hið einlæga samfélag við Jesú sem persónulegan frelsara er trygging fyrir því að eiga frið hans, þótt við séum ekki tilfinningalega
í skýjunum.
Slíkur friður finnst, þegar samfélagið er nánast og einlægast. Því lýsir Páll í Filippíbréfinu 4:7:
Og friður Guðs , sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.
Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna ráttlætisins. (10.v.)Heilagur andi veitir líf - lífið í Kristi Jesú, sem er hin lifandi trú, vegna réttlætisins sem Jesús átti sem maður fram yfir dauðann á krossinum og veitir það líf hverjum sem á hann trúir.
Réttlæti þitt frammi fyrir Guði er réttlæti Jesú Krists, sem þú hlýtur í trúnni á hann, -- trú sem heilagur andi skapar í hjarta þínu, hafir þú í einlægni gefist honum og trúir á hann sem frelsara þinn.
Þetta staðfestir postulinn í næsta versi:
Ef andi hans sem vakti Jesú upp frá dauðum, býr í yður, þá mun hann sem vakti Jesú upp frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem býr í yður. (11.v.)
Rm. 8:12. | Þannig erum vér, bræður, í skuld, ekki við holdið að lifa að hætti holdsins. |
Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, (Róm,1:14)sagði Páll í upphafi þessa bréfs. Á sama hátt erum við í skuld við Jesú Krist. Við skuldum honum allt okkar líf, því að hann gaf líf sitt fyrir okkur og lifir í okkur, sem erum helguð honum, til þess að við verðum Guði til dýrðar í lífi okkar. Það hlýtur að leiða til þess að við hættum að lifa að hætti holdsins, þ. e. í þjónustu Satans og syndarinnar.
Rm. 8:13. | Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa. |
Kristinn maður getur komist í sálarneyð, þegar honum verður það ljóst, að hann er með syndaeðli, sem er í andstöðu við líf hans í Kristi og heilgan anda. Það er því nauðsynlegt að hann viti, að þessi neyð stafar af því að Andi Guðs býr í honum, og unir því ekki syndinni. Hann hlýtur hvorki gleði né frið við að láta undan fyrir henni.
Vissulega hendir það hann að syndga, en þá líður honum illa á eftir. Það sýnir að þótt honum takist ekki að sigra allar freistingarnar, þá lifir hann ekki lengur og hrærist fyrir hinn gamla mann, sem í honum býr. Aftur á móti finnur hann unað, eftir að hafa staðist og fylgt anda Guðs. Heilagur andi er lífs-andi hans í Kristi, og það er hann sem knýr hinn trúaða mann áfram. Það sýnir að hann er Guðs barn.
Rm. 8:14. | Því að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn. |
Rm. 8:15. | En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: "Abba, faðir!" |
Orðið Abba, er aramaíska og þýðir pabbi, en aramaíska var málið sem Jesús talaði.
Þegar Jesús háði trúarbaráttu sína í Getsemane-garðinum síðasta kvöldið
sem hann lifði [hér á jörð], hrópaði hann til föður síns á himnum,
Abba faðir.
Hér sjáum við, að sem Guðs börn höfum við í Jesú réttinn til hrópa Abba, faðir í bænum okkar, því barnaréttur okkar er alger í Kristi Jesú frammi fyrir Guði föður okkar. Þetta undirstrikar Páll í næsta versi:
Rm. 8:16. | Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. |
Rm. 8:17. | En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum [Aths 6-3] með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum. |
Sjáið hve stórkostlegt það er að gefast Jesú og verða raunverulega Guðs barn! Hefur nokkur efni á því að hafna slíku boði?
Dýrðarfrelsi Guðs barna
8:18-30.
Rm. 8:18. | Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast. |
Rm. 8:19. | Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber. |
Rm. 8:20. | Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, |
Rm. 8:21. | í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. |
Það var ekki vonin sem gaf þeim djörfungina og kjarkinn allt til enda í ofsóknunum og þjáningunum, -- nei, það var Jesús Kristur sjálfur, sem var með þeim í öllum þrenginunum í heilögum anda og gaf þeim þrek í þjáningunni.
Í seinni málsgreininni kemur líka fram atriði sem við þurfum að skoða:
Því sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.
