BIBLÍUSKÝRINGAR
EFESUSBRÉFIÐ
1. lestur:
INNGANGUR, YFIRLIT OG 1. KAPÍTULI.
Ég sem rita þessar skýringar er ekki guðfræðingur né sérfræðingur, heldur leikmaður, kennari.
Ég þýði hér fyrst yfirlit yfir þetta rit eftir virta, trúaða sérfræðinga. Ég set síðan fram skýringar aðallega eftir mínum skilningi á efninu, en get um úr hvaða riti ég tek þær skýringar sem ég þýði.
Björgvin Jörgensson.
EFESUSBRÉFIÐ
YFIRLIT.
Í engri borg starfaði Páll eins lengi og í Efesus, sem var aðalborgin í skattlandi Rómverja í Litlu-Asíu og ein af stærstu og líflegustu borgum rómverska heimsveldisins. Strax í lok annarrar kristniboðsferðar sinnar hafði Páll komið til Efesus, dvalið þar i þrjú ár (54-57) og stofnað þar kristin söfnuð, sem var mjög fjölmennur.
Í frásögn Lúkasar frá þessum tíma segir svo:"Allir sem í Litlu-Asíu bjuggu fengu að heyra Guðs orð bæði Gyðingar og Grikkir," og ennfremur að:" orð Drottins breiddist út og hafði mikil áhrif og margir komust til trúarinnar." (Post.19:10; 18:20.)
Það kemur fram í kveðjuræðu Páls, sem hann hélt fyrir öldungana í Efesus, að þegar hann var í Míletus á heimleið eftir þriðju kristniboðsferðina, að hann hafði líka samband við einstaklinga. Þá minnir hann þá á: "Vakið því og verið minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár. " (Post. 20:31.) Það er almennt álitið að bréfið sé "umburðarbréf" þ.e. bréf sem borið var ekki bara milli safnaðanna í Efesus (og þó líklega fyrst og fremst), heldur til fjölda annarra safnaða í Litlu-Asíu - til safnaða sem Páll hafði hvorki sjálfur stofnað sjálfur né heimsótt, en voru þó ávöxtur af kristniboðsstarfi hans. (Sjá Opinb. 2:3).
Það kemur vel fram að þetta er raunverulegt safnaðarbréf þessa svæðis, þar sem bréfritarinn Tíkikus á um leið að fara til Laódíkeumanna, því hann tengdi það bréfi Laódíkeumanna, sem nefnt er í Kólossusbréfinu 4:15-16. En það er líklegast, að það sé einmitt þetta Efesusbréf.
Það kemur fram í Efesusbréfinu, að það er skrifað í fangelsi (3:1; 4:1) og er þá eitt af þeim bréfum, sem nefnd eru "fangelsisbréfin". (Hin fangelsisbréfin eru Filippíbréfið, Kólossusbréfið og bréfið til Fílemons.)
Efesusbréfið hefur verið nefnt "Kirkjubréfið", því það bendir öðru fremur á hinn kristna söfnuð sem "líkama Krists", þar sem Kristur sjálfur er "höfuð safnaðarins". Í þeim söfnuði mætast bæði "heiðing-kristnir" og "Gyðing-kristnir" á jafnréttisgrundvelli. Það er líka markmið bréfsins: að fá þá heiðing-kristnu til að skynja þá gjöf og það verkefni, að þeir séu "limir á líkama Krists" - sem meðlimir í kristnum söfnuði.
(1.Leks. B. bls. 70.)
(Þýðing: Bibelleksekon: Bibelen.)
EFESUS
Efesus er borg á vesturströnd Litlu-Asíu við Eyjahafið. Staðsetning borgarinnar gerði hana að tengilið milli Asíu og Evrópu og varð þess vegna mðal veigamestu borga Rómaveldis.
Þekktust var borgin Efesus fyrir sitt mikla musteri, sem helgað var gyðjunni Díönu (þ.e. Artímis). Musterið bar byggt úr hreinum marmara og taldist meðal hinna sjö undraverka heimsins. Í "hinu allra helgasta" var stór stytta af Díönu. Sennilega var styttan úr loftsteini og var klædd fílabeini og dýrum steinum. Musterið var veigamesta tekjulind borgarinnar og í því var margt gersema. Pílagrímar úr öllum áttum streymdu til borgarinnar. Silfursmiðir og listamenn bjuggu til "heilaga listmuni", sem seldir voru háu verði, sérstaklega smá-eftirlíkingar (módel) af musterinu.
