Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR

EFESUSBRÉFIÐ

3. lestur:
4. - 6. KAPÍTULI.

4. kapítuli.

VAXTATAKMARK KRISTS FYLLINGAR.
Efes. 4:1-16

Ef 4:1 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.

Á eftir þessari áminningu kemur leiðsögn um hvernig sú hegðun er, sem er samboðin þeirri köllun að gefast Jesú Kristi og vera lifandi trúaður í þessum heimi.

Ef 4:2 Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.
Ef 4:3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.

Skyldum við ekki þurfa líka á þessari áminningu að halda! Sá sem breytir samkvæmt þessari áminningu, vitnar með breytni sinni um trú sína og samfélag við Jesú Krist. Sá vitnisburður verður stundum miklu sterkari ef honum fylgir vitnisburður í orðum sem gerir það ljóst að kærleikurinn stafi af samfélaginu í trúnni á Jesú Krist. Annars er hætt við að vitnisburðurinn verði aðeins honum sjálfum til hróss.

Ef 4:4 Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.
Ef 4:5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,
Ef 4:6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Tókuð þið eftir orðunum ein skírn. Hér er átt við hina einu kristnu skírn. (Sjá. Matt. 28:18-20).

Endurskírn er vantrú á mátt Guðs til þess að varðveita þann sem skírður er. Skírnin—í samræmi við boð Jesú Krists—er náðarmeðal eins og altarissakramentið, en skírn á ekki að endurtaka. Aftur á móti, sagði Jesús lærisveinum sínum að endurtaka brotning brauðsins, sem nú er kallað altarissakramenti. Endurskírn er sprottin af vantrú á varðveislumætti Guðs og á sér ekki biblíulegan grundvöll.

Einn er líkaminn. Það getur þýtt tvennt: að þar sé átt við mannslíkamann og hins vegar er átt við kristna kirkju í heild sem líkama Krists.

Einn er andinn. Þar er átt við heilagan anda. Vonin er um hina himnesku dýrð, sem frelsaður maður á í vændum. Einn er andinn. Hér er átt við heilagan anda, sem er persóna í Guði og í hinum skírða manni. Heilagur andi verður virkur í hjarta þess sem leyfir honum að komast að í lífi sínu. Guð heilagur andi þvingar aldrei vilja sinn upp á neinn.

Einn er Drottinn. Þessi eini Drottinn er Jesús Kristur. En þessi eini Drottinn er í órjúfanlegri einingu við föðurinn ásamt heilögum anda. Við trúum á Einn Guð.

Ein trú. Það er hin kristna trú, sem við játum í trúarjátningu okkar. Jesús lauk því upp fyrir lærisveinum sínum, að þessi eini, persónulegi Guð er faðirinn, sonurinn og heilagur andi. Hann sagði lærisveinum sínum að skíra fólk, alla lærisveina sína til þessa þrí-eina nafns. Þá fyrirskipun gaf hann eftir að hann var upprisinn og er skráð í Matt. 28:19-20. Kristin trú er ekki trú á marga guði né heldur á ópersónulegan alheimskraft, heldur á hinn þrí-eina Guð.

Ein skírn. Skírnina, sem Jesús fyrirskipaði lærisveinum sínum, má ekki endurtaka og ekki heldur neð einhverjum afbrigðum, t.d. að skíra til nafns Jesú Krists án heilags anda. Hin raunverulega skírn eða hreinsun er verk Guðs sjálfs í vatninu og með orðinu—orði Guðs—biblíunni, þar sem presturinn eða skírarinn er aðeins verkfæri Guðs til þessarar athafnar.

Fylling heilags anda getur átt sér stað hvenær sem er, þegar einstaklingurinn er sérstaklega opinn fyrir áhrifum Guðs, því hann er til staðar í hinum skírða manni. Heilagur andi getur líka komist að í hjarta þess sem ekki er skírður, þegar hjartað er opið fyrir Guðs orði. Það sjáum við fyrst í Post. 10. kapítula: Pétur og Kornelíus.

Um náðina í Jesú Kristi í sambandi við skírn og heilagan anda, segir í næsta versi:

Ef 4:7 Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.

