Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

EFESUSBRÉFIÐ

2. lestur:
2. OG 3. KAPÍTULI.

2. kapítuli.

HÓLPNIR AF NÁÐ
2:1-10.

Ef 2:1 Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,
Ef 2:2 sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.

Hér er átt við andlegan dauða, sem er sá dauði sem mannkynið hlaut í arf eftir hinn fyrsta Adam, eftir að hann hafði fallið í synd ásamt Evu konu sinni. Þessi andlegi dauði er ástand hins náttúrlega manns, sem hann lifir í, en hinn kristni, skírði maður er með neista hins eilífa lífs í sér, sem hann getur kæft að mestu.

Andlegi dauðinn er afleiðing syndafallsins, en það er líf án samfélags við Guð—tilhneiging til uppreisnar gegn Guði, sem kölluð er erfðasynd. Með þessum fáu orðum gefur Páll innsýn inn í andlegt ástand hins náttúrlega manns.

Ef 2:3 Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.

Af orðunum „alveg eins og hinir“, sjáum við, að þessir hinir eru heiðingjarnir. Í þessum grundvallaratriðum, sem Páll er að lýsa, þ. e. viðvíkjandi elðissyndinni, gerir hann engan mun á Gyðingum og heiðingjum.

Þegar Páll er búinn að gera grein fyrir hinu synduga, eðli mannsins, snýr hann sér að náð Guðs og máðargjöfinni í Jesú Kristi:

Ef 2:4 En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss,
Ef 2:5 hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir.
Ef 2:6 Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum.

Þessa náðargjöf fáum við fyrst í skírninni og ef við höfum fallið frá trúnni um tíma, þá eigum við alltaf aðgang að honum í bæninni. Sá sem biður til hans er ekki fallinn frá trúnni á hann, nema bæn hans sé formæling á Guði og Jesú Kristi. En Guð er auðugur af miskunn. Þess vegna megum við, og eigum við alltaf að koma með vandamál okkar fram fyrir hann í einlægri bæn. Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.

Ef 2:7 Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.
Ef 2:8 Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.
Ef 2:9 Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.
Ef 2:10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.

Trúin er gjöf Guðs. Hann hefur fyrirætlun með líf þitt.

Þegar þú hefur tekið á móti Jesú Kristi inn í líf þitt, ert þú skapaður í honum—fyrst í skírninni síðan í trúnni á hann í afturhvarfinu á öllum tímum lífsins.

Afturhvarf, það er að hverfa aftur til hans, til Jesú Krists. Það kalla margir að frelsast, vegna þeirrar miklu breytingar, sem verður í einstaklingnum, þegar hann með vitund og vilja gefst[1] Jesú Kristi og tekur á móti honum, sem persónulegum frelsara sínum.

Frá kirkjulegu sjónarmiði ætti þessa að gerast í fermingunni og gerir það stundum, en oftar gerist það seinna eða alls ekki, þrátt fyrir ferminguna. Það er á ábyrgð einstaklingsins frammi fyrir Guði, taki hann ekki mark á fermingunni.

Eðli guðsbarnsins, að snúa sér til Guðs með vandamál sín, er Guðs gjöf, eins og það er í eðli barnsins að snúa sér til móður sinnar. Sá sem snýr sér til Guðs með vandamál sín, er barn miskunnseminnar og fyrirgefningarinnar hjá Guði föður. En þannig er líf hins frelsaða manns, sem er í Kristi Jesú. „Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú, ... það er Guðs gjöf,“ lásum við í 8. versinu. Þetta er kjarni kristinnar trúar.

Þessi leyndardómur stangast á við mannlega skynsemi, sem ályktar að maðurinn frelsist bara fyrir breytni sína, ef um frelsun er að ræða. Það var líka sjónarmið faríseanna. Undir það sjónarmið tók líka kaþólska kirkjan og það sjónarmið blundar í mörgum lúthertskum manni ennþá, því það er hið mannlega sjónarmið. Það er mannlegt sjónarmið að vilja eiga það skilið að frelsast, en Guð frelsar af náð fyrir trúna á frelsarann Jesú Krist.

