Til baka í yfirlit.

BIBLÍUSKÝRINGAR:

1. TÍMÓTEUSARBRÉF

1. lestur:
KYNNING

Ég sem útskýri þetta bréf, er ekki sérfræðingur, heldur kennari, en kynni fyrst Tímóteus út frá Postulasögunni:

TÍMÓTEUS

Páll postuli hefur kynnst Tímóteusi í fyrstu kristniboðsferð sinni. Þá ferðaðist hann með Barnabasi fyrst til Selevkíu og þaðan til eyjarinnar Kýpur, þaðan til Perge í Pamfýlíu og síðan til Antíokkíu og Pisidíu. Þaðan fóru þeir til Íkoníum, Lýstru og Derbe.

Það er álitið, að Tímóteus hafi þá átt heima í Lýstru og þar hafi Páll mætt þessum pilti í fyrsta sinn og líklegt er, að þá hafi pilturinn eignast lifandi trú á Jesú Krist ásamt móður hans og ömmu, sem báðar voru Gyðingar, en faðir hans var grískur og því var drengurinn óumskorinn. Ekkert annað er vitað um föður hans. Hugsanlegt er því, að hann hafi yfirgefið konu og barn.

Móðir hans hét Evnike og amma hans Lóis og voru þær báðar trúaðar Gyðingakonur áður en þær urðu kristnar. Sem Grikki var hann ekki bundinn af hjónabandinu eins og Gyðingar á þessum tímum.

Það er auðséð á fyrstu málsgreininni í Fyrra Tímóteusar- bréfinu, að það er Páll, sem kemur því til leiðar að Tímóteus eignast lifandi trú á Jesú Krist, því hann segir þar:
Páll að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi heilsar Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni.

Í fyrstu kristniboðsferð Páls kemur upp ósætti milli Páls og Barnabasar út af því að ungur frændi Barnabasar, Jóhannes Markús, sem var með þeim í fyrstu kristniboðsferð Páls, yfirgaf þá eða gafst upp. Það var sá Markús sem skrifaði Markúsarguðspjallið og varð tryggur lærisveinn Péturs postula.

Það varð til þess, að Barnabas fór sjálfur í kristniboðsferð með Jóhannesi Markúsi. Um þá ferð vitum við ekkert.

Jóhannes Markús mun hafa komist til trúar fyrir áhrif Péturs postula og líklegt að hann hafi verið skírður af honum hinn fyrsta hvítasunnudag kristninnar.

Markús mun hafa átt heima í húsinu, þar sem Jesús hafði síðustu kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum áður en hann fór með þeim út í Getsemane-garðinn kvöldið áður en hann var svikinn, píndur og krossfestur.

En það er í annarri kristniboðsferð sinni með Sílasi, sem Páll kemur aftur til Lýstru. Tímóteus hefur á þessum tíma vaxið og þroskast undir handarjaðri trúaðrar móður sinnar og ömmu.

Bræðurnir í Lýstru gáfu honum góð meðmæli. Í 16, kapítula í Postulasögunni er fyrst sagt frá Tímóteusi:

Hann (Páll) kom til Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt, en faðir hans var grískur. Bræðurnir í Lýstru og Íkoníum báru honum gott orð. Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga, því að allir vissu þeir, að faðir hans var grískur. (Post. 16:1-3)

Í þessari kristniboðsferð fékk Páll köllun frá Guði um að fara yfir til Makedóníu og Grikklands í Evrópu með fagnaðarerindið. Páll var þá staddur í Tróas í Litlu-Asíu.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: 'Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!'

Páll hlýddi þessari köllun og fór yfir til Evrópu og stofnaði þar sinn fyrsta söfnuð í borginni Filippí í Makedóníu. Þá hefur verið gott að hafa Tímóteus með, því hann hefur sjálfsagt talað grísku eins og Páll, en það var mál innfæddra á þessum slóðum.

Ég segi ekki þessa sögu lengra, heldur þýði nú hina fræðilegu umsögn um Tímóteusarbréfin úr sérritinu BIBELEN í Norsk Biblelleksikon.


FYRRA BRÉF PÁLS TIL TÍMÓTEUSAR.