Í Post. 19:24 og næstu versum er sagt frá Demetríusi silfursmið, sem „"veitti smiðum eigi litla atvinnu.“ (25.v.) Þeim fannst kristniboð Páls ógna atvinnu sinni. Demetríus stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu og sagði:
„Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu.“ (25.v.). „Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess að helgidómur hinnar miklu gyðju Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll heimsyggðin dýrkar, verði svipt dýrð sinni.“ (27.v.) Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“ (28.v.)
Þessi orð gefa innsýn inn í líf borgarinnar og sýna hve veigamikil Díönu — eða Artemisardýrkunin var fyrir fjárhagsafkomu borgaranna.
Artemis eða Díana var frjósemisgyðja. Í tengslum við musterið var mikil kynferðisleg siðspilling. Klámritum var dreift um borgina. Jafnvel Grikkir litu niður á Efesusbúa vegna siðspillingar þeirra. Dans, hljómleikar, klámvísnasöngvar heyrðust dag og nótt. Alls konar andadýrkun og galdrar voru ríkjandi meðal íbúanna í Efesus.
(2. Fredrik Wislöff: Les selv Efeserbrevet, bls. 9-10.)
1. kapítuli.
KVEÐJA. Ef. 1:1-2.
Ef 1:1 | Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú. |
Ef 1:2 | Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. |
Það var siður á þesum tímum að kynna sig í upphafi sendibréfs og heilsa eins og Páll gerir hér. Við skulum stoppa við þessa persónulegu kynningu og kveðju og hugleiða hvað hún felur í sér.
Páll leggur fyrst áherslu á, að hann sé „postuli að vilja Guðs“.
Þar með vísar hann til hinnar róttæku köllunar, sem hann fékk utan við borgina
Damaskus, þegar hann var á leiðinni þangað í þeim tilgangi að finna hina
kristnu
eða nasareana
eins og þeir voru þá kallaðir, til þess
að fara með þá í böndum til Jesúsalem og láta æðsta ráðið í Jesúsalem dæma þá til
hegningar eða dauða. (Post. 9:2)
Páll lýsir því yfir, að hann sé postuli Krists Jesú. Það getur enginn gert sig sjálfan að postula. Postuli er sá einn, sem er kallaður til þess af Jesú Kristi sjálfum.
Páll er að undirstrika það hér, að Jesús sjálfur kallaði hann til þeirrar þjónustu. Þannig valdi hann líka hina postulana. Að því leyti var postladómur hans sambærilegur við postuladóm hinna postulanna—nema hvað honum var ætlað að vera postuli heiðingjana. Um það hafði Páll vitnað fyrir Agrippa konungi, þegar Páll sagði honum frá köllun sinni:
„Vér féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd sem sagði: ‚Sál, Sál, hví ofsækir þú nig?‘ En ég sagði: ‚Hver ert þú herra?‘ Og Drottinn sagði: ‚Ég er Jesús, sem þú ofsækir. Rís upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hafir séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér. Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum og til þeirra sendi ég þig að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru.‘“ (Post. 26:14-18.)
Páll heilsar hinum heilögu, þeim sem trúa á Jesú Krist.
Heilagur er samkvæmt Gt. sá sem er vígður Guði og þannig frátekinn frá heiminum. Páll var á sérstakan hátt kallaður af Jesú til þess að verða fyrst og fremst postuli heiðingjanna. Páll hafði því fullt umboð frá Jesú Kristi sjálfum til að vera og heita postuli á sama hátt og fyrstu postular Jesú—postularnir 12.
Sem postuli Jesú Krists og fulltrúi boðar hann þeim til handa dýrmætustu gjafirnar frá Guði og Jesú Kristi, sem syndarar geta hlotið, það er náð og friður. Náð er hugtak yfir það sem manni er veitt eða gefið, án þess að verðskulda það—eiga það skilið.
Náð er gjöf—lífgjöf. Það er þekkt hugtak í réttarkerfinu,
þegar dauðadæmdur fangi fær uppgjöf saka og er leystu úr fangelsinu og fær fullan
borgararétt aftur. Þessa náð þiggjum við í trúnni á Jesú Krist,
frelsara okkar.
