Til baka í heimasíðu

Efnisyfirlit Biblíulestra.

Björgvin Jörgensson

Björgvin Jörgensson kennari:

Biblíuskýringar

Inngangur

Björgvin Jörgensson kennari á Akureyri er fyrstur Íslendinga til að rita skýringar við nær öll rit Biblíunnar.

Björgvin var leikmaður í þessum fræðum, þ.e.a.s., hann hafði ekki próf í Guðfræði. Hann var áhugamaður um Biblíuna og trúmaður. Hann var hins vegar kennari að mennt og starfaði sem slíkur mestalla sína ævi. Hann starfaði einnig sem tónlistarkennari um tíma, eða þar til að hann slasaðist alvarlega í vinnuslysi á Akranesi, sumarið 1958. Til þess tíma hafði hann stjórnað Barnakór Borgarness og síðar Barnakór Akureyrar og fór með þann síðarnefnda í mikla tónleikaferð til Noregs sumarið 1954.

Eftir árs veikindaleyfi 1958-9 tóku hann og eiginkona hans, Bryndís Böðvarsdóttir, orlofsár frá kennslu og hófu bæði nám við Fjellhaug Missions og Bibelskoler í Osló, hún námskeið fyrir starfsfólk í kristilegu barna- og unglingastarfi, en hann tók eins árs nám í Biblíu- og prédikunarfræðum.

Björgvin var lengi formaður KFUM á Akureyri.

Hér verða lögð drög að því að gera almenningi kleyft að notfæra sér það verk, er hann hóf um það bil er hann lét af kennarastörfum fyrir aldurs sakir, og lauk að mestu stuttu fyrir dauða sinn. Reikna má með að það taki nokkur ár að koma öllu verkinu til skila, en það vinn ég, sem að þessum vef stend, allt í mínum frítíma.

Björgvin hélt marga biblíulestra bæði í KFUM og KFUK og í Akureyrarkirkju.

Ég hef fært þetta verk hans í búning fyrir Internetið í HTML formi en reynt að hrófla að öðru leyti við sem minnstu í verkum hans. Nokkrar athugasemdir hef ég samt sett inn hér og þar og á að vera óhætt að fylgja tenglum í því sambandi, því að tenglar eru líka til baka.

Þar sem ég tel sérstaka ástæðu til bæti ég inn sérköflum frá sjálfum mér eða öðrum.

Þeir sem koma vilja skilaboðum eða athugasemdum til mín, geta sent mér tölvupóst. Póstur til Böðvars.

Biblíutextar eru birtir með góðfúslegu leyfi Hins íslenska Biblíufélags.

Áður en þú lest skýringarnar, er best að hafa í huga að til þess að njóta Guðs Orðs er nauðsynlegt að hafa næði, undirbúa sig í bæn til Drottins og lesa síðan þann kafla í Biblíunni, sem lesturinn á að skýra, vel og af athygli.

Af Jóh. 5:39-40 sjáum við að Jesús staðfestir Gamla testamentið og segir að það tali um hann sjálfan. Af ýmsum öðrum stöðum sjáum við einnig að öll Ritningin gerir tilkall til þess að vera sönn og að vera sannleikurinn. Ef hún er það, hlýtur hún að sanna það af sjálfri sér, af sínu eigin samhengi.

Ég hvet þig hérmeð til þess að leggja í leiðangur til þess að sanna eða afsanna þetta fyrir sjálfum/sjálfri þér. Þessi vefur er mitt framlag til þess að aðstoða þig við það.

Böðvar Björgvinsson.

Fara í Biblíulestra.