Í sköpun Guðs hefur átt sér stað einhvers konar uppreisn í hinum andlega heimi gegn Guði, skaparanum. Satan, óvinur Guðs og manna, hlýtur að hafa verið skapaður góður, því öll sköpun Guðs var góð, en Satan, sem virðist hafa verið skapaður fegurstur og fullkomnastur allra engla, virðist hafa ofmetnast af dýrð sinni og viljað vera jafn Guði eða yfir hann settur.
Það sem gefur þessa hugmynd upphaflegar dýrðar þessa óvinar Guðs, er hluti af spádómi Esekíels í 28. kapítula. Það er orð Drottins fyrir munn spámannsins:
Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð. Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum, karneól, tópas, jaspis, krýsólít, sjóam, ónýx, safír, karbunkul, smaragð og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn sem þú varst skapaður, var það búið til.
Ég hafði skipað þig verndar kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina. Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér. Fyrir þ+ina miklu verslun fylltir þú þig ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum. (Esekíel. 28:12-17.)
Það er Guð sjálfur sem segir þetta, en það er hvergi sagt að þetta sé sagan um Satan, en hún gæti verið það, því margt bendir til þess.
Það er sköpunin, en ekki öll sköpunin, sem þráir að Guðs börn verði opinber. En öll Guðs börn þrá með sköpun hans að verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. Það lásum við áðan.
Þetta er nánar boðað í Opinberunarbókinni 21:1-4:
Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því hinn fyrri himminn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið ekki framar til. Og ég sá borgina, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn er ekki framar til. Hið fyrra er farið.Síðan kemur fram, að hið sama gildir um mannlífið.
Rm. 8:22. | Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. |
Rm. 8:23. | En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora. |
Rm. 8:24. | Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? |
Rm. 8:25. | En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði. |
Við erum hólpin orðin í voninni -- meðan við bíðum endurkomu Krists og hinnar nýju sköpunar. Við sem trúum á Krist Jesú erum hólpin nú í dag. Bíðum með þolinmæði þess sem Drottinn ætlar að framkvæma í dýrð og til dýrðar.
Rm. 8:26. | Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið. |
Rm. 8:27. | En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs. |
Þetta er samkvæmt fyrirheiti Jesú í skilnaðarræðu hans.
Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því að hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því að hann er hjá yður og verður í yður. (Jóh. 14:15-17.)
Heilagur andi hefur greinilega minnt lærisveina Jesú og guðspjallamennina á það sem hann sagði þeim, þegar þeir fóru að rifja upp og skrifa guðsplöllin og bréfin til safnaðanna. Þess vegna getum við treyst því að hvert orð það er sannleikur, þótt persónulegur mismunur sé á frásögnum þeirra. En sá mismunur er staðfesting á því að þeir rita allir sjálfstætt, en ekki hver upp eftir öðrum.
Í orðum Rómverjabréfsins sem við erum að lesa, kemur fram ný hlið á starfi heilags anda í hjörtum lærisveinanna, að heilagur andi biður fyrir heilögum. Heilgur andi er sjálfstæð persóna sem er bæði í föðurnum og syninum.
Rm. 8:28. | Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs. |
[Þessi orð hafa reynst mörgum mikil huggun. Þeim sem hafa eignast trúna, sem þrá samfélagið við Guð, þeir mega vita að hvað sem mætir þeim mun verða þeim til góðs, hversu erfitt sem það kann að vera. Jafnframt er hér lögð áhersla á að þeir sem trúa, trúa ekki af einhverri tilviljun heldur fyrir köllun og ákvörðun Guðs. -- BBJ.]
Rm. 8:29. | Því að þá, sem hann þekkti fyrirfram, hefur hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra. |
Rm. 8:30. | Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört. |
Hverjir eru fyrirhugaðir að frelsast? Svarið er: Allir menn, en verkamennirnir eru fáir til að flytja fagnaðarerindið. Glötunin er ekki fyrirhuguð fyrir mennina. Glatist maður, er það ekki af því að Guð hafi fyrirhugað hann til glötunar, heldur af því, að þeir sem áttu að boða hann, brugðust og þess vegna hefur Guð ekki náð til mannanna í flestum tilfellum. [Í þessu skyni má m. a. vísa til líkingarsögunnar um týnda sauðinn (Lk. 15:4-7) -- BBJ.]