Hér er greinilega gert ráð fyrir því, að ekki hljóti allir skírðir menn allar náðargjafir heilags anda, heldur, að Jesús Kristur úthluti í heilögum anda náðargjöfunum eftir hans eigin ákvörðunum.

Síðan er sigurgöngu Jesú Krists lýst og dauða hans og upprisu til staðfestingar á mætti hans og ákvörðun í veitingu náðargjafanna.

Ef 4:8 Því segir ritningin: „Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.“
Ef 4:9 (En „steig upp“, hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar?
Ef 4:10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)

Síðan bendir Páll á þá í söfnuðinum sem eru verkfæri Guðs með náðargjöfum til uppbyggingar söfnuðinum:

Ef 4:11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.
Ef 4:12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,
Ef 4:13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.

Þessir þjónar Guðs í heilögum anda eru nauðsynlegir í kristnum söfnuði:

Ef 4:14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.
Ef 4:15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið—Kristur.
Ef 4:16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.

NÝTT LÍF. Efes. 4:17-32.

Ef 4:17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,
Ef 4:18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.
Ef 4:19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.

Áminningin í 17. versi á greinilega við í dag, þótt ekki séu hér heiðingjar í sama formi, bæði skurðgoðadýrkendur og djöfladýrkendur, sem við höfum fregnir af og kristniboðar eru sendir til. Hér eru aftur á móti guðsafneitarar—menn sem hafa mnenntun, en afneita Guði og kristinni trú meira eða minna og lifa lífi „fjarlægir lífi Guðs“, eins og segir í textanum. Þetta er hið heimslega líf, sem alls staðar blasir við okkur í dag.

En Páll talar nú til þeirra sem eru skírðir, en eru ekki búnir að losa sig undan spillingu heimsins:

Ef 4:20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.
Ef 4:21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:
Ef 4:22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,
Ef 4:23 en endurnýjast í anda og hugsun og
Ef 4:24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Það sem eftir er af þessum kapítula eru ráðleggingar til Efesusmanna, sem hafa átt við flest sömu hegðunarvandamál að glíma og nútímafólk. Þetta er því tímabær boðskapur til okkar, sem viljum vera trúuð, kristin þjóð:

Ef 4:25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.
Ef 4:26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.
Ef 4:27 Gefið djöflinum ekkert færi.
Ef 4:28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.

Í reiði okkar gefum við djöflinum færi á okkur, ef hann fær okkur til að hugsa ljótar hugsanir, segja ljót orð og hugsa um hefndir í einhverri mynd. Setjum okkur þetta mark, gagnvart reiði okkar: Sólin má ekki setjast yfir reiði okkar.

„Hinn stelvísi hætti að stela,“ segir Guðs orð, „og leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.“ Með þeirri aðferð gefum við djöflinum ekkert færi til að misnota okkur, þegar við höfum reiðst. Hér er ekki bara áminning um að hætta að stela, heldur eitt besta ráð til þeirra sem hafa þessa áráttu, til þess að losna frá hefndaráráttunni og gera um leið öðrum gagn og verða til blessnar.

Ef 4:29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.

Þetta er dýrmæt áminning, en mjög erfið þeim sem eru skapstórir.

Ef 4:30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.
Ef 4:31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.

Hér sjáum við, að heilagur andi er sjálfstæð persóna Guðs, sem hugsar og hryggist yfir hinu illa, en hann gleðst og fagnar þá yfir hinu góða. Það finnur trúaður maður í hjarta sínu. Við erum innsigluð með heilögum anda, allt frá skírnarstundinni. Í næsta versi tekur Páll það fram sem gleður heilagan anda:

Ef 4:32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Þetta er leið til að auka gleðina í trúnni og hamingjuna.

5. kafli.

BÖRN LJÓSSINS. Ef. 5:1-20.

Ef 5:1 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.
Ef 5:2 Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.

Fórnargjöf Guði til þægilegs ilms er táknrænt orð yfir þá fórn sem Guði er veitt í trú og af kærleika. Sú fórn getur komið fram á ýmsan hátt, en til þess að það sé fórn, þarf einstaklingurinn að leggja hart að sér gagnvart því sem hann leggur fram til fórnarinnar. Þetta kemur best fram í bréfi Páls til Rómverja, 12:1-2:

Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.
Jesús færði hina fullkomnu fórn. Okkar fórn, verður aldrei fullkomin, en hún þarf að vera sprottin af kærleika Krists í okkur. Sú fórn er á einhvern hátt í þjónustu þurfandi meðbræðra eða systra og er þá um leið þjónusta við Guð—til þægilegs ilms, er táknrænt orðalag um velþóknun Guðs, að fórnargjöfin sé eins og reykur, sem stígur upp til Guðs.