Þegar það laukst upp fyrir þýskum, kaþólskum munki, sem þjáðist af sektarkennd, Þá frelsaðist hann og hlaut loksins frið í sál sína og varð sem nýr maður og vann síðan allt sitt líf fyrir Jesú Krist. Þessi maður var Marteinn Lúther, sem leiddi menn til Jesú Krists með orðum biblíunnar. Okkar kirkja kennir sig við hann og trú hans. Kirkjan okkar leggur áherslu á, að hinn kristni maður sýni trú sína í verkunum, en að hann frelsist af trúnni en ekki af verkunum.

Í okkar þjóðfélagi eru margir vandaðir, „góðir menn“, bæði skírðir og fermdir, sem ekkert hirða um Guð og jafnvel afneita honum. Synd er í huga þeirra ekkert annað en mistök. Guð er ekkert inni í þeirri mynd. Þetta er nútíma afkristnun. Það er því þörf á öflugu kristniboði í okkar landi. Þessir menn eru því eins og týndi sonurinn í dæmisögu Jesú, því „týndi sonurinn“ er ekki bara sá sem fallið hefur í spillingu og glæpastarfsemi. Þekkjum við ekki marga týnda syni af þessu tagi í okkar þjóðfélagi?

Þetta „góða, guðlausa fólk“, þarfnast mikilla fyrirbæna, að það eignist lifandi samfélag við Jesú Krist og finni í sálum sínum hvíld. En það eru líka til svona vandaðir menn, sem hafa varðveitt trúna í hjarta sínu, þótt þeir segi það engum af einhverjum ástæðum. Gleði þeirra í trúnni væri meiri, ef þeir segðu öðrum trúuðum frá trú sinni.

Trúaður einstaklingur hlýtur að leggja stund á að gera gott á einhvern hátt, vegna þess að hann á samfélag við Jesú Krist í hjarta sínu. Geri hann það ekki, er hann að kæfa samfélagið við Jesú. Þá gerist það smátt og smátt og hann fellur oftast að lokum frá trúnni.

Í dag gefur Guð margs konar verkefni fyrir hvern einasta trúaðan einstakling, líka fyrir þig.

EITT Í KRISTI. Efes. 2:11-22.

Ef 2:11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna.
Ef 2:12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.

Með orðunum þegnréttur Ísraelamanna er átt við þann himneska þegnrétt, sem fæst fyrir trú og Abraham hlaut fyrstur á sérstakan hátt hjá Guði, sem fulltrúi trúarsáttmála Guðs.

Ef 2:13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.
Ef 2:14a Því að hann er vor friður.

Krossdauði Jesú Krists var sjálfsfórn hans, saklaus fyrir seka, til fyrirgefningar synda þeirra. sem á hann trúa.

Lítum nánar á orðin: „Hann er vor friður“. Um þennan frið, sem er friður hjartans og sálarinnar, semir Páll annars staðar:

Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. (Filipp.4:7.)
Þennan frið þrá allir, en þennan frið er bara að finna í lifandi trú á Jesú Krist.

Páll skilgreinir svo nánar það sem við erum að hugleiða:

Ef 2:14b Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum
Ef 2:15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.

Þetta útskýrir hann nánar í næsta versi:

Ef 2:16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn.

Hann sætti hann þá báða, þ. e. báða sáttmálana, Gamla testamentið og Nýjatestamentið.[2]

Ef 2:17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru.

Þ. e. hann boðaði bæði heiðingjum og Gyðingum frið.

Ef 2:18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.
Ef 2:19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.

Þessu lýsir Páll svo nánar í líkingu:

Ef 2:20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.
Ef 2:21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.
Ef 2:22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.

3. kapítuli

LEYNDARDÓMUR KRISTS OPINBER. Efes. 3:1-13.

Ef 3:1 Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.

Þetta er niðurstaða þeirra trúarlegu staðreynda sem Páll rakti í 2. kapítula og að efni til hefur verið nefnt: Eitt í Kristi.

Þessir fyrrverandi heiðingjar, meira og minna breyskir menn eins og ég og þú, eru ekki bara bræður og systur í Kristi, heldur líka eitt í honum. Hverjum er það að þakka? Ekki þeim sjálfum, heldur Jesú Kristi, frelsara okkar, sem tekur að sér alla þá sem í einlægni trúa á hann og hafa helgast honum í skírninni.

Þetta gildir eins um okkur gagnvart þeim, sem hafa í skírninni helgast honum og gefist honum með vitund og vilja.

„Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists, vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín,“ segir Páll. Fyrir hverjum? Fyrir Jesú Kristi, sem hefur komið þessu til leiðar með dauða sínum og upprisu.

Í næstu versum er Páll ekki að hrósa sér, heldur að sýna hve stórkostlega hluti Drottinn Jesús hefur gert fyrir hann,- alls óverðugan:

Ef 3:2 Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:
Ef 3:3 Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.
Ef 3:4 Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.

Því miður er þetta bréf glatað, en Páll bætir það upp hér að einhverju leyti, með skýringum í þessu bréfi:

Ef 3:5 Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:
Ef 3:6 Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.

Hafið þið nokkurn tíma hugleitt hvað þetta er mikill leyndardómur? Við með öllum okkar göllum og þeir með öllum sínum göllum erum eitt í Kristi Jesú fyrir trú á hann sem persónulegan frelsara okkar og Guði föður og í heilögum anda, þrátt fyrir mismunandi skilning á ýmsum atriðum trúarinnar!

Það reynir á kristilegan kærleika að umgangast menn með ólíkar trúarskoðanir á aðalatriðum kristindómsins. En sá sem er skírður og elskar Jesú Krist sem Guðs son og persónulegan frelsara sinn er bróðir okkar eða systir.

Ef 3:7 Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.

Það getur enginn þakkað sjálfum sér, að hann hafi komist til trúar því lifandi trú er gjöf frá Guði. Þetta hafði lokist upp fyrir Páli, egar Jesús birtist honum á veginum til Damaskus og Jesús kallaði hann til fylgdar við sig. Það getur enginn þakkað sjálfum sér, að hann hafi komist til trúar.

Ef 3:8 Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists
Ef 3:9 og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.
Ef 3:10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.
Ef 3:11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Ef 3:12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.
Ef 3:13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.

Það hefur verið kristnu söfnuðunum sár raun, að Páll skyldi vera í fangelsi, þar sem búast mátti við að hann yrði tekinn af lífi, eins og síðar varð, en það gerðist nokkuð löngu seinna. Hér er fanginn að hugga þá sem frjálsir eru gerða sinna. Trúardjörfung Páls byggðist á lifandi trú á Jesú Krist. Trúardjörfung okkar byggist líka og þarf að byggjast á lifandi trú á Jesú, en ekki á eigin mætti. Hann veitir hinum hræddu og veiku styrk, þeim sem treysta honum.

BÆN UM STYRK OG SKILNING. efes. 3:14-21.

Ef 3:14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,
Ef 3:15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.
Ef 3:16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,
Ef 3:17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.

Páll hafði fengið persónulega reynslu af Guði föður í strangleika hans og heilagleika sem strangtrúaður farísei, áður en Jesús kallaði hann til fylgdar við sig. En nú hafði hann kynnst kærleika hans og fyrirgefningu, því þegar Jesús kallaði hann, sekan syndarann til fylgdar við sig, þá laukst það loks upp fyrir Páli, að ofsóknir hans gegn hinum kristnu var ofsókn gegn Guði í Jesú Kristi. Síðan var hann alltaf fylltur krafti hans og kærleika.

Nú er það bæn hans, að kraftur Guðs megi fyrir heilagan anda búa í hjörtum hinna trúuðu og styrkja þá, svo að þeir verði „rótfastir“ og grundvallaðir í kærleika. Jurt sem er rótföst fýkur ekki þótt stormur blási. Þannig þarf hinn trúaði maður að vera stöðugur og traustur í trúnni. Það er bæn Páls fyrir Efesusmönnum.

Að vera grundvallaður í trúnni hefur dýpri merkingu, því það er að hafa bæði þekkingu, kærleika og trúarreynslu. Ef Kristur fær að búa í hjartanu, þá er hann hinn öruggasti trúnaðarvinur. Það er reynsla allra sem eru alvöru-trúaðir.

Og enn grípur Páll til líkingamáls:

Ef 3:18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,
Ef 3:19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.

Hér lýsir Páll hinum ótakmarkaða kærleika Guðs, sem tekur rúm í hjörtum þeirra sem í einlægni trúa á hann. Þannig er kærleikur Krists ómælanlegur og takmarkalaus. En hann þrengir sér ekki upp á menn. Hann elskar og bíður eftir einstaklinnum, undantekningarlaust—líka eftir þér.

Ef 3:20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,
Ef 3:21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.