Fyrra bréf Páls til Tímóteusar er hið tíunda í röð bréfanna í Nt., en samkvæmt tímaröð er það hið ellefta. Gagnstætt flestum öðrum bréfum Páls er þetta bréf sent til einstaklings. Það er samt ekki bara einkabréf. Páll skrifar það með tilliti til safnaðar og í umboði postuladómsins. Af því stafar hin óvænta, hátíðlega sjálfskynning:

Páll postuli Krists Jesú að boði Guðs, frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni.

Við erum því að lesa úr fjórða bréfasafni postulans, sem kallast hirðisbréf eða pastoral bréf, sem auk þessa bréfs eru Síðara Tímóteusarbréfið og Títusarbréfið. Hirðisbréfin fjalla meira eða minna um hæfni og ábyrgð og um ástand safnaðanna yfirleitt.

Það ástand, sem bréfin upplýsa, er ekki hægt að fella inn í það líf Páls sem fram kemur í Postulasögunni og fyrri bréfum hans. Það verður því að álíta, að postulanum hafi verið sleppt úr fangelsinu, sem getið er um í lok Postulasögunnar. (Post. 24:28). Það sýnir, að sannfæringin um að Páll yrði látinn laus, hefur ekki orðið sér til skammar. Hann hafi þá hugsanlega farið ferðina til Spánar, (Róm.15:24-28.), og síðan farið í heimsóknarferðir austur um frá Róm. Þá hafi hann komið við á Krít, þar sem hann skildi Títus eftir til þess að skipuleggja söfnuðinn þar. (Títus 1:5.)

Frá Krít gæti hann hafa farið fyrst til Litlu-Asíu og stoppað í Efesus. Þar hafi hann beðið Tímóteus, (sem sennilega hefur verið leiðsögumaður hans í ferðinni) að verða eftir (sjá síðar). Ef til vill hefur hann líka heimsótt söfnuðina í Lýkus-dalnum (Sjá Fílemonsbréfið 22.v.).

Síðan hefur postulinn farið til Makedóníu og vitanlega heimsótt söfnuðina í Filippí, Þessalóníku og Beröu.

Frá Makedóníu hefur hann síðan farið yfir til Litlu-Asíu og komið í Tróas (2. Tím.4:13.), og síðan stoppað aftur í Efesus, þar sem hann hefur kvatt Tímóteus (2. Tím.1:4.)

Frá Efesus hefur Páll ásamt Trófímusi farið til Míletus, þar sem hann skildi hann eftir veikan, (2:Tím.4:20.).

Síðasta stöðin sem hann hefur líklega komið á, hefur sennilega verið Nikopólis í Epýrus (í Vestur-Grikklandi). Þaðan hefur hann farið aftur yfir til Rómar, þar sem hann hefur aftur verið tekinn til fanga.


Bréfið, sem við ætlum að lesa, Fyrra Tímóteusarbréf, sendi hann Tímóteusi meðan hann dvaldi í Efesus, þar sem hann barðist gegn villutrúarmönnum, sem voru að störfum í söfnuðinum. (1:3)

Þar höfum við ástæðuna fyrir bréfaskriftunum. Postulinn hefur ekki getað stoppað svo lengi í Efesus, að hann gæti hafa séð fyrir endann á þeirri baráttu. Hann vonar að hann geti komið fljótt aftur, en hann bíður með það, segir hann við Tímóteus, til þess að hann viti hvernig á að haga sér í Guðs húsi. (3:14.)

Það sem undirstrikað er hér, er Þema bréfsins.
Tímóteus átti að bjóða mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar og gefa sig ekki að ævintýrum og gagnslausum ættartölum (sennilega ættarskrám Gyðinga), sem aðeins leiddi til deilna.

Þessir menn voru lögmálsboðendur, en skildu ekki hvað þeir voru að gera með því. Lögmálið er fyrir hina þverúðarfullu, en fagnaðarerindið er vegurinn til Guðs. Það er fagnaðarerindið um að Jesús Kristur kom í heiminn til að frelsa syndara. Það var hin sæla reynsla postulans.

Þannig var líka reynsla Tímóteusar. Hann lifði lífi trúarinnar og hafði góða samvisku. Góðri samvisku höfðu sumir kastað frá sér og liðið skipbrot á trú sinni. Það ríður á, að Tímóteus hefji nú trúarinnar góðu baráttu, til að bjarga öllum þeim sem ekki höfðu enn hrapað svo langt.