Ef 5:3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.

Frillulífi er framhjáhald eiginmanns. Óhreinleiki er orð yfir allt kynlíf utan hjónabands sem kynferðislegt samlíf milli tveggja einstaklinga og hvers konar misnotkun kynfæranna.

Ruddalegt, æsandi tal um slík mál hæfir ekki heilögum eða trúuðu fólki. Það skilst mér vera merkingin í orðunum: „…á ekki að nefnast á nafn meðal yðar.“ Það felur í sér viðvörun við því, að menn séu ekki að skemmta sér við að klæmast og segja sögur af framhjáhaldi eða sögur í þeim anda öðrum til skemmtunar.

Sé ágirndin til umræðu, er hætt við að slík umræða veki upp ágirndina á sama hátt og klám vekur upp kynhvötina og fýsnir, sem trúaðir menn vilja ekki æsa upp. Enda segir hér: „[það] ætti ekki að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.“

Ef 5:4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.

Svívirðilegt hjal er niðrandi tal um aðra eða og sögur um kynferðislega spillingu einstaklinga sér eða öðrum til skemmtunar. Ósæmilegt spé, er ósæmilegt grín að öðrum um viðkvæm mál þeirra—ekki síst um kynferðismál.

„Í stað þess komi þakkargjörð,“ segir Páll hér.

Ef 5:5 Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn—sem er sama og að dýrka hjáguði—á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.

Saurugur er í biblíulegri merkingu sá sem stundar kynlíf utan hjónabands. Hér með er ekki sagt, að sá sem fallið hefur í þessar syndir geti ekki fengið fyrirgefningu, ef hann iðrast og bætir ráð sitt. Um þann sem iðrast segir Jesús: „Þann sem til mín kemur mun ég alls ekki burtu reka.“ (Jóh. 6:37). Án iðrunar og fyrirgefningar Guðs er engin arfsvon í Guðs ríki fyrir slíka syndara—og fyrir syndara yfirleitt.

Ef 5:6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.
Ef 5:7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.
Ef 5:8a Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni.

Tókuð þið eftir því, að það stendur ekki: Eitt sinn voruð þér í myrkri, nei, það stendur: Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Öll vera hinna trúlausu og allra afneitara kristinnar trúar er myrkur, andlegt myrkur, en í lifandi trú verður sá hinn sami ljós. Þeir finna sjálfa sig í birtu Jesú Krists og þrá að lýsa öðrum og gera það eftir megni, sem gjörbreyttir menn. Þeir eru ljós, af því að nú eru þeir í Kristi.

Þetta sagði Jesús líka í Fjallræðunni um trúaða læisveina sína:

Þér eruð ljós heimsins! Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur gafa ljós lífsins. (Jóh. 8:12.)
Sá sem er í Kristi og er ljós heimsins, upplýsist af honum. Þannig verður lærisveinninn ljós fyrir meðbræður sína, sérstaklega þá sem eru í myrkrinu, með framkomu sinni og orðum.

Ef 5:8b Hegðið yður eins og börn ljóssins.—
Ef 5:9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.—
Ef 5:10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.
Ef 5:11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.
Ef 5:12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.
Ef 5:13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.
Ef 5:14 Því segir svo:
Vakna þú, sem sefur,
og rís upp frá dauðum,
og þá mun Kristur lýsa þér.

Þetta ljóð, sem hér, er talið vera elsta ljóð kristninnar, sem varðveist hefur. Í ljóðinu sem vísað er til er þetta aðalatriðið: Þá mun Kristur lýsa þér—þegar þú hefur vaknað og séð hve illa þú ert staddur andlega. Út frá því kemur alvarleg áminnig um að rannsaka eigin breytni:

Ef 5:15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.
Ef 5:16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.
Ef 5:17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.