Slík náðun þekkist í réttarkerfi menningarlanda, einnig í dag. Sá sem er náðaður
sleppur við þá hegningu, sem hann hefur unnið til eða á skilið. En náð Guðs er
miklu yfirgripsmeiri, því sá sem hann náðar, sleppur ekki bara við hegninguna,
sem hann átti skilið fyrir syndir sínar, heldur fær hann fyrirgefningu allra sinna
synda fyrir trú á Jesú Krist—eignast sérstakt lífssamfélag við hann og eftir
það er líf hans nýtt líf
í samfélagi við Jesú, sem er upprisinn frelsari
og því lifandi sem Guð og alltaf nálægur þeim sem honum tilheyra.
Hefur þú þegið þessa náð Guðs í Jesú Kristi? Já. Þú tókst við þeirri náð í skírninni. En hefur þú með vaxandi þroska rækt þetta samfélag? Hafir þú gert það allt frá bernsku, átt þú lifandi trú, sem auðvitað þarf að eindurnýja með vitund og vilja, því einstaklingurinn sljóvgast oft á lífsleiðinni.
Þeir eru miklu fleiri, sem lifa bæði bernsku og æsku án þess að hafa stöðugt bænasamfélag við Guð, t.d. fyrir svefninn eða á morgnana. Bæði þeir og allur almenningu þarf að taka persónulega ákvörðun um að gefast Jesú í einlægni. Það er þá kallað að komast til trúar. Við það verður mikil breyting á einstaklingnum. Páll boðaði líka frið í kveðju sinni. Þessi friður er sérstakur friður hjartans, sem aðeins fæst í lifandi trúarsamfélagi við Jesú Krist. Þessi friður er því afleiðing þess að vera náðaður.
Við getum átt náðina án þess að finna friðinn. Þetta er sá friður, sem allir eru að leita eftir og þrá í hjarta sínu og stendur þér til boða. Hann færð þú í samfélaginu við Jesú Krist, þegar þú hefur í einlægni gefist honum.
LOFGJÖRÐ. Ef. 1:3-13.
Ef 1:3 | Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum. |
Ef 1:4 | Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í
Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum |
Ef 1:5 | ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun |
Ef 1:6 | til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni. |
Ef 1:7 | Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. |
Þetta er stórkostleg lofgjörð. Hún felur í sér kjarna fagnaðarerindisins og minnir á eilíft upphaf guðdómsins—og við upphaf sköpunarinnar—kærleikann til mannsins, sem Guð skapaði síðast á þessa jörð í kærleika og með hæfileikann til að þekkja Guð og tilbiðja hann og sýna Guði kærleika og öllu sköpunarverki hans með umhyggju og aðhlynningu.
„Hann hefur útvalið oss.“ Sú útvalning er í Jesú Kristi, sem gerir okkur fært að eignast lifandi samfélag við hann í daglegu lífi. Sá sem tekur persónulega við þeirri útvalningu fyllist lofgjörð. Baráttan við syndina eða syndaeðlið dregur oft úr lofgerðinni og veldur baráttu, en í trúnni er stykurinn í þeirri baráttu, líka þegar maðurinn hefur fallið í synd.
Ef 1:8 | Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi. |
Síðan heldur Páll áfram að sýna fram á, að í Kristi opinberaði Guð leyndardóm vilja síns:
Ef 1:9 | Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, | Ef 1:10 | sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi. |
Þessi orð upplýsa, að ætlun Guðs var, að allir menn frelsuðust í Kristi svo að þeir yrðu með Jesú á himnum um alla eilífð í ólýsanlegri hamingju. Við sjáum á þessum orðum, að það var ekki ætlun Guðs að nokkur maður glataðist. En Guð tók þá áhættu að gefa manninum einum af allri sköpun sinni valdið til að velja og hafna.
Glötun manns er aldrei Guði að kenna, heldur manninum sjálfum, sem ber ábyrgð á gerðum sínum frammi fyrir Guði í baráttunni gegn Satan, sem keppir eftir því að allir menn glatist og maðurinn ber líka ábyrgð á syndaeðli sínu, því honum ber að standa gegn því. Sjáðu hvað ábyrgð þín er mikil gagnvart Guði.
Guð kemur til þín í kærleika Krists og býður fram náð sína okkur til handa, ef við viljum taka á móti Jesú í hjörtu okkar sem persónulegum frelsara okkar í einlægni og trú.