Því næst gefur postulinn fyrirmæli um guðsþjónustur safnaðarins. Um fram allt leggur hann þeim á hjarta, að hvetja þá til bæna, ákalla, fyrirbæna og þakkargjörða. Sérstaklega fari fram fyrirbænir fyrir yfirvöldum, svo að hinir trúuðu geti lifað kyrrlátu lífi í guðsótta og góðum siðum. Það gæti orðið trygging fyrir frelsi fyrir fagnaðarerindið, svo að það gæti náð sem víðast út, þar sem Guð vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. Þeirri frelsun hefur milligöngumaðurinn Jesús Kristur komið til leiðar, hann sem gaf sjálfan sig sem lausnargjald fyrir alla.

Menn mega ekki skaða bænir sínar með reiði og þrætum og konurnar eiga að koma á samkomurnar sómasamlega klæddar. Í stað skreytinga á klæðnaðinum, eiga þær að skreyta sig með góðunm verkum. Í samfélagi safnaðarins eiga þær ekki að koma fram sem kennarar (leiðtogar).

Postulinn gefur svo upp forskriftir fyrir þeirri hæfni, sem krafist er af tilsjónarmönnum og safnaðarþjónum. Um leið og gengið er út frá því, að þeir lifi trúarlífi með Guði, er það veigamest, að þeir hafi hina réttu siðferðislegu eiginleika, sem einnig koma fram í tilliti til annarra bæði inn á við og út á við. Söfnuðurinn sé stoð og stytta sannleikans, þess vegna væri áríðandi að umgangast Guðs hús á réttan hátt.

Miðdepillinn í lifandi söfnuði Guðs er hvorki meira aða minna hann, sem var opinberaður í holdi, réttlættur í anda, séður af englum, boðaður meðal þjóða, trúað í heimi og upphafinn í dýrð.

Postulinn segir fyrir um fráfall frá sannleika kristindómsins í tengslum við falskennendur sem fyrirlíta sköpunarfyrirkomulag Guðs. Til mótvægis við slíka kenningar er Tímóteus hvattur til að uppbyggja sig og söfnuðinn með fræðandi orðum trúar og lærdóms og vísa á bug vanheilögum kerlinga-ævintýrum. Hann á ekki að láta neinn líta niður á sig vegna æsku sinnar, heldur að vera fyrirmynd hinna trúuðu í orðum og gjörðum.

Hann á að leggja kapp á upplestur Ritninganna, á áminninguna, og kenninguna, þar til postulinn sjálfur kemur.

Hann má ekki vanrækja náðargáfuna sem hann fékk í spámannlegum orðum og handa-yfirlagningu. Gefi hann gaum að kenningunni, muni hann frelsa bæði sjálfan sig og aðra.

Síðan koma reglur um meðferð mismunandi aldurshópa og flokka innan safnaðarins, gamla og unga menn, gamlar og ungar stúlkur, eldri og yngri ekkjur, forstöðumenn og þjóna.

Aftur er aðvarað gegn villutrúarmönnum, sem líta á guðhræðsluna sem ávinning fyrir sig. Guðhræðslan er visslega mikill ávinningur, en það er guðsótti með nægjusemi. Þeir sem leitast við að verða ríkir í þessum heimi, verður það til tjóns, því að peningaást er undirrót hins illa. Þess í stað á Tímóteus að keppa eftir andlegum verðmætum: réttlæti, guðsótta, trú, kærleika, þolinmæði og lítillæti, en berjast trúarinnar góðu baráttu og höndla eilífa lífið, sem hann var kallaður til. Auk þess á hann að bjóða hinum ríku að setja ekki von sína á ríkidæmi sitt, heldur á Guð, sem gefur okkur ríkulega af því sem við þörfnumst og leggja kapp á góð verk.

Bréfið endar mð áminningu til Tímóteusar um að snúa sér frá vanheilögum hégómaræðum og mótsögnum hinnar rangnefndu þekkingar.

Fyrra Tímóteusarbréfið er sennilega skrifað eftir að Páll var kominn til Makedóníu frá Litlu-Asíu (sjá framar), þ.e. einhvern tíma á árunum 63-67.

Nokkurrar tortrygni hefur gætt um sagnargildi hirðisbréfanna.

Norsk Illustrert Bibelleksikon: Bibelen. bls. 77-78.


---

Fyrra Tímóteusarbréfið:

ÞAKKIR OG FFYRIRBÆNIR
1. Tím. 1:1-18.