Það er óskynsamlegt að reyna ekki að skilja, hver sé vilji Drottins. Þrátt fyrir að á tímum Páls voru aðeins til léttvín—ekkert brennivín—áminnir Páll hina trúuðu að drekka sig ekki drukkna af víni. Það var hægt, þótt um léttvín væri að ræða og segir að drykkjan leiði (samt) til spillingar.

Ef 5:18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,
Ef 5:19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,
Ef 5:20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

SKYLDUR HJÓNA. 5:21-33.

Hér erum við komin að nýjum þætti í Efesusbréfinu. Það er svokölluð Hústafla.

Ef 5:21 Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists:
Ef 5:22 Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn.
Ef 5:23 Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns.
Ef 5:24 En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.

Hvernig óttumst við Jesú Krist? Við óttumst að hryggja hann og bregðast honum, vegna þess að við elskum hann. Þetta er fyrirmyndin að ótta konunnar við eiginmann sinn. Þetta á ekkert skylt við þvingun eða hræðslu við hann, heldur ótta ástarinnar sem er af sama toga og sannur guðsótti. Það er hinn sanni ótti ástarinnar, sem Páll er að hvetja til. Maðurinn á að vera konu sinni tilsvarandi skjól og öryggi eins og Jesús er söfnuði sínum í kærleika.

Þetta kemur skýrt fram í næstu versum:

Ef 5:25 Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana,

Í flestum tilfellum er það hagkvæmast, að maðurinn sé hinn ráðandi á heimilinu. Sé því öfugt farið, er það konan sem hefur yfirstjórnarhæfileikana, en ekki maðurinn. Dáist maðurinn að konu sinni og viðurkenni þessa yfirburði hennar, blessast slíkt hjónaband og veitir heimilinu hamingju. Á tímum Páls var yfirráð húsbóndans ófrávíkjanleg regla. Maðurinn sem elskar konu sína, ber virðingu fyrir henni og lítur upp til hennar og er umfram allt verndari hennar.

Ef 5:26 til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði.
Ef 5:27 Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus.
Ef 5:28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.
Ef 5:29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna,
Ef 5:30 því vér erum limir á líkama hans.

„Hreinsun í laug vatnsins með orði frá Guði,“ er hin kristna skírn, sem Jesús hefur sjálfur boðið, helgað og hreinsað, þegar hann lagði líf sitt í sölunar fyrir synduga menn—mig og þig.

Kirkjan er hér—eins og hjá Jesú—táknmynd brúðar hans, og Jesús er sjálfur brúðguminn, eins og fram kemur t.d. í Matt. 25:1. Brúðgumann sjálfan nefnir Jesús ekki með nafni, en það er augljóst, að hann táknar sjálfur brúðgumann, en brúðurin táknar hina kristnu kirkju—þ. e. allir kristnir menn á öllum tímum. KRISTIN KIRKJA ER BRÚÐUR KRISTS.

Ef eiginmaðurinn er jafn fórnfús fyrir eiginkonu sína og Kristur var fyrir „kirkju sína“, verður hann enginn harðstjóri né þvingandi yfirdrottnari. En hér höfum við samlíkinguna:

Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eign líkama. Sá sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. (V. 28.)

En kirkjan er hér eins og hjá Jesú—táknmynd „brúðar Krists“, en Jesús er sjálfur brúðguminn, eins og fram kemur í Matt. 25:1. Brúðurin sjálf í líkingu Jesú er ekki nefnd beinum orðum, en auðvelt er að ráða í, að það eru hinir trúuðu kristnu—kirkja Krists.

Jesús er víðar nefndur „brúðguminn“ í þessari merkingu í Nýjatestamentinu.

Ef eiginmaðurinn er jafn fórnfús fyrir eiginkonu sína eins og Jesús gagnvart kirkju sinni, er ekki um neinn ójöfnuð að ræða milli hjónanna, þótt maðurinn ráði í raun, því þá taka þau tillit hvort til annars. Það er meining Páls í þessum orðum hans eftir mínum skilningi.

Ef 5:31 „Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður.“ [a]
Ef 5:32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna.