Ef 1:11 | Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns, |
Ef 1:12 | til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar. |
Sjáðu hvílíka dýrð þú átt í vændum ef þú gefst Jesú í einlægni, því þetta fyrirheiti gildir fyrir alla menn á öllum tímum—þá sem gefast Jesú af heilum hug og lifa í sem nánustu samfélagi við hann.
Ef 1:13 | Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið. |
Ef 1:14 | Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar. |
Í biblíulegri merkingu er orðið „heyrt“ að heyra þannig, að við því sé tekið, sem hlustað er á. Sjáðu nú aftur þessi orð í 13. versinu:
„Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilaga anda, sem yður var fyrirheitið.“
Hvernig erum við „merktir innsigli heilags anda“? Fyrir Guði erum við „merkt innsigli heilags anda“ í skírninni—með krossmerkinu á enni og brjóst. Það er varanlegt merki fyrir Guði, en ósýnilegt fyrir mönnum að lokinni skírnarathöfninni—sem innsigli heilags anda. Það felur í sér hinn eilífa sigur Jesú yfir syndinni, dauðanum og djöflinum, sigrinum sem Jesús veitir okkur hlutdeild í af náð fyrir trú.
En maðurinn hefur vald til þess að „slökkva andann“, svo að hann komi honum ekki að neinum notum. Það virðist mér vera algengast í okkar „nafnkristna“ samfélagi.
ÞAKKIR OG FYRIRBÆN. Ef. 1:15-25.
Ef 1:15 | Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra, |
Ef 1:16 | hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum. |
Tókuð þið eftir þakkarefninu? Þakkarefnið var trúin á Drottin Jesú og kærleikur til allra heilagra—eða allra trúaðra eins og sagt er í dag.
Þökkum við Guði fyrir hvern þann, sem við vitum að hefur tekið í trú á móti Drottni Jesú Kristi sem persónulegum frelsara sínum og eignast lifandi trú á Drottin Jesú? Hvað kemur í veg fyrir það? Verum hreinskilin í huga okkar og leitum að svari við þessari spurningu og dæmum okkur sjálf út frá niðurstöðunni.
Þetta var þakkarefni Páls og ætti að vera okkur mikið þakkarefni, þegar einhver frelsast—eða kemst til lifandi trúar—, hvort sem það er hjá þessum eða hinum söfnuðinum. Það er aðeins einn andi, sem lýkur því upp fyrir einstaklingnum að Jesús, frelsari hans hafi tekið við honum, fyrirgefið honum syndir hans og tekið sér bústað í hjarta hans. Það er Heilagur andi Guðs—föðurins og sonarins, sem eru eitt.
Bænin verður persónuleg þegar heilagur andi kemst að til að ljúka orðinu upp fyrir okkur, hvort heldur sem við lesum það eða heyrum:
Ef 1:17 | Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann. |
Ef 1:18 | Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu, |
Ef 1:19 | og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, |
Ef 1:20 | sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, |
Ef 1:21 | ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. |
Ef 1:22 | Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. |
Ef 1:23 | En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu. |
Hvað er það sem andinn þarf að upplýsa okkur um? Það er þetta þrennt:
- Um vonina sem hann kallar okkur til, sem er eilíífa lífið í dýrðinni með jesú og öllum frelsuðum og heilögum.
- Um ríkdóm náðar hans, sem við höfum ofurlítið hugleitt við lestur Biblíunnar.
- Um hans dýrlegu arfleifð.
Við erum í trúnni á Jesú Krist samerfingjar hans að allri sköpuninni, allri dýrð hans og eilífum sálarfriði í eilífum fögnuði. Ekkert æðra og göfugra er til í þessum heimi að keppa að. „Allt hefur [faðirinn] lagt undir fætur honum og gefið [soninn] kirkjunni, sem höfuð yfir öllu (eða öllum)“. (V. 22-23.)
Hér á Páll við orð Jesú, sem Matteus skrifaði eftir Jesú upprisnum: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum mínum, skírið þá til nafns föður, sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt sem ég hefi boðið yður.“ (Matt. 28:18-20.)
Kristnir einstaklingar eru systkini í Jesú Kristi. Við eigum því öll, sem frelsuð erum að geta sungið af hjarta: „Ó, Jesú bróðir besti!“