Texinn lesinn úr Nýjatestamentinu.

Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni.
Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
(V. 1-2.)

Þótt þetta sé að mestu leyti einkabréf, er það á margan hátt boðskapur til allra manna, bæði til mín og þín, en þegar það er skrifað, er það fyrst og fremst boðskapur til Tímóteusar gagnvart þeim söfnuði sem hann þjónar sem ungur safnaðarstjóri. Þess vegna kynnir Páll sig nánar en þörf er á gagnvart svo nánum vini og samverkamanni, sem hann ávarpar sem skilgetinn son sinn í trúnni. Það bendir til þess að Tímóteus hafi komist til lifandi trúar fyrir starf Páls í prédikun eða í einkasamtali við þennan unga mann í vakningunni sem varð, þegar Evníke móðir hans og Lóis amma hans komust til trúarinnar í fyrstu kristniboðsferð Páls á þeim slóðum, þar sem þau hafa sennilga búið. Þetta má ráða af því, að Páll gengur út frá því að hann sé andlegur faðir Tímóteusar, því að Páll kallar hann - "skilgetinn son í trúnni"

Kveðjan er eftirtektarverð:

Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Hver þarf á náð og miskunn að halda? Aðeins sá sem er sekur.

Tímóteus er ekki syndlaus í þeirri merkingu, að hann syndgi aldrei. Nei, Tímóteus þarf á náð Guðs að halda eins og ég og þú - til fyrirgefningar á öllu því sem er synd í syndugu eðli hans, vanrækslu, hugsunum orðum eða gjörðum. Enginn náttúrlegur maður er svo fullkominn í trúnni, að ekki finnist synd hjá honum. Við þurfum öll á náð Guðs og miskunn að halda.

Það skiptir engu máli fyrir Guði hver syndin er. Synd er synd fyrir Guði. Hvergi í allri biblíunni er talað um stóra synd eða litla synd. Slíkt mat er mannaverk, en ekki Guðs.

Hjá Guði er náð að finna fyrir blóð Jesú Krists, bæði fyrir mig og þig. Allir, sem eru í Kristi, skírðir og frelsaðir eiga aðgang að náð Guðs. Bænin stígur upp til Guðs, en náðin stígur niður frá Guði.

Þegar þú hefur gefist Jesú, mátt þú taka þessa kveðju til þín biðja um náðina og friðinn og taka við náðinni og friðnum, sem gjöf frá Guði fyrir Jesú Krist og friðþæginarverk hans fyrir þig, persónulega. Þá átt þú líka fyrirgefningu allra þinna synda.



VARAÐ VIÐ VILLUKENNINGUM.
1. Tím. 3-11.

Textinn lesinn úr Nýjatestamentinu.

Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar
og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.
Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.
Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.
Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.
(V. 3-7.)

Það skín í gegnum þessa áminningu, að þarna er átt við Gyðingana í hinum kristna söfnuði, sem eru svona uppteknir af ættartölunum sínum, sem þeir gátu endalaust þrætt um.

Markmið þeirrar hvatningar, sem Páll biður Tímóteus að veita hinum kristnu -- hvort heldur þeir voru Gyðingar eða ekki -- kærleika Guðs sem verkar í hjarta hins trúaða manns.

Verkefni Tímóteusar er ekki lítið:

Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls. (6.v.)

Þar á Páll við ættartöldeilurnar. Hitt var þó ennþá alvarlegra, að í þessm hópi voru menn, sem vildu halda fast við lögmálið og kenndu það sem trúarskyldu kristinna manna að halda það, en ekki trúarleiðbeiningu. Þess vegna þarf Páll að fjalla um lögmálið í ljósi kristindómsins eins og Páll fer nú að útskýra:

Vér vitum að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega
og viti, að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum ogþverbrotnum, óguðlegum og syndurun, vanheilögum og óhreinum föðurmorðingjum, manndrápurum,
frillulífsmönnum, mannhórfum, mannaþjófum, lygurun, meinsærismönnum og hvað það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.
Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.
(V.8-11.)

Í þessum versum dregur Páll fram í grófum dráttum hverjum lögmálið var og er ætlað, en tekur um leið fram að lögmálið sé gott, noti menn það réttilega. Þannig á hinn kristni maður að nota lögmálið -- nota það til áminningar og leiðbeiningar um hvað er rétt og rangt og hvað er synd gegn Guði.