Kærlleikur Guðs í Kristi Jesú
8:31-39
Rm. 8:31. | Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? |
Ég held að mörgum, sérstaklega ungum mönnum, jafnvel trúuðum mönnum, finnist stundum allt og allir vera á móti sér. Sá sem er í Kristi, finnur hvað það er stórkostlegt að eiga Guð að og Jesú Krist og finna hvernig hann leysir hvert vandamálið á fætur öðru og gefur styrk til að standast allt mótlæti. Það er dásamlegt að eiga Jesú að, hvað sem á dynur.
Síðar kemur oft í ljós, að mótlætið varð til þroska í trúnni og blessunar í trúarlífinu. Guð var með í erfiðleikunum. Það skipti öllu máli.
Rm. 8:32. | Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum? |
Rm. 8:33. | Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar. |
Rm. 8:34. | Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss. |
Þessar spurningar eru settar fram til þess að sýna hinum trúuðu, að Guð tekur ekki á móti ásökunum gegn hinum útvöldu, þ. e. þeim sem Guð hefur réttlætt fyrir trúna á Jesú Krist. Sá sem hefur gefist Jesú, á allt með honum í himninum, dýrðina þar og samfélagið við hann hér á jörð. Það eru ómetanleg, andleg verðmæti.
Það eru margir sem hneykslast á því, að Guð skyldi framselja einkason sinn á krossinn og finnst það grimmdarlegt af Guði. En þeir gera sér ekki grein fyrir því, að Guð, faðirinn og Jesús, sonurinn, eru eitt, eins og Jesús sagði við lærisveina sína í einkaviðtali við þá:
Ég og faðirinn erum eitt. Jóh. 10:30.Það var Guð sjálfur í syninum, Jesú Kristi, sem leið, þegar sonurinn leið og píndist á krossinum, sem maðurinn Jesús. Það er því útilokað að hægt sé að ásaka Guð fyrir að þyrma ekki sínum eigin syni, sem hann elskaði, því hann var í honum og með honum.
Það var og er markmiðið með elsku Guðs til syndugra manna að frelsa þá inn í dýrð himinsins að þessu lífi loknu. En til þess þurfti fórn. Ég veit ekki hvers vegna, en ég tek það sem staðreynd, samkvæmt orðum Jesú í Jóh. 3:16, sem við þekkjum öll.
Rm. 8:35. | Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? |
Rm. 8:36. | Það er eins og ritað er:
|
Þessi þáttur endar svo með fullvissu um að sigurinn vinnist með hjálp Jesú, þrátt fyrir erfiðleika:
Rm. 8:37. | Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. |
Rm. 8:38. | Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, |
Rm. 8:39. | hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum. |
Með þessum stórkostlega fagnaðaróði lýkur Páll að fjalla um höfuðatriði kristinnar trúar okkur til uppbyggingar og staðfestingar í trúnni.
En hann á eftir að leiða okkur til þekkingar og skilnings á ýmsum vandamálum trúarlífsins. Síðari hluti bréfsins hefst með næsta kapítula.
Aths. 6-1: Hér er ofmetinn þáttur kynferðisgirndar.
Vissulega er hann einnig innifalinn, en í þessum síðustu boðorðum er fyrst
og fremst átt við ágirnd á eignum náungans. Eiginkonan var á þeim tímum
talin eign eiginmannsins.
[BBJ]
Til baka í texta.
Aths. 6-2: Í handritinu sem ég hef undir höndum eru
engar undirstrikanir að finna hér. Að mínu mati mætti hér strika undir öll
versin. Þau eru hvert fyrir sig lausnarorð.
[BBJ]
Til baka í texta.
Aths. 6.3: Að líða með Kristi þýðir í þessu samhengi
ekki aðeins sérstök þjáning í formi mótlætis eða ofsókna, heldur einnig
þá þjáningu sem fylgir syndameðvitundinni og hryggðinni samfara því að geta
fallið -- og falla -- í synd gegn vilja sínum og betri vitund.
[BBJ]
Til baka í texta.