[a] 1. Mós. 2:24. Til baka

Ég held, að með orðunum: „Þau munu vera einn maður“, sé ekki bara átt við barnagetnað eða sameiningu „genanna“ í fóstrinu, heldur það nána líkamlega samband hjónabandsins, sem styrkir hina andlega einingu hjónanna, ef þau taka tillit hvort til annars. Gagnkvæmt traust og gagnkvæm tillitssemi hvort til annars er grundvöllur heilbrigðs hjónabands, og sé það tengt lifandi trú, gefur það hamingju, sem fullnægir báðum.

Ef 5:33 En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.

Það er rangtúlkun að segja út frá þessum orðum, að maðurinn eigi ekki að bera lotningu fyrir eiginkonu sinni. Þvert á móti er auðséð út frá túlkun Páls, að ástin, tillitssemin og fórnfýsin hvort fyrir annnað á að vera gagnkvæm.

Hins vegar er auðséð út frá þessari túlkun Páls, að eiginmaðurinn þarf að gæta þess að hrokast ekki upp af undirgefni og lotningu konu sinnar svo að hann fari að drottna yfir henni. Lotningin eða virðingin hvort fyrir öðru á að vera gagnkvæm. Drottni maðurinn yfir konu sinni er það honum synd og kemur það líka niður á börnum þeirra, ef þeim verður barna auðið.

6. kafli.

FORELDRAR OG BÖRN. Ef. 6:1-4.

Ef 6:1 Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.
Ef 6:2 „Heiðra föður þinn og móður,“—það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti:
Ef 6:3 „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.“
Ef 6:4 Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.

Hér höfum við kristilega skýringu á fjórða boðorðinu, bæði frá sjónarmiði barnana og feðranna. Ég held, að feðrum sé það ekki almennt ljóst, að þeir eigi ekki að reita börn sín til reiði. Þeir eigi aftur á móti að leiðbeina þeim í kærleika um hvað það er sem hryggir heilagan Guð og foreldrana. Þtta er mikilvægt atriði í uppeldi barna og áhrifameira til góðs uppeldis og innbyrðis kærleika innan fjölskyldunnar en líkamlegar hegningar.

Flestir foreldrar vilja að börn þeirra séu heiðarleg, en því miður eru til foreldrar, sem krefjast af börnum sínum að þau steli eða jafnvel selja þau á vald barna-glæpamönnum. Flestir foreldrar elska þó börnin sín. Það er erfitt fyrir þau börn að elska foreldra sína og virða þá, ef þeir hafa brugðist þannig forerldrahlutverki sínu.

Að ala börn sín upp í kristilgum aga er ekki fólgið í misþyrmingum á barninu eða flengingum, hafi því orðið eitthvað á, heldur á leiðbeinandi kærleika, sem foreldrar eiga að láta börnum sínum í té. Umvöndun og áminningar verða að vera í miklu hófi og í kærleika, til þess að börnin taki þær alvarlega og reyni að fara eftir þeim, enda séu allar áminningar og umvandanir í samræmi við Guðs orð, þótt ekki sé það nefnt á nafn. Þetta er vandi beggja foreldranna.

ÞRÆLAR OG HERRAR. Efes. 6:5-9.

Ef 6:5 Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur.
Ef 6:6 Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga.
Ef 6:7 Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn.
Ef 6:8 Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.

Setjum okkur snöggvast í spor þrælsins, sem af flestum var metinn af húsbændum og frjálsu fólki sem húsdýr, sem hægt var að versla með, misþyrma eftir geðþótta eða lífláta eftir vild, án þess að brjóta lög. Þrælar voru menn sem farið var með eins og húsdýr. Páll hvetur þrælana til að breyta eins og ábyrgir menn í kristilegum kærleika, og líta á störf sín sem þjónustu við Drottin. Það er lærdómsríkt fyrir okkur, sem erum frjálsir menn.

Kristnir þrælar þekktu sögu Jakobs, sem bræður hans seldu sem þræl, en varð næstur að völdum Faraó Egyptalagskonungi og bjargaði þjóðum frá hungurdauða. Kristnir þrælar hlýddu þessum ráðum Páls með mismunandi árangri, en ekkert af því hefur verið varðveitt í ritum biblíunnar. Sagan „Kofi Tómasar frænda“ er merkilegasta saga sem rituð hefur verið um kristin, svartan, trúaðan þræl í Ameríku, og olli vakningu sem leiddi af sér „þrælastríðið“, sem Abraham Lincoln, Bandaríkjaforseti stóð fyrir og leiddi til frelsunar þrælanna þar.