Allt sem brýtur gegn boðorðunum er synd. Það þarf kristinn maður að vita. En hann þarf líka að vita, að frelsun hans er ekki fólgin í því að fullnægja kröfum lögmálsins og boðorðanna, heldur í einlægri trú á frelsarann Jesú Krist. Samfélagið við hann veldur því, að hinn kristni, trúaði maður keppir í einlægni eftir því að breyta ekki í neinu gegn boðorðunum tíu.

Boðorðin eru mönnunum gefin fyrst og fremst til þess að syndarinn sjái og viðurkenni brot sín gegn heilögum Guði og snúi sér svo til Jesú Krists, sem dó fyrir syndir hans, játi syndir sínar fyrir honum og treysti á náð hans og fyrirgefningu. Þetta var bæði Páli og Tímóteusi ljóst, enda segir Páll:

Vér vitum, og í 11. versinu: Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hina blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.

ÉG ÞAKKA GUÐI.
1.Tím. 1:12-20.

Textinn lesinn úr Nýjatestamentinu.

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,
mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita hvað ég gjörði.
Og náðin Drottins vr stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.
(V. 12-14.)

Náð Drottins kom fram í því að kalla hann, ofsækjandann sjálfan, til þjónustu við sig og fyrirgefa honum allar hans fyrri syndir fyrir fórnardauða sonar hans, Jesú Krists.

Þú þekkir þennan kærleika, ef þú hefur komið í einlægni til hans með syndir þínar játað þær fyrir honum, beðið hann fyrirgefningar og heitið honum að fylgja honum -- gefist honum í einlægni. Þetta hafa milljónir manna gert síðan. Ég er einn þeirra.

Láttu það ekki dragast að gefast honum í einlægni, því þegar þú hefur gert það, fyllir hann þig kærleika til hans og löngun til að þjóna honum, því þá kemst heilagur andi, sem í þér býr eftir skírnina, að í hjarta þínu og fyllir þig gleði og hamingju. Þá verður Guðs orð þér lifandi og kröftugt bæði til áminningar og hvatningar.

Ef heilagur andi er virkur í þér, umbreytir hann lífi þínu til þjónustu fyrir frelsara þinn Jesú Krist.

Það orð er satt og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.
(V. 15.)

Með þessum orðum játar Páll, að hann sé fremstur allra syndara -- mesti syndarinn. Fjölda mörgum frelsuðum syndurum finnst -- eins og Páli -- þeir vera mestu syndararnir. Þú gætir verið meðal þeirra, sem taka undir þetta með honum.

En fyrir Guði er ekkert sem heitir mesti syndarinn, heldur bara syndari. Jesús er frelsari syndara og enginn annar, og ekkert annað kemur í stað Jesú í þeim efnum.

Á þessum orðum Páls sjáum við hve iðrun hans hefur verið djúp. En þjónusta hans var líka sönn og einlæg.

En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt þeim til dæmis sem á hann munu trúa til eilífs lífs.
(16.v.)

Jesús er frelsari syndara, þeirra sem viðurkenna fyrir honum, að þeir séu syndarar og fela sig algerlega í náðarfaðm hans í einlægri bæn. Hafir þú gert það, þá getur þú gert þessi orð Páls að þínum:

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýninlegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
(17.v.)

Hér sjáum við hjartanlega lofgjörð til Guðs fyrir frelsun -- fyrirgefningu syndanna og náið samfélag við Drottin Jesú Krist. Við ættum að lofa Drottin oftar og meira fyrir frelsun okkar. Þú sem tekur við Jesú í dag sem persónulegum frelsara þínum, átt eftir að lofa hann af öllu hjarta.

Í næsta versi kemur fram að Páll hefur áður vitnað fyrir Tímóteusi og hvetur hann nú til að lifa heilbrigðu trúarlífi:

Þetta er það sem ég minni þig á, barnið mitt. Tímóteus, með þau spáómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu
í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.
Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef sett Satan á vald, til þess ð hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.
(V. 18-20.)

Þessir tveir menn hafa verið reknir úr samfélaginu, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.

Enginn veit hvort þetta ráð dugði, en hér hefur Páll beitt svo kölluðum safnaðaraga, sem er vel þekktur, þar sem ekki er ríkiskirkja eins og hér á Íslandi.

Til baka í yfirlit.