Páll beinir síðan orðum sínum að þrælaeigendunum:

Ef 6:9 Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.

Enginn vafi er á því, að hinir kristnu þrælar, sem fylgdu ráðum Páls, hafi í flestum tilfellum hlotið af því blessun Guðs og veitt húsbændum sínum blessun hans. Þetta er athyglisvert vers, sem hafði áhrif á kristna þrælaeigendur, og málefni þrælahaldsins einnig á seinni tímum, t.d. í Ameríku.

Páll postuli leit á sig sem þræl Jesú Krists. Í íslensku biblíuþýðingunum hefur orðinu þræll oftast verið breytt í þjónn.

Hér lýkur „hústöflunni“ og við taka leiðbeiningar til hins almenna, kristna manns.

ALVÆPNI GUÐS. Efes. 6:10-20.

Ef 6:10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
Ef 6:11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
Ef 6:12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.

Allur baráttukraftur kristins manns þarf að vera sprottinn af samfélaginu við Jesú Krist í krafti hans og í heilögum anda. Sem lifandi-trúaður maður berst hann andlega við djöfulinn og þarf bæði að vera alvopnaður og með trausta vörn fyrir árásum hans. Þessum andlega búnaði kristins manns er lýst með því að líkja honum við vopnabúnað hermanns þessa tíma nákvæmlega bæði í varnarstöðu í baráttu kristins manns við djöfulinn og vélabrögð hans (þ.e. blekkingar- og svikabrögð hans).

Ef 6:13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.

Síðan kemur táknræn lýsing á alvæpni hermanns á þessum tímum:

Ef 6:14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
Ef 6:15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.[Orðskýring 1]
Ef 6:16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
Ef 6:17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
Ef 6:18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
Ef 6:19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.
Ef 6:20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.

Orðskýring 1. Hér er íslenska þýðingin nokkuð ónákvæm og villandi að mínu mati. Orðrétt væri þetta:

og skóaðir á fótum með fúsleik fagnaðarboðskapar friðarins
sem þá þýðir að hinn kristni fær fúsleikann með því að hlýða á og hlýða fagnaðarboðskap friðarins, sbr. það sem Páll hefur ritað á undan í bréfinu, t. d. 2:14.

Í Hebreabréfinu er Guðs orði líka líkt við vopni í bardaga, andlega talað:

því að orð Guðs er lifandi og kröftugt beittara hverju tvíeggjuðu sverði, er smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. (Hebr. 4:12.)
Við þurfum því að lesa Guðs orð og helst að læra það utan bókar, svo að við getum notað það í baráttunni við að leiða aðra til trúar og líka til að verjast árásum vantrúarmanna.

Sterkasta vopn okkar í þeirri baráttu er Guðs orð og trúin sem býr í hjörtum okkar er vörn—skjöldur gegn allri villutrú, sem veður uppi á okkar tímum. Guðs orð var vopn Jesú Krists þegar hans var freistað af Satan í eyðimörkinni og sagt er frá í Matt. 4:1-11 og Lúk. 4:1-13. Sjáið hvað það er áríðandi að vera vel að sér í Nýjatestamentinu, til uppbyggingar trúarinnar og varnar gegn árásum á Guðs orð og lifandi trú!

LOKAORÐ. Efes. 6: 21-24.

Ef 6:21 En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu.
Ef 6:22 Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.

Hér lýkur efni bréfsins, en bréfinu lýkur með friðarbæn Páls:

Ef 6:23 Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
Ef 6:24 Náð sé með öllum þeim, sem elska Drottin vorn Jesú Krist með ódauðlegum kærleik.

Kærleikur kristins manns til Jesú Krists er sprottinn er af því að maðurinn hefur tekið á móti Jesú Kristi sem persónulegum frelsara sínum. Það er sá kærleikur sem Páll er hér að tala um. Þá er sú trú ekki bara fróðleikur um Jesú og allt sem hann gerði og um trúna á hann, heldur einlægur kærleikur til frelsarans Jesú Krists—persónulegs frelsara. Sért þú í hópi þeirra, sem trúir á hann í einlægni, er þetta líka kveðja til þín frá Guðs orði.